Fitch staðfestir A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs með stöðugum horfumLánshæfismatsfyrirtækið Fitch Ratings hefur birt mat á lánshæfi ríkissjóðs. Lánshæfiseinkunn er óbreytt í A og horfur eru stöðugar. Í fréttatilkynningu Fitch segir að A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs endurspegli miklar tekjur á mann og góða stjórnarhætti sem eru sambærilegri við lönd með AAA og AA lánshæfiseinkunn. Umtalsverður viðnámsþróttur; eins og mikill gjaldeyrisforði og góð sjóðsstaða ríkissjóðs, dregur úr næmni gagnvart ytri áföllum. Til styrkleika teljast verulegar lífeyrissjóðseignir, traust fjármálakerfi og sterkir efnahagsreikningar einkageirans. Smæð hagkerfisins, einsleitni útflutnings og háar opinberar skuldir halda aftur af einkunninni. Aukin tiltrú á markverða og viðvarandi lækkun í skuldahlutfalli hins opinbera, meiri leitnivöxtur þjóðarbúsins og/eða vísbendingar um aukna fjölbreytni hagkerfisins sem minnka næmni Íslands gagnvart ytri áföllum gætu haft jákvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Markvert verra skuldahlutfall hins opinbera, til dæmis vegna viðvarandi slaka í ríkisfjármálum, eða alvarlegt efnahagsáfall, til dæmis vegna skarprar leiðréttingar á fasteignamarkaði, gætu haft neikvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Nánari upplýsingar eru á www.fjr.is
|