Helstu atriði í afkomu fjórða ársfjórðungs og ársuppgjörs 2023 (allar upphæðir eru í evrum)
- Búast má við hóflegum vexti á árinu 2024 (e. low single digit) og að EBIT framlegð verði á bilinu 10-11%, væntingar eru um lægri afkomu á fyrsta ársfjórðungi 2024.
- Til meðallangs tíma er reiknað með að tekjur félagsins muni vaxa hraðar en markaðurinn, og að EBIT framlegð félagsins verði komin yfir 14% og EBITDA framlegð yfir 18%.
- Mikill bati náðist fram á sjóðstreymi félagsins í fjórðungnum einkum vegna minni fjárbindingar í hreinum veltufjármunum. Í lok árs 2023 var skuldahlutfall undir 3,5x, lausafjárstaða sterk og svigrúm í lánaskilmálum er ríflegt fyrir árið 2024.
- Mótteknar pantanir námu 466,4 milljónum evra á fjórða ársfjórðungi sem sýnir undirliggjandi bata.
- Þjónustutekjur náðu 800 milljónum evra á ársgrundvelli, en þær voru 200,5 milljónir evra í fjórðungnum.
- EBIT framlegð nam 9,6% og batnaði á milli ársfjórðunga. Munar helst um sterkan fjórðung í plöntupróteinum og fóðri fyrir fiskeldi og gæludýr (e. Plant, Pet and Feed) sem og sterka afkomu í kjúklingaiðnaði á meðan framlegð í fisk- og kjötiðnuðum var undir væntingum.
Helstu atriði í afkomu fjórða ársfjórðungs 2023
- Pantanir námu 466,4 milljónum evra (3F23: 390,8m, 4F22: 413,4m).
- Tekjur voru 448,0 milljónir evra (3F23: 403,6m, 4F22: 489,2m).
- EBITDA[1] 13,1% af tekjum (3F23: 12,9%, 4F22: 15,9%).
- EBIT[1] 9,6% af tekjum (3F23: 9,0%, 4F22: 12,4%).
- Hagnaður nam 8,7 milljónum evra (3F23: 10,1m, 4F22: 18,5m).
- Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta var 102,0 milljónir evra (3F23: 62,4 m, 4F22: 44,3m).
- Frjálst sjóðstreymi var 83,4 milljónir evra (3F23: 32,4m, 4F22: 10,0m).
Helstu atriði í afkomu ársins 2023
- Pantanir námu 1.626,3 milljónum evra (2022: 1.734,0m).
- Pantanabókin stóð í 580,1 milljónum evra (2022: 675,2m).
- Tekjur voru 1.721,4 milljónir evra (2022: 1.708,7m).
- EBITDA[1] 12,6% af tekjum ársins (2022: 13,0%).
- EBIT[1] 8,9% af tekjum ársins (2022: 9,6%).
- Hagnaður nam 31,0 milljónum evra (2022: 58,7m).
- Hagnaður á hlut (EPS) var 4,11 evru sent (2022: 7,78 evru sent).
- Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta var 225,8 milljónir evra (2022: 96,4m).
- Frjálst sjóðstreymi var 109,4 milljónir evra (2022: -18,1m).
- Skuldahlutfall[2] (nettó skuldir/EBITDA) var 3,45x í lok desember (2022: 3,42x).
- Stjórn mun leggja til við aðalfund félagsins þann 20. mars 2024 að hluthafar fái greiddan arð sem nemur 0,82 evru sentum fyrir rekstrarárið 2023 sem samsvarar 20% af hagnaði ársins. Áætluð heildararðgreiðsla nemur um 6,2 milljónum evra og er í samræmi við 20-40% arðgreiðslustefnu.
Ítarlegri umfjöllun um rekstur og afkomu félagsins má finna í fullri enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar sem finna má í viðhengi (íslenska útgáfan veitir aðeins yfirlit yfir helstu þætti uppgjörsins, horfur, fjárfestafund og fjárhagsdagatal).
Árni Sigurðsson, forstjóri Marel:
„Það er ánægjulegt að birta uppgjör okkar í fyrsta sinn sem forstjóri Marel. Þrátt fyrir að árið 2023 hafi verið ár áskorana, hefur starfsfólk félagsins sýnt bæði staðfestu og áræðni í að efla rekstur félagsins. Þetta sést hvað best á þeim árangri sem náðst hefur í bættu sjóðstreymi og auknum pöntunum á fjórða ársfjórðungi. Áfram leggjum við mikla áherslu á að bæta arðsemi félagsins.
Í lok 2023 tilkynntum við um móttöku viljayfirlýsingar um yfirtökutilboð frá JBT og í janúar var ákveðið að ganga til frekari viðræðna og vinna gagnkvæma áreiðanleikakönnun. Að svo stöddu getum við ekki veitt frekari upplýsingar hvað þetta varðar. Við munum áfram einblína á að skila góðu verki fyrir viðskiptavini okkar, starfsfólk og hluthafa þar sem ljóst er að niðurstöðu er ekki að vænta alveg á næstunni.
Litið fram á veginn þá reiknum við með hóflegum vexti á árinu, þó fyrsti ársfjórðungur verði þungur. Eitt af mínum fyrstu skrefum sem forstjóri var að yfirfara og álagsprófa áætlanir félagsins og tryggja að við tökum rétt skref til að ná markmiðum okkar. Á grundvelli þeirrar vinnu setjum við nú fram ný markmið til meðallangs tíma sem miða að því að bæta fjárhagsstöðu og arðsemi svo við getum vaxið hraðar en markaðurinn og skilað árangri sem endurspeglar undirliggjandi getu og styrk félagsins. Ég vil þakka öllu okkar frábæra starfsfólki fyrir sitt mikilvæga framlag til þess að styðja viðskiptavini okkar í því að umbylta matvælavinnslu á heimsvísu.“
Horfur og fjárhagsleg markmið til meðallangs tíma endurskoðuð
Í ljósi áskorana í ytra efnahagsumhverfi og starfsumhverfi viðskiptavina, sem og óvissu um hvenær vænta má viðsnúnings á mörkuðum, hafa stjórnendur Marel endurskoðað áætlanir félagsins bæði fyrir árið 2024 og til meðallangs tíma. Langtímahorfur fyrir iðnaðinn eru óbreyttar þar sem reiknað er með að árlegur meðalvöxtur markaðar nemi 4-6%.
Félagið gerir ráð fyrir tekjusamdrætti og lægri afkomu á fyrsta ársfjórðungi 2024 sem skýrist af lágri stöðu pantanabókar, sem samsvarar 34% af tekjum síðustu tólf mánaða, og lágu hlutfalli pantana fyrir stærri verkefni á síðustu ársfjórðungum. Búist er við því að mótteknar pantanir og tekjur muni byggjast upp yfir árið, sem leiði til hóflegs (e. low single digit) innri tekjuvaxtar fyrir árið 2024 og bættrar afkomu sem nemur 10-11% EBIT framlegð.
Þegar litið er til meðallangs tíma má greina jákvæð merki hjá viðskiptavinum sem og á þeim mörkuðum sem Marel starfar á. Til að skila öflugum tekjuvexti og bættri afkomu í framtíð þarf að byggja upp pantanabók félagsins. Til meðallangs tíma gerir Marel ráð fyrir tekjuvexti umfram markaðsvöxt (4-6% árlega), EBITDA framlegð yfir 18% og EBIT framlegð yfir 14%.
Þá er byggt á áframhaldandi lækkun veltufjárbindingar, áhersla verður áfram lögð á sjóðstreymi og arðsemi til að ná settu marki um skuldahlutfall milli 2-3x, og gert er ráð fyrir að fjárfestingar, að frátöldum fjárfestingum í rannsóknum og þróun, muni ná jafnvægi í sem nemur um 2-3% af tekjum eftir tímabil aukinna innviðafjárfestinga.
Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma, ekki verði veruleg stigmögnun á umróti í alþjóðlegu efnahagsumhverfi og aðfangakeðjum, og virkt skatthlutfall nemi um 20%. Áætlaður vöxtur er háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og því má gera ráð fyrir að hann verði ekki línulegur. Reikna má með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveiflna í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.
Tillaga um arðgreiðslu
Stjórn Marel mun leggja til við aðalfund félagsins, sem haldinn verður þann 20. mars 2024, að hluthafar fái greiddan arð fyrir rekstrarárið 2023 sem nemur 0,82 evru sentum á hlut eða sem samsvarar 20% af hagnaði ársins. Tillagan er í samræmi við arðgreiðslustefnu félagsins.
Verði tillagan samþykkt, nemur áætluð heildararðgreiðsla um 6,2 milljónum evra, samanborið við 11,7 milljónir evra á fyrra ári, og kæmi til greiðslu þann 11. apríl 2024.
Afkomufundur með markaðsaðilum
Fimmtudaginn 8. febrúar 2024 kl 8:30 verður haldinn afkomufundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila. Þar munu Árni Sigurðsson forstjóri og Stacey Katz fjármálastjóri kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri á fjórða ársfjórðungi og árinu í heild sinni.
Afkomufundurinn verður haldinn í höfuðstöðvum félagins í Austurhrauni 9, Garðabæ. Boðið verður upp á morgunverð frá kl. 8:00.
Fundinum verður einnig streymt beint á Zoom og upptaka af fundinum verður aðgengileg á marel.com/ir eftir fundinn. Skráning fer fram hér.
Fjárhagsdagatal
Aðalfundur – 20. mars 2024
1F 2024 – 29. apríl 2024
2F 2024 – 24. júlí 2024
3F 2024 – 30. október 2024
4F 2024 – 12. febrúar 2025
[1] Rekstrarniðurstaða og EBITDA aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum tengdum yfirtökum (PPA), kostnaði tengdum yfirtökum og einskiptiskostnaði vegna endurskipulagningar. Á fjórða ársfjórðungi 2023 er rekstrarniðurstaða jafnframt leiðrétt fyrir kostnaði tengdum endurskipulagningu á vöruframboði félagsins.
[2] Nettó skuldir (án leiguskuldbindinga) / Pro forma leiðrétt EBITDA síðustu 12 mánaða (að yfirteknum félögum meðtöldum) án óreglulegra liða samkvæmt lánasamningum Marel.