English Icelandic
Birt: 2023-01-11 10:00:00 CET
Alvotech S.A.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Alvotech hefur rannsókn á lyfjahvörfum AVT05, fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu við Simponi® og Simponi Aria®

Alvotech (NASDAQ: ALVO) hefur hafið rannsókn á lyfjahvörfum AVT05, fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu við Simponi og Simponi Aria (golimumab). Tilgangur rannsóknarinnar er að bera saman lyfjahvörf, öryggi og þolanleika AVT05 og Simponi, í heilbrigðum einstaklingum.

„Við fögnum þessum framgangi í þróun AVT05,“ sagði Joseph McClellan, rannsóknarstjóri Alvotech. „Með því að hefja klínískar rannsóknir á fimmtu líftæknilyfjahliðstæðunni, undirstrikum við enn betur það markmið fyrirtækisins að auka lífsgæði með bættu aðgengi að hagkvæmari líftæknilyfjum.“

Tekjur af sölu Simponi og Simponi Aria námu tæplega 320 milljörðum króna, eða jafnvirði 2,2 milljarða Bandaríkjadala, á tólf mánaða tímabili sem lauk 1. október sl. samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda frumlyfsins, lyfjafyrirtækinu Johnson and Johnson.

Alvotech vinnur að þróun átta líftæknilyfjahliðstæða, við sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdómum, beinþynningu og krabbameini. Fyrsta lyf fyrirtækisins, hliðstæða við Humira (adalimumab) kom á markað í Evrópu og Kanada sl. vor og hefur lyfið hlotið markaðsleyfi í 35 löndum í Norður-Ameríku, Evrópu, Asíu og Eyjaálfu. Umsókn um markaðsleyfi fyrir lyfið í Bandaríkjunum er nú í ferli.

Um Alvotech

Alvotech sérhæfir sig í þróun og framleiðslu líftæknilyfjahliðstæða, til þess að bæta lífsgæði með því að auka aðgengi að hagstæðari líftæknilyfjum. Alvotech, sem stofnað var af Róberti Wessman, leitast við að vera í forystu í framleiðslu líftæknilyfjahliðstæða og hefur byggt upp alhliða getu til rannsókna og þróunar, þar sem allir þættir framleiðslunnar eru í höndum fyrirtækisins til að tryggja gæði og lægri tilkostnað. Til að ná útbreiðslu um allan heim, hefur Alvotech gert samninga við samstarfsaðila um markaðssetningu í fleiri en 90 löndum, þar á meðal í Bandaríkjunum, Kanada, Evrópu, Asíu, Rómönsku Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum. Alvotech vinnur að þróun átta lyfja, þar á meðal AVT02, líftæknilyfjahliðstæðu við Humira®, sem er þegar á markaði í Evrópu (Hukyndra®) og í Kanada (Simlandi®), auk sjö fyrirhugaðra líftæknilyfjahliðstæða á sviði sjálfsofnæmis-, öndunarfæra og augnsjúkdóma auk krabbameins og sjúkdóma sem tengjast beinum. Frekari upplýsingar eru á www.alvotech.is og www.alvotech.com.

Um AVT05

AVT05 er líftæknilyfjahliðstæða við Simponi og Simponi Aria (golimumab). Golimumab er einstofna mótefni sem hamlar frumboðefninu tumor necrosis factor alpha (TNF alpha). Aukið magn TNF alpha er talið geta verið orsakaþáttur í sumum þrálátum bólgusjúkdómum, s.s. liðagigt, sóraliðagigt og hrygggigt. AVT05 er lyf í þróun hefur ekki verið samþykkt til notkunar á neinu markaðssvæði. Þá liggur niðurstaða eftirlitsaðila ekki fyrir um notkun lyfsins sem líftæknilyfjahliðstæðu.

Um Alvotech
Alvotech, stofnað af Róberti Wessman stjórnarformanni fyrirtækisins, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þættir í þróun og framleiðslu í höndum fyrirtækisins. Alvotech vinnur að þróun átta líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu,  Rómönsku-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum.  Meðal samstarfsaðila Alvotech eru Teva Pharmaceuticals, dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. (markaðsaðili í Bandaríkjunum), STADA Arzneimittel AG (Evrópa), Fuji Pharma Co., Ltd (Japan), Cipla/Cipla Gulf/Cipla Med Pro (Ástralía, Nýja Sjáland, Afríka), JAMP Pharma Corporation (Kanada), Yangtze River Pharmaceutical (Group) Co., Ltd. (Kína), DKSH (Taívan, Hong Kong, Kambódía, Malasía, Singapore, Indonesía, Indland, Bangladess og Pakistan), YAS Holding LLC (Miðausturlönd og Norður Afríka), Abdi Ibrahim (Tyrkland), Kamada Ltd. (KMDA; Ísrael), Mega Labs, Stein, Libbs, Tuteur and Saval (Rómanska-Ameríka) og Lotus Pharmaceuticals Co., Ltd. (Taíland, Víetnam, Filippseyjar og Suður-Kórea).

Alvotech, fjárfestatengsl og samskiptasvið
Benedikt Stefánsson
alvotech.ir[at]alvotech.com