VÍS: Ársreikningur 2022Ársreikningur félagsins fyrir árið 2022 var staðfestur af stjórn og forstjóra á stjórnarfundi þann 23. febrúar 2023. Ársreikningurinn verður lagður fyrir aðalfund VÍS þann 16. mars til samþykktar. Helstu niðurstöður ársins 2022 - Hagnaður ársins var 940 milljónir en var 7.684 milljónir á árinu 2021.
- Hagnaður af vátryggingarekstri var 694 milljónir samanborið við 887 milljónir árið áður.
- Samsett hlutfall ársins var 99,2% en var 97,1% á árinu 2021.
- Iðgjöld ársins voru 23.990 milljónir en voru 23.041 milljón árið áður.
- Tekjur af fjárfestingarstarfsemi námu 1.545 milljónum en voru 8.259 milljónir árið áður.
- Arðsemi eigin fjár var 5,2% en var 40,9% árið áður.
- Hagnaður á hlut var 0,55 krónur samanborið við 4,39 krónur árið 2021.
Helstu niðurstöður 4F 2022 - Hagnaður fjórðungsins var 461 milljón samanborið við 950 milljónir á sama tíma 2021.
- Hagnaður af vátryggingarekstri í fjórðungnum var 539 milljónir samanborið við 344 milljónir á sama tímabili 2021.
- Samsett hlutfall fjórðungsins var 93,6% en var 95,5% á sama tímabili árið áður.
- Iðgjöld tímabilsins voru 6.098 milljónir í samanburði við 5.917 milljónir á síðasta fjórðungi 2021.
- Tekjur af fjárfestingarstarfsemi voru 392 milljónir en voru 1.193 milljónir á sama tímabili 2021.
Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS: „Þrátt fyrir krefjandi tíma á eignamörkuðunum er ánægjulegt að sjá að hagnaður ársins er þó 940 milljónir. Hagnaður af vátryggingarekstri nemur 694 milljónum og samsett hlutfall ársins er 99,2%. Árið í heild litaðist af erfiðu tíðarfari sem einkenndist af veðurofsa, kuldatíð og mörgum smærri tjónum ─ en þó varð ekkert stórtjón. VÍS greiddi viðskiptavinum sínum 16,8 milljarða í tjónabætur á síðasta ári ─ en samtals var fjöldi tjóna um 36.500. Félagið gerir ráð fyrir að samsett hlutfall ársins 2023 verði á bilinu 96-98% ─ en langtímamarkmið félagsins er að samsetta hlutfallið sé ekki hærra en 95%. Góður árangur á krefjandi markaði Fjárfestingartekjur félagsins voru jákvæðar um 1.545 m.kr. eða sem nemur 3,5% nafnávöxtun þrátt fyrir afar krefjandi markaðsaðstæður á árinu - þar sem skuldabréfavísitölur jafnt sem hlutabréfavísitölur lækkuðu talsvert. Jákvæð afkoma var af skuldabréfaeign félagsins og var hún að mestu borin uppi af ávöxtun óskráðra skuldabréfa. Þá skiluðu óskráð hlutabréf bestri afkomu eða 1.501 m.kr. sem jafngildir 24% nafnávöxtun. Skráð hlutabréf lækkuðu hins vegar um 10,5% og skiluðu neikvæðri afkomu upp á 1.145 m.kr. Fjölbreyttari trygginga- og fjármálaþjónusta Líkt og kom nýlega fram í tilkynningu til Kauphallar, þá hafa VÍS og hluthafar Fossa fjárfestingarbanka ákveðið að hefja viðræður um kaup VÍS á öllu hlutafé í Fossum fjárfestingarbanka á grundvelli viljayfirlýsingar um sameiningu félaganna. Þetta eru spennandi tíðindi og fela í sér fjölbreytt tækifæri fyrir bæði félögin ─ en sameiningin mun styrkja þau til sóknar á íslenskum fjármálamarkaði. Við sögðum frá því á síðasta ári, að VÍS hefur ákveðið að útvíkka starfsemi sína og bjóða upp á sjóða- og eignastýringu. SIV eignastýring bíður nú starfsleyfis frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands ─ og við hlökkum til að bjóða upp á fjölbreyttari trygginga- og fjármálaþjónustu. Áhersla á sókn og sölu Endurskipulagning á sókn og sölu, sem hófst með nýju skipulagi á síðasta ári, hefur gengið vel og lagt góðan grunn fyrir framtíðina. Aukning í iðgjöldum í lok árs gefur til kynna að þessi vinna hafi skilað góðum árangri. Við lögðum áherslu á að vera í auknum samskiptum við viðskiptavini okkar til þess að tryggja rétta og viðeigandi vernd þeirra. Við áttum því frumkvæði að rúmlega 20.000 samskiptum við viðskiptavini okkar. Við kynntum einnig nýtt vildarkerfi til sögunnar á síðasta ári og það er gaman að segja frá því að því hefur verið vel tekið hjá viðskiptavinum okkar ─ en við erum fyrst tryggingafélaga til að verðlauna tryggð með gagnsæjum hætti. Í tengslum við vildarkerfið kynntum við nýtt app þar sem hægt er að sjá hvernig kjör og fríðindi breytast m.a. með aukinni viðskiptalengd og fjölda trygginga. Í appinu er hægt að tilkynna tjón og sjá fjölda tilboða og annarra fríðinda ─ en appið er nú aðgengilegt fyrir alla viðskiptavini félagsins. Gaman er að segja frá því að appið er eitt af mest sóttu smáforritum á Íslandi um þessar mundir. Ökuvísir sannar gildi sitt Ökuvísir hélt áfram að vekja athygli á árinu og hefur sannað gildi sitt ─ því hann hefur haft mjög góð áhrif á aksturslag viðskiptavina okkar. Við höfum fulla trú á að fleiri viðskiptavinir okkar velji að borga minna og keyra betur með Ökuvísi. Við erum virkilega stolt af því að Ökuvísir hafi hlotið Íslensku vefverðlaunin fyrir bæði tæknilausn ársins sem og app ársins. Við mætum því óvænta Við erum einnig stolt af góðri niðurstöðu vinnustaðagreiningar, sem framkvæmd var í lok árs, en starfsánægja starfsmanna mældist 4,5 ─ sem þýðir að VÍS er meðal efstu 25% fyrirtækja á Íslandi. Á undanförnum vikum hafa orðið umtalsverðar breytingar í framkvæmdastjórn og hefur starfsfólk þurft að mæta því óvænta í starfsemi félagsins. VÍS býr yfir framúrskarandi mannauði sem hefur staðið sig frábærlega við þessar óvenjulegu aðstæður ─ og fyrir það er ég þakklát.“ Arðgreiðsla Stjórn félagsins mun á aðalfundi 2023 leggja til að félagið greiði hluthöfum arð sem nemur kr. 0,554 á hlut fyrir árið 2022, eða um 940 milljónum króna ─ sem samsvarar öllum hagnaði ársins eftir skatta. Horfur Félagið gerir ráð fyrir að samsett hlutfall ársins 2023 verði á bilinu 96-98%. Félagið mun tilkynna ef breytingar verða á horfum ársins um samsett hlutfall, s.s. vegna stórra tjóna eða annars sem hefur umtalsverð áhrif á rekstur félagsins, svo að verðmótandi teljist fyrir hlutabréf þess. Kynningarfundur Kynningarfundur vegna uppgjörsins fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn föstudaginn 24. febrúar, klukkan 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 3. Farið verður yfir uppgjörið og spurningum svarað. Hægt verður að fylgjast með fundinum á þessari slóð: https://vis.is/arsuppgjor-2022/ og þar verður einnig hægt að nálgast upptöku af fundinum sem og kynningarefni fundarins. Fjárhagsdagatal Aðalfundur 2023 || 16. mars 2023 Fyrsti ársfjórðungur 2023 || 04. maí 2023 Annar ársfjórðungur 2023 || 17. ágúst 2023 Þriðji ársfjórðungur 2023 || 19. október 2023 Ársuppgjör 2023 || 22. febrúar 2024 Aðalfundur 2024 || 14. mars 2024 Nánari upplýsingar Nánari upplýsingar veitir Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri VÍS, í síma 660-5260 eða með netfanginu erlat@vis.is
|