Síldarvinnslan: Uppgjör þriðja ársfjórðungs 2022 og fyrstu níu mánaða ársins 2022
- Makrílveiðin gekk vel en minna unnið til manneldis
- Veiðin á norsk- íslensku síldinni gekk einnig vel og var stutt að sækja
- Markaðir hafa verið þyngri, afhendingar dreifast yfir lengri tíma
- Gengi USD hefur verið sterkt á fjórðungnum
- Gengið frá kaupum á Vísi hf.
Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins - Hagnaður tímabilsins á þriðja ársfjórðungi var 16,6 m USD og 62,8 m USD á fyrstu níu mánuðum ársins.
- Rekstrartekjur námu 79,3 m USD á þriðja ársfjórðungi og 246,9 m USD á fyrstu níu mánuðum ársins.
- EBITDA var 28,2 m USD eða 35,6% á þriðja ársfjórðungi og 84,1 m USD eða 34,1% á fyrstu níu mánuðum ársins.
- Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 734,6 m USD og eiginfjárhlutfall var 61,2%.
Rekstur Tekjur á þriðja ársfjórðungi námu 79,3 m USD og 246,9 m USD á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 72,0 m USD á þriðja ársfjórðungi 2021 og 171,4 m USD á fyrstu níu mánuðum 2021. Rekstrartekjur jukust þannig um 7,2 m USD á þriðja ársfjórðungi 2022 eða um 10,0% á milli tímabila. Þá var tekjuaukning á fyrstu níu mánuðum ársins 75,5 m USD eða 44% samanborið við sama tímabil í fyrra. Tekjuaukningin skýrist af aukningu í mjöl- og lýsisvinnslunni og hærra afurðaverði á mjöli og lýsi en árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á þriðja ársfjórðungi nam 28,2 m USD eða 35,6% af rekstrartekjum, á þriðja ársfjórðungi 2021 var EBITDA 27,0 m USD eða 37,5% af rekstrartekjum. EBITDA eykst því um 1,2 m USD á milli tímabila. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2022 var EBITDA 84,1 m USD eða 34,1%. Til samanburðar var hún 59,7 m USD eða 34,8% á fyrstu níu mánuðum ársins 2021. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 21,5 m USD samanborið við 20,9 m USD á þriðja fjórðungi 2021. Á fyrstu níu mánuðunum var hagnaður fyrir tekjuskatt 79,0 m USD samanborið við 80,4 á sama tímabili 2021. Tekjuskattur var 4,9 m USD og hagnaður þriðja ársfjórðungs 2022 því 16,6 m USD samanborið við 17,3 m USD hagnað þriðja fjórðungs 2021. Hagnaður á fyrstu níu mánuðum ársins var því 62,8 m USD samanborið við 69,9 á sama tímabili 2021. Það er vert að taka fram að um 23,6 m USD af hagnaði fyrstu níu mánaða ársins 2021 er einskiptisliður sem er tilkominn vegna afhendingar á hlutabréfum í SVN eignafélagi til hluthafa Síldarvinnslunnar. Efnahagur Heildareignir námu 734,6 m USD í lok september 2022. Þar af voru fastafjármunir 585,5 m USD og veltufjármunir 149,1 m USD. Í lok árs 2021 námu heildareignir 634,2 m USD og þar af voru fastafjármunir 472,4 m USD og veltufjármunir 161,7 m USD. Fastafjármunir aukast því um 113,1 m USD og munar þar mestu um kaup á 34,2% hlut í Arctic Fish. Veltufjármunir dragast saman um 12,6 m USD. Handbært fé og viðskiptakröfur lækka á milli tímabilanna á meðan birgðir hækka. Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 449,4 m USD. Eiginfjárhlutfall var 61,2% í lok tímabilsins en það var 66,6% í lok árs 2021. Heildarskuldir og skuldbindingar félagsins voru 285,2 m USD og hækkuðu um 73,6 m USD frá áramótum. Vaxtaberandi skuldir voru 187,1 m USD í lok tímabilsins og hækkuðu um 65,0 m USD frá áramótum. Sjóðstreymi Handbært fé frá rekstri nam 57,2 m USD á fyrstu níu mánuðum ársins 2022 en var 50,2 m USD á sama tímabili 2021. Fjárfestingahreyfingar voru 136,3 m USD og jákvæðar fjármögnunarhreyfingar 47,7 m USD. Handbært fé í lok tímabilsins nam 47,4 m USD. Meginniðurstöður í íslenskum krónum á þriðja ársfjórðungi og fyrstu níu mánuðum ársins 2022 Séu niðurstöður rekstrarreiknings ársfjórðungsins og fyrstu níu mánaða ársins reiknaðar í íslenskum krónum á meðalgengi fyrstu níu mánaða ársins (1 USD=132,7 kr) voru rekstrartekjur ársfjórðungsins 10,5 milljarðar, EBITDA 3,7 milljarðar og hagnaður 2,2 milljarðar. Fyrir fyrstu níu mánuði ársins voru rekstrartekjur 32,8 milljarðar, EBITDA 11,2 milljarðar og hagnaður 8,3 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar í íslenskum krónum á gengi 30. september 2022 (1 USD=144,55 kr) voru eignir samtals 106,2 milljarðar, skuldir 41,2 milljarðar og eigið fé 65,0 milljarðar. Samþykkt árshlutareiknings Árshlutauppgjör fyrstu níu mánaða ársins 2022 var samþykkt á stjórnarfundi Síldarvinnslunnar 24. nóvember 2022. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS- International Financial Reporting Standards). Kynningarfundur 24. nóvember 2022 Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn á vefstreymi fimmtudaginn 24. nóvember klukkan 16:15. Streymið verður aðgengilegt á vefsíðu Síldarvinnslunnar https://svn.is/fjarfestar/streymi/. Streymið verður einnig aðgengilegt á streymisrás Síldarvinnslunnar á youtube https://www.youtube.com/channel/UC-7V1TcKj92J5Mc9OMMcFZQ/videos Þá verður hægt að senda spurningar á netfangið fjarfestir@svn.is og reynt verður að svara þeim á kynningarfundinum eftir fremsta megni. Frá forstjóra Veiðar og vinnsla á makríl og norsk - íslensku síldinni hafa gengið vel í ársfjórðungnum. Við erum að sjá samdrátt í bolfiskafla sem rekja má til kvótasamdráttar. Uppsjávarskip okkar voru í veiðisamstarfi sem kom sér vel þegar langt var að sækja. Erum að sjá aukningu á makríl til mjöl- og lýsisvinnslu sem helgast af gæðum hráefnisins. Mun hærra hlutfall síldar fer til mjöl- og lýsisvinnslu vegna markaðsaðstæðna. Nú stendur yfir vinna starfshópa sjávarútvegsráðherra þar sem fjallað er um flest í umhverfi greinarinnar og bindum við vonir við að sú vinna skili metnaðarfullri stefnu til eflingar íslensks sjávarútvegs til framtíðar. Nú hefur samkeppniseftirlitið samþykkt kaup okkar á Vísi hf. og eru þá öll skilyrði kaupanna uppfyllt. Vísir verður hluti af samstæðu Síldarvinnslunnar hf. frá og með 1. desember nk. Þar bíður okkar áhugavert og krefjandi verkefni við að samþætta starfsemi félaganna á sviði bolfiskveiða og -vinnslu. Það eru ýmsar áskoranir framundan en félagið er með sterkan efnahag og öflugt starfsfólk til að takast á við þær. Kjarasamningar eru lausir sem er vont fyrir alla aðila, bæði starfsfólk og fyrirtækin. Stríðið í Úkraínu hefur breytt viðskiptum inn á Austur Evrópu. Í dag er nánast eingöngu verið að afhenda vörur gegn greiðslu auk þess sem flutningar eru erfiðir og frystigeymslupláss nánast uppurið. Fjármagnsumhverfið er að breytast, aðgengi að fjármagni er þyngra og vaxtakostnaður er að aukast og spá markaðsaðilar að það geti varað í einhvern tíma. Orkuskortur í Evrópu mun breyta högum fólks og neysluvenjur geta tekið mið af því sem mun geta valdið sveiflum á mörkuðum. Þrátt fyrir ofangreindar áskoranir lítum við björtum augum til komandi loðnuvertiðar, auk þess sem 80% aukning á ráðgjöf í kolmunna kemur sér vel og mun jafna út sveifluna á loðnunni að einhverju leyti. Fjárhagsdagatal 3. ársfjórðungur 2022 – 24. nóvember 2022 Ársuppgjör 2022 – 9, mars 2023 Nánari upplýsingar Gunnþór B. Ingvason, forstjóri
|