English Icelandic
Birt: 2022-05-19 16:05:58 CEST
Landsvirkjun
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Þriggja mánaða uppgjör Landsvirkjunar

Mikil eftirspurn og hærra verð til stórnotenda

Helstu atriði árshlutareiknings

  • Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 82,5 milljónum USD (10,6 mö.kr.), en var 50,1 milljón USD á sama tímabili árið áður og hækkar því um  64,5%. 
  • Hagnaður tímabilsins var 115,2 milljónir USD (14,7 ma.kr.), en var 31 milljón USD á sama tímabili árið áður.
  • Rekstrartekjur námu 164,8 milljónum USD (21,1 mö.kr.) og hækka um 34,1 milljón USD (26,1%) frá sama tímabili árið áður.
  • Nettó skuldir lækkuðu um 110 milljónir USD (14,1 ma.kr.) frá áramótum og voru í marslok 1.390,9 milljónir USD  (178 ma.kr.).
  • Handbært fé frá rekstri nam 131 milljón USD (16,8 mö.kr.), sem er 53,4% hækkun frá sama tímabili árið áður.
  • Meðalverð til stórnotenda án flutnings var 41 USD á megavattstund, sem er hæsta verð á einum ársfjórðungi í sögu Landsvirkjunar.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Rekstur Landsvirkjunar gekk vel á fyrsta ársfjórðungi í afar krefjandi umhverfi sem einkenndist af mikilli eftirspurn eftir raforku, langvarandi dræmu innrennsli til lóna og tíðum óveðrum á rekstrarsvæðum fyrirtækisins.  Afhending forgangsorku jókst um 2% til stóriðju og um 20% til heimila og smærri fyrirtækja. Á tímabilinu þurfti hins vegar að grípa til tímabundinna skerðinga á skerðanlegum raforkusamningum, en þeim hefur nú verið aflétt.

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem gefur að mati stjórnenda skýrasta mynd af afkomu félagsins, hækkar um 64,5% frá fyrra ári og var 10,6 ma.kr. og hefur áður ekki verið hærri.  Aukinn hagnað má einkum rekja til hækkunar á raforkuverði til stórnotenda.  Hagnaður tímabilsins eftir skatta var 14,7 ma.kr, 3,7 faldast frá fyrra ári, en um helming hagnaðarins má í þetta sinn rekja til óinnleystra fjármagnsliða.

Sjóðstreymið var afar sterkt á tímabilinu, eða 16,8 milljarðar og skilaði það sér að mestu, eða 14,1 milljarður, í lækkun á nettó skuldum.

Meðalverð til stórnotenda án flutnings var hærra en það hefur áður verið í sögu Landsvirkjunar, eða 41 dollarar á megavattstund. Í kjölfar endursamninga á síðustu misserum er nú svo komið að flestir viðskiptavinir Landsvirkjunar borga verð sem er sambærilegt við það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Þessi ánægjulega þróun er í samræmi við hlutverk okkar, að hámarka verðmæti þeirra endurnýjanlegu orkulinda sem fyrirtækinu er trúað fyrir og skila arðinum til eigenda okkar, íslensku þjóðarinnar.

Rekstur aflstöðva gekk áfram vel á tímabilinu, þrátt fyrir áskoranir vegna óveðra í febrúar og erfiðleika í vatnsbúskapnum, en ársfjórðungurinn var einn sá erfiðasti í sögu fyrirtækisins í þeim efnum. Mikið mæddi á starfsfólki Landsvirkjunar við þessar krefjandi aðstæður og er því full ástæða til að þakka því fyrir vel unnin störf.“

ViðhengiArshlutareikningur januar til mars 2022.pdf
Frettatilkynning.pdf