English Icelandic
Birt: 2024-02-07 18:34:31 CET
Festi hf.
Ársreikningur

Festi hf.: Ársreikningur 2023

 Hagnaður 975 millj. kr. á 4F og 3.438 millj. kr. fyrir 12M 2023

Helstu niðurstöður 4. ársfjórðungs 2023

  • Vörusala nam 35.235 millj. kr. samanborið við 31.744 millj. kr. árið áður og jókst um 11,0% milli ára.
  • Framlegð af vöru- og þjónustusölu nam 8.109 millj. kr. og jókst um 1.238 millj. kr. eða 18,0% á milli ára.
  • Framlegðarstig nam 23,0% og er óbreytt frá síðasta ársfjórðungi en hækkar um 1,4 p.p. frá 4F 2022.
  • Laun og starfsmannakostnaður eykst um 5,9% en stöðugildum fjölgar um 4,0% milli ára.
  • EBITDA nam 3.148 millj. kr. samanborið við 2.293 millj. kr. sem er hækkun um 37,3% milli ára.
  • Hagnaður fjórðungsins nam 975 millj. kr. eða 12,0% af framlegð og jókst um 37,7% frá árinu áður.
  • Eigið fé nam 35.842 millj. kr. og er eiginfjárhlutfallið 37,3% í lok árs 2023.
  • Handbært fé frá rekstri nam 1.933 millj. kr. eða 23,8% af framlegð, samanborið við 1.830 millj. kr. árið áður.
  • Nettó vaxtaberandi skuldir lækkuðu um 2.550 millj. kr. á árinu 2023.
  • Hagnaður ársins nam 3.438 millj. kr. og hagnaður á hlut 11,3 kr. Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður 3 kr. á hlut eða samtals 904 millj. kr., sem er 26,3% af hagnaði ársins.

Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi:

„Rekstur ársins gekk ágætlega í erfiðu rekstrarumhverfi.  Áhrif hárra heimsmarkaðsverða á hrávörum gætti áfram eins og árið áður með lægra framlegðarstigi, sérstaklega í eldsneytishluta starfseminnar. Áhrif hárrar verðbólgu og almennra launahækkana sem samið var um á vinnumarkaði, höfðu mikil áhrif á allan rekstrarkostnað. Barist er gegn hækkun vöruverðs og allra leiða leitað með birgjum og samstarfsaðilum til að sporna við hækkunum ásamt því að finna leiðir til hagræðingar. Búist er við að verð haldist áfram hátt á hrávörumörkuðum á meðan stríð geisar í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs en vonir standa til að verðbólga fari að ganga niður eftir því sem líður á árið 2024. 

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og matsbreytingar á árinu 2023 nam 11.015 millj. kr.  (2022: 10.020 millj. kr.) og hækkaði um 9,9% milli ára. Hagnaður ársins var 3.438 millj. kr.  (2022: 4.082 millj. kr.) en hátt vaxtastig hækkaði fjármagnsgjöld félagsins um 1.137 millj. kr. eða 47,2% milli ára. Aukin umsvif hjá öllum dótturfélögum Festi skýra betri EBITDA afkomu, sérstaklega í dagvöruhluta samstæðunnar þar sem veltan jókst mun meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá var magnaukning í sölu og fjölda heimsókna í verslanir á öllum sviðum starfseminnar. Hjá stjórnendum var áfram lögð mikil áhersla á lækkun rekstrarkostnaðar með ýmsum aðgerðum sem skýrir einnig mun betri rekstrarniðurstöðu en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Nýir stjórnendur tóku við lykilstörfum innan félagsins í skipulagsbreytingum fyrr á árinu: Ýmir Örn Finnbogason tók við sem framkvæmdastjóri N1, Óðinn Árnason sem framkvæmdastjóri Festi fasteigna og Eva Guðrún Torfadóttir var ráðin framkvæmdastjóri Bakkans (væntanleg úr fæðingarorlofi í lok mars).

Uppbygging og þróun verslana heldur áfram. Verslun Krónunnar á Granda var tekin í gegn í haust, ELKO opnaði glæsilega verslun á nýrri staðsetningu á Keflavíkurflugvelli í nóvember og N1 opnaði glæsilega þjónustumiðstöð að Flugvöllum í Reykjanesbæ í lok árs.

Stafræn þjónusta er í sífelldri þróun hjá félaginu og má þar helst nefna viðbætur í N1 appinu þar sem nú er hægt að hlaða bílinn, panta smurþjónustu og dekkjaskipti ásamt því að bóka dekkjaleigu, sem er nýjung á Íslandi og umhverfisvæn lausn. Krónan hefur stóraukið þjónustu sína við landsbyggðina í gegnum Snjallverslun Krónunnar og opnaði fyrir heimsendingar á Norðurlandi eystra í lok árs. Hún þjónustar nú Akureyri, Dalvík, Ólafsfjörð, Siglufjörð og Húsavík og mun sú sókn halda áfram á nýju ári. Nýr fyrirtækjavefur ELKO heldur áfram að vaxa en sala til fyrirtækja eykst frá ári til árs.

Þann 13. júlí 2023 náðist samningur um kaup á öllu hlutafé í Lyfju hf. sem var í kjölfarið samþykktur á hluthafafundi Festi í lok sumars. Málið er í fasa II hjá Samkeppniseftirlitinu sem felur í sér rannsókn á samkeppnislegum áhrifum samrunans. 

Félagið er fjárhagslega sterkt með sterka eigin fjárstöðu og heilt yfir vel í stakk búið til að takast á við þau verkefni sem framundan eru. Áfram verður lögð áhersla á skilvirkni og hagræðingu í rekstri á komandi ári sem og auknu samstarfi innan samstæðu til að lækka einingakostnað hjá samstæðunni í heild sem og sporna gegn hækkun vöruverðs.

Við erum stolt af þeim árangri sem við höfum náð í krefjandi rekstrarumhverfi og þökkum það fyrst og fremst tryggum viðskiptavinum og einstöku starfsfólki okkar um land allt", segir Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi.

Afkomufundur með markaðsaðilum 8. febrúar kl. 8:30.

Afkomufundur fyrir markaðsaðila verður haldinn fimmtudaginn 8. febrúar 2024 kl. 8:30 í höfuðstöðvum félagsins að Dalvegi 10 – 14 í Kópavogi. Á fundinum munu Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi, og Magnús Kr. Ingason, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Festi, kynna afkomu samstæðunnar og svara spurningum.

Fundinum verður einnig streymt beint á vefsíðu félagsins þar sem skráning á fundinn fer jafnframt fram: https://www.festi.is/cc/uppgjor-4f-2023. Þátttakendur sem fylgjast með rafrænt geta spurt spurninga á meðan á fundi stendur með því að senda tölvupóst á netfangið fjarfestatengsl@festi.is. Spurningum verður svarað að kynningu lokinni.

Kynningarefni vegna fundarins verður hægt að nálgast að honum loknum á heimasíðu Festi: https://www.festi.is/r/fjarhagsupplysingar.

Viðhengi



5493005OLOCYXGTC7E83-2023-12-31-en.zip
Festi hf - Afkomutilkynning 4F 2023.pdf
Festi hf - Arsreikningur 2023 - undirskrift.pdf