Icelandic
Birt: 2024-08-28 17:50:48 CEST
Vátryggingafélag Íslands hf.
Árshlutareikningur - 6 mán.

SKAGI: 6M uppgjör 2024 hjá samstæðu Vátryggingafélags Íslands

Kraftmikill viðsnúningur í tryggingastarfsemi

 - krefjandi markaðsumhverfi litar afkomu samstæðunnar

Afkoma fyrstu sex mánuði ársins 2024 hjá samstæðu Vátryggingafélags Íslands hf.

Helstu lykiltölur 6M 2024

Samstæðan

  • Hagnaður eftir skatta nam 273 m.kr. (6M 2023: 1.072 m.kr.).
  • Áfram viðunandi árangur í ávöxtun fjáreigna, en lægri ávöxtun af hlutabréfum skýrir helst lægri fjárfestingartekjur milli ára og hefur áhrif á hagnað samstæðunnar.
  • Áframhaldandi tekjuvöxtur í tryggingastarfsemi með 10,4% vöxt milli ára. Kostnaðarhlutfall fer lækkandi og samsett hlutfall í takt við markmið.
  • Hreinar tekjur í fjármálastarfsemi nema 960 m.kr. á fyrri hluta ársins og vaxa um 86% milli ára í pro-forma samanburði.
  • Hagnaður á hlut nam 0,15 kr. á tímabilinu.
  • Eigið fé samstæðu nemur 20 ma.kr.
  • Arðsemi eigin fjár var 2,6% á ársgrundvelli (6M 2023: 12,7%) og gjaldþol samstæðu er 1,49 í lok tímabilsins.

Tryggingastarfsemi

  • Áframhaldandi tekjuvöxtur í tryggingastarfsemi sem vex um 10,4% á milli ára.
  • Tekjuvöxtur í líf- og sjúkdómatryggingum var 15,5% milli ára. 
  • Samsett hlutfall var 96,8% (6M 2023: 103,7%).
  • Kostnaðarhlutfall var 20,3% (6M 2023: 23,5%).
  • Afkoma af vátryggingasamningum nam 453 m.kr. (6M 2023: -470 m. kr.) og batnar umtalsvert á milli ára.

Fjármálastarfsemi1

  • Hreinar tekjur af fjármálastarfsemi námu 960 m.kr. (Pro-forma 6M 2023: 515 m.kr.).
  • Grunntekjur án fjármunatekna2 námu samtals um 1.010 m.kr. (Pro-forma 6M 2023: 584 m.kr. sem samsvarar um 73% vexti pro-forma).
  • Eignir í stýringu (e. AuM) nema 121 ma.kr.
  • Afkoma af fjármálastarfsemi var neikvæð um 119 m.kr. fyrir skatta.

Fjárfestingar

  • Fjárfestingartekjur námu 1.298 m.kr (6M 2023: 2.478 m.kr.), sem samsvarar 3,0% ávöxtun.
  • Áfram er árangur umfram viðmið í erfiðum markaðsaðstæðum.
  • Hreinar tekjur af fjárfestingum námu 519 m.kr. (6M 2023: 1.588 m.kr.).

Helstu lykiltölur 2F 2024

  • Hagnaður samstæðu eftir skatta nam 137 m.kr. (2F 2023: 843 m.kr.).
  • Afkoma af vátryggingasamningum nam 695 m.kr. (2F 2023: 179 m.kr.) og vöxtur tekna 11,0%
  • Samsett hlutfall 90,4% (2F 2023: 97,2%) og er meðal bestu fjórðunga frá skráningu VÍS.
  • Kostnaðarhlutfall 19,7% (2F 2023: 22,9%)
  • Hreinar tekjur af fjármálastarfsemi námu 333 m.kr. (Pro-forma 2F 2023: 233 m.kr.).
  • Fjárfestingartekjur námu 352 m.kr. (2F 2023: 1.321 m.kr.) og hreinar fjárfestingartekjur námu 23 m.kr. (2F 2023: 720 m.kr.)

Haraldur Þórðarson, forstjóri samstæðu:

„Rekstur samstæðunnar á fyrri helmingi ársins gekk að mörgu leyti vel, sérstaklega í tryggingastarfseminni þar sem við sáum kraftmikinn viðsnúning koma fram. Breyttar áherslur skiluðu miklum afkomubata af vátryggingasamningum sem nemur 923 milljóna króna viðsnúningi á milli ára. Fjármálastarfsemin fór vel af stað í upphafi árs en krefjandi markaðsaðstæður höfðu neikvæð áhrif á öðrum ársfjórðungi og litaði það afkomu í fjármála- og fjárfestingarstarfsemi okkar á tímabilinu. Áfram er viðunandi árangur í ávöxtun fjárfestingareigna, þar sem ávöxtun safnsins er enn og aftur umfram viðmið. Lægri ávöxtun af hlutabréfum skýrir þó lægri fjárfestingartekjur milli ára og hefur það áhrif á hagnað samstæðunnar. Við höldum áfram að undirbúa komu Íslenskra verðbréfa hf. í samstæðu Skaga, sem mun styðja enn frekar við vöxt tekna og auka eignir í stýringu. Hagnaður eftir skatta nam 273 milljónum fyrir tímabilið. Við höldum ótrauð áfram að vinna að rekstrarmarkmiðum Skaga – og horfur ársins eru óbreyttar.

Kraftmikill viðsnúningur

Mikill rekstrarbati hefur átt sér stað í tryggingastarfseminni. Þessi kraftmikli viðsnúningur í átt að arðbærum grunnrekstri, sem markvisst hefur verið stefnt að, er nú að raungerast. Iðgjaldavöxtur nemur rúmum 10,4% milli ára. Þetta eru fleiri nýir viðskiptavinir ásamt aukinni sölu trygginga til núverandi viðskiptavina. Tekjuvöxtur í líf- og sjúkdómatryggingum nemur um 15,5% milli ára. Afkoma af vátryggingasamningum var jákvæð um 453 milljónir en á sama tíma í fyrra var afkoman neikvæð um 470 milljónir. Þessi ríflega 900 milljóna króna viðsnúningur milli ára er afrakstur breyttra áherslna þar sem sölufyrirkomulagi félagsins var umbylt og fjárfest í nýjum stafrænum sölurásum. Aukin áhersla hefur verið sett á þjónustu á landsbyggðinni og opnuðum við nýlega nýja þjónustuskrifstofu á Reykjanesi, sem hefur verið afar vel tekið.

Sterkur grunnrekstur

Kostnaðarhlutfallið fer lækkandi, var 20,3% fyrir fyrstu sex mánuði ársins, en var 23,5% á sama tíma í fyrra. Samsett hlutfall tímabilsins var 96,8% en var 103,7% á sama tímabili fyrir ári. Viðsnúningurinn kom mjög sterkt fram í öðrum ársfjórðungi með 90,4% samsett hlutfall í samanburði við 97,2% á sama tímabili árið áður. Góð afkoma af tryggingastarfsemi á fyrri hluta ársins bendir sterklega til þess að samsett hlutfall verði í lægri enda bilsins í markmiðum ársins, en markmiðið er að samsetta hlutfallið verði á bilinu 94%-97%. Tjónahlutfallið er hagstætt, þrátt fyrir tvö stórtjón á tímabilinu. Stórtjón var í Kringlunni og hefur tjónauppgjör með viðskiptavinum okkar gengið vel. Verðmætabjörgun með viðskiptavinum okkar gekk einnig vonum framar.

Ávöxtun fjárfestingareigna viðunandi í erfiðu markaðsumhverfi

Fjárfestingartekjur fyrstu sex mánuði ársins námu 1.298 milljónum eða því sem nemur 3,0% nafnávöxtun. Ávöxtun eignasafns heldur áfram að vera umfram viðmið. Skuldabréf skiluðu 1.242 milljónum á tímabilinu eða rúmlega 4,1% ávöxtun. Hlutabréf í heild lækkuðu um 27 milljónir á tímabilinu. Gengi Controlant var lækkað á öðrum ársfjórðungi úr 105 krónum í 80 krónur á hlut eða um 24% sem fól í sér 208 milljóna lækkun á virði hlutarins. Óskráð hlutabréf hækkuðu annars um 120 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins, sem má að mestu rekja til hækkana á virði framtakssjóða.

Útlán bankans aukast og fyrsta skráða skuldabréfið

Fjármálastarfsemin, sem samanstendur af rekstri Fossa og SIV, fór vel af stað á fyrsta ársfjórðungi ársins en erfiðar markaðsaðstæður höfðu sín áhrif á rekstur bankans á öðrum ársfjórðungi. Afkoma fjármálastarfseminnar á fyrstu sex mánuðum ársins var neikvæð um 119 milljónir fyrir skatta. Mikilvægir áfangar náðust á tímabilinu því hlutdeild bankans á skuldabréfamarkaði hélt áfram að aukast, vaxtamunur bankans varð stöðugri og lánabók bankans hélt áfram að stækka í takt við væntingar. Frá áramótum hefur efnahagur bankans, sem samanstendur af verðbréfafjármögnun og öðrum útlánum, vaxið um 25%. Bankinn gaf nýlega út sitt fyrsta skráða skuldabréf fyrir 1,5 milljarð, til 18 mánaða, með 150 punkta álagi á eins mánaða REIBOR. Þetta er mikilvægt skref fyrir Fossa fjárfestingarbanka vegna þess að útgáfan lengir í fjármögnun bankans á samkeppnishæfum kjörum og styður jafnframt við áframhaldandi vöxt bankans.

Tekjuvöxtur í fjármálastarfsemi

Mikill vöxtur var í samanlögðum þóknanatekjum og hreinum vaxtatekjum í fjármálastarfsemi á fyrri helmingi ársins í samanburði við fyrra ár. Hreinar tekjur í fjármálastarfsemi án fjármunatekna nema samanlagt um 1.010 milljónum, í samanburði við 584 milljónir hjá Fossum í fyrra. Þess ber að geta að starfsemi SIV hófst ekki fyrr en á seinni árshelmingi síðasta árs. Fjármálastarfsemin byggist því upp af krafti.  

Eitt ár frá stofnun SIV eignastýringar

Nýlega var eitt ár frá því að SIV eignastýring var stofnað, en starfsemi félagsins hófst 1. júlí 2023. Í lok júlí námu eignir í stýringu hjá félaginu um 93 milljörðum og fjölbreytt úrval sjóða í boði, auk eignastýringar fyrir fjárfesta. Eignir í stýringu hjá samstæðu Skaga munu aukast umtalsvert eftir sameiningu við Íslensk verðbréf hf. og verða eignir í stýringu þá um 220 milljarðar. Við vinnum því áfram í átt að langtímamarkmiðum samstæðunnar um vöxt í fjármálastarfsemi.

Samþykki Samkeppniseftirlitsins

Kaup Skaga á Íslenskum verðbréfum voru gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Samkeppniseftirlitsins. Nú hefur fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins verið aflétt og telur Samkeppniseftirlitið ekki forsendur til þess að aðhafast vegna kaupanna. Eftir stendur fyrirvari um samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands fyrir því að Skagi fari með yfir 50% eignarhlut í Íslenskum verðbréfum og dótturfélagi þess, ÍV sjóðum.

Svo er gaman að segja frá því að Skagi nær áfram góðum árangri í UFS-mati Reitunar og hlaut 80 stig (B1) sem er sami fjöldi stiga og félagið fékk á síðasta ári. Þetta telst góð einkunn og endurspeglar áherslur félagsins í sjálfbærni.“


Óbreyttar horfur fyrir árið
Horfur fyrir rekstrarárið 2024, sem settar voru fram í upphafi árs, eru óbreyttar3:

  • Tryggingastarfsemi: Samsett hlutfall verði á bilinu 94% – 97%. Markmið <95%.
  • Fjármálastarfsemi: Hreinar fjármálatekjur4 nemi á bilinu 1.900 – 2.600 milljónir. Markmið >2.200 milljónir.
  • Fjárfestingartekjur: Áætluð ávöxtun fjárfestingareigna á árinu er 11% en það er byggt á forsendum miðað við vaxtastig í upphafi árs og fjárfestingarstefnu.5

Kynningarfundur

Kynningarfundur vegna uppgjörsins verður haldinn fimmtudaginn 29. ágúst, klukkan 8:30 í höfuðstöðvum félagsins í Ármúla 3, Reykjavík. Haraldur Þórðarson, forstjóri samstæðu, og Brynjar Þór Hreinsson, fjármálastjóri samstæðu, munu kynna uppgjörið. Hægt verður að fylgjast með fundinum í beinu streymi og nálgast má upptöku af honum á fjárfestasíðu félagsins. Þar verður einnig hægt að nálgast kynningarefni fundarins.

Fjárhagsdagatal 
Þriðji ársfjórðungur || 27. nóvember 2024
Ársuppgjör 2024 || 26. febrúar 2025

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri Skaga, í síma 660-5260 eða með netfanginu erla@skagi.is   



1 Samanburður við fyrra ár í fjármálastarfsemi byggir á rekstri Fossa árið 2023. SIV fékk ekki starfsleyfi fyrr en um mitt árið 2023.

2  Grunntekjur án fjármunatekna eru hreinar tekjur af fjármálastarfsemi án fjármunatekna, þ.e. hreinar vaxtatekjur, þóknanatekjur og aðrar tekjur.

3 Upplýst verður um afkomuhorfur í trygginga- og fjármálastarfsemi ef þær breytast frá þeim vikmörkum sem kynntar eru.

4 Hreinar fjármálatekjur eru allar tekjur í fjármálastarfsemi, þ.m.t. hreinar vaxta- og þóknanatekjur, fjármunatekjur og aðrar tekjur.

5 Um er að ræða áætlaða ávöxtun fjárfestingareigna VÍS. Ekki verður upplýst um frávik frá áætlaðri ávöxtun fjárfestingareigna. Félagið birtir upplýsingar um stærstu eignir í fjárfestingarstarfsemi í fjárfestakynningum ársfjórðungslega. Hafa skal í huga að heildarstærð fjárfestingarsafnsins getur hækkað og lækkað vegna verðbreytinga, arðgreiðslna, endurkaupa, tilfærslu á ráðstöfun fjármagns innan samstæðu o.fl.


Viðhengi



6M 2024_frettatilkynning.pdf
Skagi_arshlutareikningur samstu 30.6.2024.pdf