Published: 2018-01-31 17:49:31 CET
Origo hf.
Reikningsskil

Ársuppgjör Origo hf. - 433 mkr heildarhagnaður 2017

Origo hf. verður til við sameiningu Nýherja hf., TM Software ehf. og Applicon ehf.

REYKJAVÍK - 31. janúar 2018 - Origo hf. kynnti í dag uppgjör fjórða ársfjórðungs og heildaruppgjör fyrir 2017    

Helstu upplýsingar:

  • Sala á vöru og þjónustu nam 3.944 mkr á fjórða ársfjórðungi (6,8% tekjusamdráttur frá F4 2016) og 15.064 mkr á árinu 2017 (1,9% tekjuvöxtur frá 2016) [F4 2016: 4.233 mkr, 2016: 14.788 mkr]
  • Framlegð nam 1.044 mkr (26,5% af tekjum) á fjórða ársfjórðungi og 3.783 mkr (25,1% af tekjum) á árinu 2017 [F4 2016: 1.108 mkr (26,2% af tekjum), 2016: 3.784 mkr (25,6% af tekjum)]
  • EBITDA nam 246 mkr (6,2% af tekjum) á fjórða ársfjórðungi og 928 mkr (6,2% af tekjum) á árinu 2017 [F4 2016: 335 mkr (7,9% af tekjum), 2016: 1.021 mkr (6,9% af tekjum)]
  • Heildarhagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 167 mkr og 433 mkr á árinu 2017 [F4 2016: 180 mkr, 2016: 383 mkr]
  • Eiginfjárhlutfall var 41,6% í lok árs, en 33,7% í lok árs 2016
  • Lausnaframboð í hugbúnaðarlausnum eflt á árinu með kaupum á Timian beiðna- og innkaupakerfi, Dacoda bílaleigukerfi og rekstri Microsoft Dynamics NAV deildar frá AGR
  • Origo hf. verður til við sameiningu Nýherja hf., TM Software ehf. og Applicon ehf.         

Finnur Oddsson, forstjóri:

Hagnaður á síðasta rekstrarári nam 433 mkr sem er ágæt aukning frá 2016, þegar hann var 383 mkr. Á sama tíma dregst rekstrarhagnaður (EBITDA) saman, úr 1.021 mkr í 928 mkr. Reksturinn var um margt ögrandi, en tekjuvöxtur félagsins var 2% sem er nokkuð undir væntingum. Þennan dræma tekjuvöxt má annars vegar rekja til minni búnaðarsölu en á síðasta ári og hins vegar til styrkingar íslensku krónunnar á milli ára, þar sem stór hluti tekna félagsins er annaðhvort í erlendri mynt eða tengdur verði þeirra. Á gjaldahliðinni munar mestu um hækkun launakostnaðar vegna kjarasamningsbundinna hækkana og launaskriðs. Samanlagt skýrir þetta samdrátt í rekstrarhagnaði á milli ára. Þess ber þó að geta að félagið hefur að hluta til varist gengisáhættu með áhættuvörnum sem styrkja niðurstöðu ársuppgjörs að þessu sinni.  

Tekjur á fjórða ársfjórðungi voru undir áætlun og drógust saman frá árinu á undan. Þar munar um að umfangsmiklar búnaðarsölur til stærri viðskiptavina voru færri en á metfjórðungi árið áður. Ágæt tekjuaukning var hins vegar á flestum öðrum sviðum, einkum í sölu á eigin hugbúnaðarlausnum. Það hefur verið gaman að sjá viðtökur við Kjarna, launa- og mannauðskerfi, þar sem áskriftartekjur hafa tvöfaldast á milli ára og gæðastýringarlausninni CCQ, sem nýtt er við innleiðingu gæðakerfa og GDPR. Mikil eftirspurn er eftir öryggislausnum á borð við QRadar og Guardium sem fyrirtæki nota til úttektar  og vöktunar á eigin kerfum en einnig sem hluta af innleiðingu GDPR. Sala á PC búnaði er stöðug og verulegur vöxtur er í sölu á hljóð- og myndlausnum. Það er svo sérstaklega ánægjulegt að bjóða velkominn fjölda nýrra viðskiptavina sem hafa úthýst UT-rekstri til okkar á síðustu mánuðum. 

Rekstur Tempo gekk mjög vel á árinu, einkum á síðari hluta þess. Eftir nokkuð ögrandi breytingarverkefni á fyrri helmingi árs hafa viðskiptavinir tekið vel í nýja útgáfu af Tempo Cloud for Jira, sem endurspeglast í sterkum tekjuvexti á síðasta ársfjórðungi og 38% aukningu tekna yfir árið í heild. Tempo Timesheets er vinsælasta varan á markaðstorgi Atlassian, en Planner og Budget vörurnar eru einnig á topp sölulistum. Með umbótum okkar á Tempo á síðasta ári er lagður grunnur að samþættingu Tempo við aðrar skýjaþjónustur til viðbótar við JIRA frá Atlassian. Tempo fyrir Slack kom út í lok árs og var vel tekið og við horfum nú ákveðið til vaxtartækifæra, bæði innan og utan Atlassian.   

Söluferli á Tempo hófst í október síðastliðnum þar sem fjárfestingarbankinn AGC Partners er okkur til ráðgjafar í ferlinu. Markmiðið er að selja verulegan eignarhlut til aðila sem þekkir vel til uppbyggingar alþjóðlegra hugbúnaðarfyrirtækja og getur stutt við frekari tekjuvöxt og verðmætasköpun næstu 3-5 árin. Ferlið er á áætlun og miðað er við að því ljúki á fyrrihluta árs. 

Á síðasta ári og í upphafi 2018 hefur sérstök áhersla verið lögð á að treysta stoðir samstæðunnar til framtíðar. Þetta höfum við m.a. gert með töluverðri fjárfestingu í lausnaþróun auk þess sem við höfum fest kaup á nýjum lausnum og þekkingu sem fellur vel að lausnaframboði okkar og þörfum viðskiptavina.  Þarna má nefna bílaleigukerfið Caren, rafrænu innkaupalausnina Timian og frábæran hóp frá AGR sem bætir Dynamics NAV í annars öflugt mengi viðskiptalausna. Sameining Nýherja, Applicon og TM Software undir nýju nafni Origo, gefur okkur svo byr í seglin, bæði vegna hagræðis og öflugra þjónustuframboðs sem nýtt fyrirtæki getur útvegað viðskiptavinum.  

Þegar horft er til krefjandi rekstraraðstæðna að undanförnu, þá er niðurstaða ársins viðunandi. Eins og komið hefur fram þá hefur verið unnið að því að draga úr kostnaði, annars vegar með aðhaldi í mönnun og launakostnaði og hins vegar með hagræðingu sem hlýst af sameiningu undir nafninu Origo. Þetta verður áfram verkefni stjórnenda í rekstri félagsins en staðan á vinnumarkaði er í senn mikið umhugsunar- og áhyggjuefni. Þó innlendar kostnaðarhækkanir verði áfram ögrandi verkefni fyrir stjórnendur, þá horfum við ekki síður til uppbyggingar á starfsemi og frekari eflingar á tekjugrunni til framtíðar. 

Sjá viðhengi. 


Origo arsreikningur 31.12.2017.pdf
2018.01.31 - Frettatilkynning Arshlutauppgjor F4 2017.pdf