English Icelandic
Birt: 2022-06-21 11:00:00 CEST
Nasdaq Nordic
Fjárfestatilkynningar

Nasdaq Iceland býður Nova velkomið á Aðalmarkaðinn

Reykjavík, 21. júní, 2022 — Nasdaq (Nasdaq: NDAQ) tilkynnir að í dag hefjast viðskipti með hlutabréf Nova Klúbbsins hf. (auðkenni: NOVA) á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland. Félagið tilheyrir fjarskiptageiranum (e. Telecommuncations) og er 46. félagið sem tekið er til viðskipta á mörkuðum Nasdaq Nordic* í ár.

Nova er leiðandi í farsímaþjónustu á Íslandi með 33% markaðshlutdeild og 60% af gagnanotkun í gegnum farsímakerfi í landinu. Helstu viðskiptavinir Nova eru einstaklingar, heimili og framsækin, smá og meðalstór fyrirtæki á Íslandi.  Slagorð Nova „Stærsti skemmtistaður í heimi“ er lýsandi fyrir menningu fyrirtækisins, sem endurspeglast í starfsanda fyrirtækisins og hvetur til nýsköpunar. Í þrettán ár í röð hefur Nova skorað hæst á meðal keppinauta á markaðnum, þegar kemur að ánægju viðskiptavina.

„Við erum mjög spennt fyrir þessari nýju vegferð sem við erum að hefja,“ sagði Margrét Tryggvadóttir, forstjóri og skemmtanastjóri Nova. „Við hjá Nova viljum vera fyrst inn í framtíðina með snjallar lausnir. Fjarskiptafyrirtæki eru í eðli sínu mikilvæg innviðafyrirtæki og er Nova á meðal stærstu og öflugustu fjarskiptafyrirtækja landsins.  Með skráningu félagsins fjölgar tækifærum fjárfesta til að koma að uppbyggingu fjarskiptainnviða á Íslandi. Skráning á Aðalmarkað gerir okkur kleift að bjóða smáum sem stórum fjárfestum að koma með okkur í þessa vegferð. Við erum afskaplega þakklát fyrir viðtökurnar í hlutafjárútboðinu og bjóðum alla nýja hluthafa hjartanlega velkomna í Nova Klúbbinn, stærsta skemmtistað í heimi.“

„Við bjóðum Nova hjartanlega velkomið á Aðalmarkað Nasdaq Iceland,” sagði Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. „Nova hefur verið áberandi á fjarskiptamarkaði síðan það var stofnað árið 2006 og því er ánægjulegt að sjá félagið stíga næstu skref í átt að auknum sýnileika og vexti á markaði. Við óskum öllum hjá Nova innilega til hamingju og hlökkum til að styðja við þau á nýrri vegferð.”

*Aðalmarkaðir og Nasdaq First North í Nasdaq Copenhagen, Nasdaq Helsinki, Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm.

Um Nasdaq

Nasdaq (Nasdaq: NDAQ) er alþjóðlegt tæknifyrirtæki sem þjónar verðbréfamörkuðum og öðrum atvinnugeirum. Fjölbreytt framboð okkar af markaðsgögnum, greiningarvörum, hugbúnaði og þjónustu gerir viðskiptavinum okkar kleift að láta framtíðarsýn þeirra verða að veruleika. Til að fræðast meira um félagið, tæknilausnir og störf hjá okkur, smellið á LinkedIn, Twitter @Nasdaq eða www.nasdaq.com

 

         Nasdaq tengiliður:
         Kristín Jóhannsdóttir
         kristin.johannsdottir@nasdaq.com
         868 9836