Fly Play hf.: 13% aukning á heimamarkaði, framfarir í bókunarstöðu og enn og aftur stundvísariFlugfélagið Play flutti 187,835 farþega í júlí 2024 og var sætanýting 88,4%. Af þeim farþegum sem flugu með Play í júlí voru 31,1% á leið frá Íslandi, 30,7% voru á leið til Íslands og 38,2% voru tengifarþegar (VIA).
Play heldur áfram að auka við sig á heimamarkaði en 13% aukning varð á farþegum sem flugu frá Íslandi á milli ára – 58 þúsund í júlí 2024 samanborið við 51 þúsund í júlí 2023. Play var með 85,4% stundvísi í júlí, samanborið við 80,2% stundvísi í júlí í fyrra. „Það er traustvekjandi að sjá fjölda farþega sem ferðast með Play frá Íslandi, okkar heimamarkaði, aukast um sjö þúsund á milli ára. Það er okkar stefna að vera með mikið úrval af sólarlandaáfangastöðum í leiðakerfi okkar sem Íslendingar vilja heimsækja, og við erum að sjá góðan árangur af þeirri ákvörðun. Við finnum fyrir velvild Íslendinga í okkar garð og tölur okkar endurspegla það. Eins og við höfðum áður greint frá í uppgjöri fyrir annan ársfjórðung, þá hefur VIA markaðurinn verið erfiður í sumar vegna aukningar á beinu flugi yfir Atlantshafið. Það sést á okkar tölum fyrir júlí. Hins vegar sjáum við að bókunarstaðan fyrir komandi mánuði er betri nú en á sama tíma í fyrra, sem er merki um að markaðurinn sé á leið í betri átt. Við höfum einnig aðlagað leiðakerfið okkar með því að draga úr sætaframboði til og frá Norður Ameríku fyrir haustið og veturinn til að takast betur á við sveiflur í eftirspurn. Á sama tíma höfum við aukið sætaframboð á núverandi og nýja sólarlandaáfangastaði í Evrópu og Afríku sem eru arðsamari. Þannig náum við að nýta þann mikla sveigjanleika sem býr í leiðakerfinu okkar til að aðlaga okkur eftir markaðsaðstæðum hverju sinni. Þessi aðlögunarhæfni væri ekki möguleg án okkar frábæra samstarfsfólks hjá Play sem hefur enn einn mánuðinn skilað bestu stundvísi þeirra flugfélaga sem eru umsvifamikil á Keflavíkurflugvelli. Það skilar sér í góðum flugrekstri sem tryggir farþegum ánægjulegri og stundvísri flugferð,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.
|