English Icelandic
Birt: 2021-07-22 14:28:01 CEST
Landsbankinn hf.
Árshlutareikningur - 6 mán.

Landsbankinn hf.: Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri helming ársins 2021

  • Hagnaður Landsbankans á öðrum ársfjórðungi 2021 var 6,5 milljarðar króna.
  • Afkoma bankans á fyrri helmingi ársins 2021 var jákvæð um 14,1 milljarð króna.
  • Arðsemi eiginfjár á fyrri helmingi ársins var 10,8%.
  • Kostnaðarhlutfall (K/T) var 43,7% og hagkvæmni í rekstri hélt áfram að aukast.
  • Markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði er tæplega 39% og hefur aldrei verið hærri.
  • Íbúðalán hafa aukist um 14% frá áramótum og hefur hlutdeild bankans á íbúðalánamarkaði aldrei verið meiri.
  • Í nær hverri viku í rúmlega þrjú ár hefur Landsbankinn boðið lægstu breytilega vexti á óverðtryggðum íbúðalánum sem eru í boði fyrir alla.
  • Þjónustutekjur jukust um 21% frá áramótum, einkum vegna vaxandi umsvifa í eignastýringu og fyrirtækjaráðgjöf.
  • Áskriftum að sjóðum Landsbréfa fjölgaði um 19% og samningum um þjónustu vegna verðbréfaviðskipta hjá bankanum fjölgaði um 34%.
  • Eignir í stýringu hjá samstæðu Landsbankans eru 643 milljarðar króna sem er um 90 milljarða króna aukning frá áramótum.
  • Hátt í 1.100 fyrirtæki komu í viðskipti við Landsbankann á fyrri helmingi ársins.
  • Um 4.500 reikningar hafa verið stofnaðir í gegnum Sparað í appi frá því það var kynnt í lok mars.

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 14,1 milljarð króna á fyrri helmingi ársins 2021 samanborið við 3,3 milljarða króna tap á sama tímabili árið 2020. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 10,8% á ársgrundvelli, samanborið við -2,7% á sama tímabili 2020.

Á fyrri árshelmingi námu hreinar vaxtatekjur 19 milljörðum króna sem er sama fjárhæð og árið áður. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 4,4 milljörðum króna samanborið við 3,6 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur voru 6,9 milljarðar króna en voru neikvæðar um 13,3 milljarða króna á sama tímabili árið 2020. Breytingin á milli ára skýrist af 2,8 milljarða króna jákvæðri virðisbreytingu útlána, samanborið við virðisrýrnun upp á 13,4 milljarða króna á sama tímabili árið á undan sem rekja má til þeirrar óvissu sem ríkti vegna Covid-19-faraldursins, sem þá var nýhafinn. Jákvæðar virðisbreytingar á fyrri helmingi ársins má rekja til þess að efnahagssamdráttur árið 2020 reyndist minni en útlit var fyrir og horfur eru á jákvæðum viðsnúningi á árinu 2021.

Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna nam 2,4% á fyrri helmingi ársins 2021 en var 2,5% á sama tímabili árið áður.

Rekstrarkostnaður var 13 milljarðar króna á tímabilinu samanborið við 13,2 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Þar af voru laun og launatengd gjöld 7,5 milljarðar króna og lækka þau um 153 milljónir króna á milli tímabila. Annar rekstrarkostnaður var 4,5 milljarðar króna samanborið við 4,6 milljarða króna á sama tímabili árið áður.

Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á fyrri helmingi ársins 2021 var 43,7%, samanborið við 54,1% á sama tímabili árið 2020.

Heildareignir Landsbankans jukust um 113 milljarða króna á tímabilinu og námu 1.677 milljörðum­ króna í lok fyrri helmings ársins 2021. Útlán jukust um 54,6 milljarða króna en útlánaaukninguna á fyrri helming ársins má rekja til aukningar á lánum einstaklinga. Í lok fyrri helmings ársins 2021 voru innlán frá viðskiptavinum 843 milljarðar króna, samanborið við 793 milljarða króna í árslok 2020 og höfðu því aukist um 50 milljarða króna.

Eigið fé Landsbankans var 267,9 milljarðar króna þann 30. júní sl. og eiginfjárhlutfallið var 25,1%.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Uppgjör bankans fyrstu sex mánuði ársins er afar gott; arðsemi eiginfjár er góð, kostnaður lækkar og traust afkoma var af öllum starfsþáttum. Merkjanleg aukning er í eignastýringu og markaðshlutdeild bankans hefur aldrei verið hærri.

Um mitt ár 2020 settum við verulegar fjárhæðir í varúðarsjóð vegna mögulegra útlánatapa en vegna betri stöðu í efnahagslífinu og fárra vanefnda eru virðisbreytingar útlána nú jákvæðar og varúðarsjóður lækkar á árinu. Bankinn er eftir sem áður í góðri stöðu til að takast á við áframhaldandi óvissu og bregðast við áhrifum Covid-19-faraldursins.

Góð rekstrarniðurstaða undanfarinna ára gerir okkur kleift að bjóða viðskiptavinum betri kjör. Undanfarin þrjú ár höfum við nær samfellt boðið lægstu óverðtryggðu íbúðalánavextina. Um leið höfum við lagt mikla áherslu á skjóta og góða þjónustu og höldum áfram að bæta við nýjungum. Nú geta viðskiptavinir fengið betri kjör á lánum á föstum vöxtum ef veðhlutfall er undir 60% og enn betri kjör ef veðhlutfall er lægra en 50%. Einnig bjóðum við nú upp á að festa vexti í appinu sem einfaldar viðskiptavinum lífið til muna.

Í heimsfaraldrinum höfum við stutt vel við bakið á ferðaþjónustufyrirtækjum sem eru í viðskiptum við bankann og öðrum geirum sem hafa orðið fyrir áföllum. Við lítum svo á að það sé sérlega mikilvægt að fyrirtæki séu sem best í stakk búin til að endurráða fólk og hefja starfsemi af fullum krafti eftir erfitt tímabil. Við höfum verið leiðandi á byggingarmarkaði og undanfarin ár hefur bankinn fjármagnað þúsundir íbúða og haldið áfram að byggja upp traust samstarf við leiðandi verktakafyrirtæki. Viðskipti við sjávarútvegsfyrirtæki hafa aukist og það er óhætt að segja að hápunktur ársins í sjávarútvegi, hingað til, hafi verið sérstaklega vel heppnað hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar, sem Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans hafði umsjón með.

Undanfarið ár hefur áhugi almennings á að ávaxta sparifé sitt með kaupum í verðbréfasjóðum og hlutabréfum aukist til muna. Á fyrri hluta ársins voru tveir nýir sjóðir stofnaðir af dótturfélagi bankans, Landsbréfum. Sjóðurinn Eignadreifing sjálfbær bættist í flokk eignadreifingarsjóða og er hann opinn öllum í netbanka Landsbankans. Brunnur vaxtarsjóður hóf starfsemi eftir að í hann var safnað 8,3 milljörðum króna frá fagfjárfestum. Á næstunni mun svo þriðji sjóðurinn, Horn IV, líta dagsins ljós en það er nýr 15 milljarða króna framtakssjóður sem kemur í kjölfar velgengni fyrri Hornsjóða og er ætlaður fagfjárfestum. Velgengni  í eignastýringu er til marks um það traust sem fjárfestar sýna bankanum og Landsbréfum.

Í byrjun sumars heimsótti ég allar starfsstöðvar bankans og það var einstaklega gaman að finna hversu mikill kraftur er í Landsbankafólki. Nýlega gerðum við breytingar sem gera það að verkum að einfaldara er fyrir starfsfólk að veita viðskiptavinum þjónustu og ráðgjöf, óháð því hvar þeir eru staddir á landinu. Þessar breytingar heppnuðust gríðarlega vel og styðja mjög vel við stefnu okkar um að vera til staðar um allt land, um leið og við höldum áfram að veita framúrskarandi stafræna bankaþjónustu. Starfsánægja í bankanum hefur aldrei mælst hærri, sem helst í hendur við að viðskiptavinir Landsbankans hafa tvö ár í röð verið þeir ánægðustu á bankamarkaði, samkvæmt Íslensku ánægjuvoginni.

Við erum með góð tök á rekstri bankans, skilum góðum árangri til hluthafa og náum vel til viðskiptavina. Ný stefna bankans er sterkt leiðarljós. Við erum í stöðugri framþróun og við viljum ná árangri. Það er Landsbanki nýrra tíma.“

Símafundur vegna uppgjörs

Föstudaginn 23. júlí kl. 10.00 mun bankinn bjóða upp á símafund á ensku þar sem farið verður yfir uppgjör bankans vegna annars ársfjórðungs 2021. Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með því að senda tölvupóst á netfangið fjarfestatengsl@landsbankinn.is.

Fjárhagsdagatal Landsbankans

Uppgjör 3F 2021 28. október 2021

Ársuppgjör 2021 3. febrúar 2022

 

Nánari upplýsingar veita:               

Rúnar Pálmason, upplýsingafulltrúi, samskipti@landsbankinn.is 

Hanna Kristín Thoroddsen, fjárfestatengsl, fjarfestatengsl@landsbankinn.is

Viðhengi



Arshlutareikningur_samstdu_30.06.2021.pdf
Frettatilkynning_Landsbankinn_afkoma_30.06.2021.pdf
Uppgjorskynning_Landsbankinn_30.06.2021.pdf