English Icelandic
Birt: 2023-02-08 17:50:00 CET
Festi hf.
Ársreikningur

Festi hf.: Ársuppgjör 2022

EBITDA 2.293 millj. kr. á 4F og 10.020 millj. kr. fyrir 12M 2022

Helstu niðurstöður

  • Vörusala nam 31.744 millj. kr. samanborið við 26.428 millj. kr. árið áður og jókst um 20,1% milli ára.
  • Framlegð af vöru- og þjónustusölu nam 6.871 millj. kr. Framlegðarstig nam 21,6% og lækkar um 3,1 p.p. mestmegnis vegna hækkunar á hrávöruverðum á heimsmarkaði milli ára.
  • Viðbótarkostnaður vegna nýs kjarasamnings á vinnumarkaði frá 1. nóvember sl. nam um 200 millj. kr. á fjórðungnum.
  • EBITDA nam 2.293 millj. kr. samanborið við 2.809 millj. kr. á 4F 2021, sem jafngildir 18,4% lækkun milli ára en lækkunin er 9,5% ef tekið er tillit til söluhagnaðar fasteigna 276 millj. kr. sem var á 4F 2021.
  • Icelandic Food Company ehf., 45% eignarhluti keyptur, verður dótturfélag í 100% eigu frá 1. janúar 2023.
  • Eigið fé í lok árs 2022 nam 34.460 millj. kr. og eiginfjárhlutfall 36,9% samanborið við 39,4% í lok árs 2021.
  • Á árinu 2022 skila N1, ELKO og Krónan sinni bestu EBITDA afkomu frá upphafi ef ekki er tekinn með söluhagnaðar fasteigna hjá Krónunni á árinu 2021.
  • EBITDA fyrir árið 2022 nam 10.020 millj. kr. sem er í takt við miðgildi afkomuspár félagsins ef tekið er tillit til viðbótar kostnaðar nýs kjarasamnings frá 1. nóvember sl. sem var ekki inni í áætlunum.


Magnús Kr. Ingason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs og staðgengill forstjóra Festi:

Rekstur ársins 2022

Árið 2022 litaðist af mikilli hækkun heimsmarkaðsverða á hrávörum sem leiddi til aukinnar veltu og lækkunar á framlegðarstigi, sérstaklega í eldsneytishluta starfseminnar. Aukin verðbólga og mikil hækkun stýrivaxta sköpuðu einnig áskoranir í rekstrinum en þrátt fyrir þetta tókst öllum fyrirtækjum samstæðunnar, með markvissum aðgerðum, að skila einni bestu rekstrarafkomu sinni frá upphafi.

Stríðið í Úkraínu sem hófst í febrúar 2022 hafði mikil áhrif á heimsmarkaðsverð hrávara í heiminum sem hækkaði mikið. Verðbólga og mikil hækkun orkuverða á meginlandinu, hækkun flutningskostnaðar og fleiri lykilþátta í aðfangakeðjunni höfðu bein áhrif á innkaupsverð vara til hækkunar. Við í Festi og rekstrarfélögum erum meðvituð um ábyrgð okkar gagnvart viðskiptavinum og samfélaginu í heild. Við höfum kappkostað að leita allra leiða til að auka hagkvæmni í innkaupum og rekstri til að sporna gegn fyrrgreindum verðhækkunum þannig að þær skili sér ekki beint í vöruverð. Þar má nefna aðgerðir á borð við tímabundna verðfrystingu ákveðinna vara, aukið vöruframboð ódýrari valkosta, aukið skilvirkni í ferlum með nýjum stafrænum lausnum ásamt virku samtali við birgja félagsins til að finna leiðir til lækkun kostnaðar.

Breytingar á lykilstjórnendum á árinu 2022

Ásta Sigríður Fjeldsted var ráðin forstjóri Festi í september og tók við af Eggerti Þór Kristóferssyni, sem lét af störfum í júlí sama ár. Magnús Kr. Ingason fjármálastjóri Festi starfaði sem staðgengill forstjóra þar til Ásta var ráðin og aftur frá því hún fór í fæðingarorlof í byrjun nóvember. Guðrún Aðalsteinsdóttir tók við sem framkvæmdastjóri Krónunnar af Ástu S. Fjeldsted í september og Óttar Örn Sigurbergsson tók við sem framkvæmdastjóri ELKO 1. janúar af Gesti Hjaltasyni.

Framfaraverkefnin voru fjölmörg á árinu 2022

  • Nýjar starfseiningar, -staðsetningar og bætt þjónusta: Glæsilegar nýjar verslanir ELKO og Krónunnar opnuðu í Skeifunni á árinu, og einnig opnaði Krónan nýja verslun í Borgartúni og á Akureyri. Alls staðar var um að ræða stækkun og betri þjónustu. N1 opnaði sömuleiðis nýja þjónustumiðstöð á Mývatni og glænýtt bílaþjónustuverkstæði í Klettagörðum. N1 tók yfir rekstur Djúsí veitingastaðarins og fjölgaði stöðum þar sem Djúsí eru í boði ásamt Ísey Skyr börum. N1 rafmagn er einnig í mikilli sókn og gerði m.a. tímamótasamning við Reykjavíkurborg um kaup á allri almennri raforku frá og með áramótunum 22/23. Rafhleðslustöðvar N1 er nú að finna úti um allt land eða alls á 14 stöðum og verður fjölgað á næstu mánuðum.
  • Stafræn þjónusta við viðskiptavini: Rekstrarfélögin eru öll á mikilli ferð í innleiðingu á nýjum stafrænum lausnum til að bæta þjónustuupplifun viðskiptavina. N1 þjónustuappið fór í loftið á árinu þar sem hægt er að bóka dekkjaskipti, hlaða rafmagnsbílinn, skoða viðskiptasögu ofl. en vefverslun félagsins hefur tvöfaldast á árinu. Krónan kláraði innleiðingu á sjálfsafgreiðslulausninni Skannað og skundað í öllum sínum verslunum á árinu og hefur tvöfaldað veltu í gegnum Snjallverslun Krónunnar (vefverslun). ELKO innleiddi snjallspjall í vefverslun sinni á árinu sem er byltingakennd þjónusta þar sem viðskiptavinir fá söluráðgjöf frá starfsmanni í gegnum símann rétt eins og þeir væru staddir í verslun ELKO.
  • Nýmæli og umbætur í mannauðsmálum: Sem hluti af áherslu félagsins á skilvirkni og góð samskipti við og milli starfsfólks hefur starfsmanna-samskiptaforritið Relesys verið innleitt þvert á öll félögin. Markmiðið er að efla enn frekar innri samskipti og upplýsingagjöf, auka þjálfun og bjóða upp á rafræn námskeið m.a. í samstarfi við Akademias sem og auðvelda aðgengi starfsfólks að mannauðsteymi félaganna. Lýðheilsustefna og -aðgerðir fyrir starfsfólk voru styrkt og þróuð áfram.
  • Samfélagsleg ábyrgð: Festi og rekstrarfélög af sett sér skýr markmið þegar kemur að stuðningi við samfélagsleg málefni. Til að nefna nokkur verkefni sem farið var í á árinu: Fjárstuðningur til UNICEF fyrir börn á flótta í Úkraínu, stuðningur við EM kvenna 2022, hringrásarverkefni ELKO „Fáðu eitthvað fyrir ekkert“ þar sem hægt er að koma með gömul tæki, láta meta og fá inneign í ELKO, ásamt styrkjum til íþróttafélaga, góðgerðarsamtaka og annarra samfélagslegra innviða. Aukin áhersla á að vinna gegn matarsóun er sömuleiðis hluti af samfélagslegri ábyrgð Festi og rekstrarfélaganna.
  • Verðlaun og viðurkenningar: ELKO hlaut í fyrsta sinn í ár Jafnvægisvog FKA fyrir framlag til kynjajafnréttis, sem og viðurkenningu VR sem fyrirmyndarfyrirtæki. Krónan hlaut Íslensku Vefverðlaunin fyrir Skannað og skundað, Jafnvægisvog FKA, Hvatningarverðlaun jafnréttismála og Íslensku Ánægjuvogina í 6. sinn. N1 rafmagn hlaut viðurkenningu sem framúrskarandi fyrirtæki annað árið í röð. Forstjóri Festi fékk viðurkenningu FKA sem veitt eru fyrir vel unnin störf í þágu atvinnureksturs kvenna eða þeim sem hafa verið konum í atvinnulífinu sérstök hvatning og fyrirmynd.

Stöðugur vöxtur og aukinn ábati þrátt fyrir áskoranir á mörkuðum

„Mörg spennandi verkefni bíða Festi á komandi misserum, m.a. stækkun verslunar Krónunnar úti á Granda og uppbygging nýrrar Krónuverslunar í Grafarholti. Endurnýjun ELKO verslunarinnar í Lindum og innleiðing nýrra sjálfsafgreiðsluskápa fyrir utan verslanir ELKO. Ennfremur uppbygging nýs verkstæðis á Flugvöllum, Keflavík, fjölgun rafhleðslustöðva sem og frekari viðbætur í þjónustuappi N1. Áframhald verður á uppbyggingu og fjölgun útsölustaða tilbúinna rétta á borð við Djúsí og Ísey skyrbar hjá N1 sem og WokOn, sushi og fleiri staða með tilbúna rétti innan Krónunnar.

Enn er beðið eftir niðurstöðu Borgarsögusafns varðandi mögulega friðun bygginga á eldsneytislóðum til að komast áfram með deiliskipulagsvinnu er varðar lóðirnar við Skógarhlíð, Stóragerði og Ægissíðu.

Mikil tækifæri liggja í rekstri félaganna á komandi árum með því að leggja sem fyrr áherslu á hagstætt verð, gæði og góða upplifun viðskiptavina. Staðsetningar þjónustustöðva okkar munu áfram laða til sín stóran hóp ferðamanna, innlenda sem erlenda, og spár um fjölgun þeirra styrkir enn frekar horfur fyrir komandi rekstrarár. Áfram verður lögð mikil áhersla á skilvirkni og hagræðingu í rekstri á komandi rekstrarári sem og auknu samstarfi innan samstæðunnar, hagkvæmum innkaupum og nýjum leiðum til að lækka einingakostnað hjá samstæðunni í heild.

Festi er með sterka fjárhagsstöðu og félagið vel í stakk búið til að takast á við verkefnin framundan.“ segir Magnús Kr. Ingason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs og staðgengill forstjóra Festi.

Vefstreymi fyrir markaðsaðila, fimmtudaginn 9. febrúar 2023

Vefstreymi fyrir markaðsaðila verður fimmtudaginn 9. febrúar þar sem Magnús Kr. Ingason, fjármálastjóri Festi og staðgengill forstjóra, mun kynna afkomu samstæðunnar og svara spurningum. Fundurinn hefst kl. 08:30.

Skráning á fundinn fer fram hér: https://vimeo.com/webinars/events/01df3ef7-1a92-444a-b812-e9138603c7ac

Þátttakendur sem fylgjast með rafrænt geta spurt spurninga á meðan á fundi stendur í gegnum spjallþráð sem birtist fyrir neðan vefstreymið. Spurningum verður svarað að lokinni kynningu.

Kynningarefni vegna fundarins verður hægt að nálgast að honum loknum á heimasíðu Festi: www.festi.is/r/fjarhagsupplysingar

Viðhengi



5493005OLOCYXGTC7E83-2022-12-31-en.zip
Festi hf - Afkomutilkynning 4F 2022.pdf
Festi hf - Arsreikningur 2022 - signed.pdf