English Icelandic
Birt: 2024-02-20 14:42:47 CET
Fly Play hf.
Fyrirtækjafréttir

Fly Play hf.: Stærstu hluthafar leggja félaginu til aukið hlutafé

Þann 8. febrúar 2024 tilkynnti Fly Play hf. („PLAY“ eða „félagið“) að félagið áformaði að sækja sér nýtt hlutafé sem gæti numið á bilinu 3.000 til 4.000 milljónum króna til að styrkja enn frekar lausafjárstöðu félagsins. Forsvarsmenn PLAY ásamt ráðgjöfum sínum hafa því á undanförnum dögum kannað hug stærstu hluthafa félagsins til þess að leggja félaginu til aukið hlutafé.

Stjórn PLAY hefur nú safnað áskriftarloforðum frá hluthöfum sem nemur 574.943.745 hlutum að nafnverði og er útgáfugengið á hvern hlut kr. 4,5.  Samanlögð fjárhæð þeirra áskrifta sem félagið hefur móttekið nemur 2.587.246.853 milljónum króna. Áskriftirnar eru háðar þeim skilyrðum að hluthafar PLAY samþykki að veita stjórn félagsins heimild til að auka hlutafé félagsins á aðalfundi þann 21. mars næstkomandi og því að félaginu takist að afla áskrifta að nýju hlutafé fyrir a.m.k. 4.000 milljónir króna að meðtöldu því hlutafé sem kemur frá núverandi hluthöfum.

Félagið hyggst á næstum vikum halda áfram að ræða við fjárfesta úr hópi núverandi hluthafa og hefja  viðræður við aðra fjárfesta, með það að markmiði að afla frekari skuldbindinga um þátttöku í fyrirhugaðri hlutafjáraukningu. Stefnt er að því að tilkynna um endanlegt umfang aukningarinnar og helstu skilmála samhliða boðun aðalfundar í lok þessa mánaðar auk frekari upplýsinga um skráningu á aðalmarkað Nasdaq Iceland.

Birgir Jónsson, forstjóri PLAY:

„Ég er gríðarlega ánægður með þessa sterku stuðningsyfirlýsingu okkar stærstu hluthafa við félagið með áskriftarloforði að fjárhæð um 2.600 milljónum króna. Þátttaka okkar sterka hluthafahóps í fyrirhugaðri hlutafjáraukningu skapar skilyrði til að ljúka þeirri hlutafjáraukningu sem félagið áformar.

Eins og fram kom á afkomufundi okkar fyrr í febrúar eru skýr merki um bata í rekstrinum og er núverandi lausafjárstaða vel viðunandi, þrátt fyrir hraðan vöxt og ítrekuð ytri áföll í rekstrarumhverfinu.

PLAY hefur á að skipa frábærum hópi starfsfólks sem hefur staðið sig gríðarlega vel á undanförnum árum. Með enn betri fjármögnun hefur félagið  meiri styrk til að mæta óvæntum áföllum og getu til að grípa spennandi vaxtatækifæri. Ég vil þakka okkar stærstu hluthöfum okkar þá tiltrú sem þeir sýna félaginu eftir þessa fyrstu lotu og hlakka til að kynna reksturinn enn betur fyrir öðrum fjárfestum og markaðsaðilum. Framtíð PLAY er mjög björt og félagið er vel í stakk búið að vaxa og dafna á markaðinum.“

Útboðið er lokað og beinist að (i) aðilum sem hver um sig kaupir fyrir jafnvirði a.m.k. 100.000 evra í íslenskum krónum, (ii) færri en 150 aðilum öðrum en hæfum fjárfestum, og/eða (iii) hæfum fjárfestum. Útboðið er því undanþegið gerð lýsingar á grundvelli d.-, b.- og a.-liðar 4. mgr. 1. gr. reglugerðar Evrópusambandsins og ráðsins (ESB) nr. 2017/1129, sem innleidd var með lögum nr. 14/2020. Tilkynning þessi er eingöngu sett fram í upplýsingaskyni og felur ekki í sér né er hún hluti af útboðinu eða boð um kaup eða áskrift á verðbréfum félagsins.

Meðfylgjandi er fjárfestakynning PLAY sem farið hefur verið yfir á fundum með stærstu hluthöfum félagsins ásamt spurningum fjárfesta og svörum félagsins sem fylgdi kynningunni.

Arctica Finance hf. hefur umsjón með útboðinu og eru Fossar fjárfestingarbanki hf. og Greenhill (Mizuho) söluaðilar.

Viðhengi



Fly Play hf. Information Memorandum.pdf
Fly Play hf. - QA with Information Memorandum.pdf
Fly Play hf. Strstu hluthafar leggja felaginu til auki hlutafe.pdf