HELSTU ATRIÐI Í AFKOMU ÞRIÐJA ÁRSFJÓRÐUNGS
VILHELM MÁR ÞORSTEINSSON, FORSTJÓRI
„Allar helstu viðskiptaeiningar félagsins skiluðu góðum árangri á fjórðungnum og ég er ánægður að sjá niðurstöður okkar byggja á breiðum grunni, sem sést m.a. á því að meira en helmingur af tekjum samstæðunnar eru upprunnar utan íslenska hagkerfisins. Afkoma gámasiglingakerfisins heldur áfram að styrkjast, að mestu byggt á kröftugum vexti í Trans-Atlantic flutningum. Á sama tíma sáum við mikil umsvif og almennt góða afkomu af þeirri fjölbreyttu starfsemi sem styður við áætlunarsiglingakerfið, svo sem landflutningum, vöruhúsaþjónustu, frystigeymslurekstri og tollaþjónustu. Það var lítils háttar lækkun í tekjum í flutningsmiðluninni, sem endurspeglar breytt landslag í alþjóðlegu efnahagsumhverfi, þar sem við höfum séð lækkun á alþjóðlegum flutningsverðum og minni eftirspurn eftir flutningum á ákveðnum leiðum, en þrátt fyrir þennan tekjusamdrátt er EBITDA af starfseminni óbreytt frá fyrra ári.
Bæði tekjur og gjöld hækka umtalsvert frá fyrra ári, einkum vegna hærri verða á aðkeyptri flutningaþjónustu, olíuverðs og aukinna umsvifa. Trans-Atlantic þjónustan heldur áfram að styrkjast og er orðin mikilvæg stoð í gámaflutningakerfinu okkar. Þá tilkynntum við nýlega að við munum bæta við fjórða skipinu á Norður-Ameríku leiðina síðar í nóvember. EBITDA í fjórðungnum nam 49,6 milljónum evra sem er hækkun um 35% frá sama fjórðungi síðasta árs, og EBIT var 34,1 milljón evra sem er aukning um 10,3 milljónir evra. Hagnaður eftir skatta nam 28,1 milljón evra og handbært fé í lok tímabilsins var 46,6 milljónir evra.
Alþjóðleg flutningsverð lækkuðu verulega á flestum leiðum í fjórðungnum sem endurspeglar þá stöðu og óvissu sem uppi er í alþjóðahagkerfinu. Þessi þróun mun hafa áhrif á framlegð í alþjóðlegri flutningsmiðlun þrátt fyrir að aukið aðgengi að plássi og búnaði hjá stærri skipafélögum ætti að styðja við magnaukningu sem vegur upp á móti verðlækkunum. Flutningsmiðlun Eimskips er sérhæfð í flutningum á kældri og frystri vöru sem kemur sér vel við núverandi aðstæður þar sem eftirspurn eftir matvöru er almennt minna næm fyrir efnahagsþrengingum en eftirspurn eftir annars konar vörum.
Eimskip heldur áfram á grænni vegferð og á fjórðungnum voru mikilvæg skref tekin í átt að orkuskiptum í starfseminni með formlegu samstarfi við Landsvirkjum og fjárfestingum í fyrstu rafknúnu flutningabílunum í flota Eimskips.
Heilt á litið hefur fjórði ársfjórðungum farið vel af stað og við teljum horfur út árið vera nokkuð góðar. Horfur í alþjóðlegu efnahagsumhverfi fyrir næsta ár litast af mikilli óvissu og verðbólguþrýstingi sem hefur bæði áhrif á magn í alþjóðaviðskiptum og vinnumarkað um heim allan. Við trúum því að Eimskip sé vel staðsett með heimamarkað í Norður-Atlantshafi í löndum sem eiga það sammerkt að vera með hagkerfi sem eru drifin áfram af útflutningi auðlinda, en að sama skapi verulega háð innflutningi á neysluvöru og hrávörum.“
KYNNINGARFUNDUR 4. NÓVEMBER 2022
Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. samþykkti samandreginn árshlutareikning samstæðu Eimskips fyrir tímabilið 1. janúar til 30. september 2022 á stjórnarfundi þann 3. nóvember 2022. Kynningarfundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila verður haldinn föstudaginn 4. nóvember kl. 8:30 í höfuðstöðvum félagsins Sundabakka 2, 2. hæð. Fundurinn verður einnig rafrænn og verður honum streymt beint á fjárfestasíðu Eimskips www.eimskip.com/investors. Þar munu Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri og María Björk Einarsdóttir fjármálastjóri kynna árshlutauppgjör félagsins. Uppgjörsgögn og upptöku af fundinum verður einnig hægt að nálgast á fjárfestasíðunni.
FREKARI UPPLÝSINGAR
Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs, sími: 825 3399, netfang: investors@eimskip.com .
TIL ATHUGUNAR FYRIR FJÁRFESTA
Eimskip vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar tilkynningin er fyrst birt og takmarkast gildi þeirra við sem segir í fyrirvara þessum.
Viðhengi