English Icelandic
Birt: 2023-02-14 17:45:48 CET
Eimskipafélag Íslands hf.
Ársreikningur

EIMSKIP: Ársuppgjör 2022

Eimskip er alþjóðlegt flutningafyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi, sem sinnir gámaflutningum og frystiflutningum í Norður-Atlantshafi og tengir saman Evrópu og Norður-Ameríku í gegnum Ísland. Enn fremur býður Eimskip viðskiptavinum sínum tengingar við alþjóðamarkaði og er sérhæft í alþjóðlegri flutningsmiðlun með áherslu á flutninga á frosinni og kældri vöru. Eimskip hefur á að skipa um 1.700 starfsmönnum og starfrækir 56 skrifstofur í 20 löndum, með u.þ.b. 60% tekna samstæðunnar upprunnar utan Íslands.

Helstu atriði í afkomu fjórða ársfjórðungs 

  • Sterkur ársfjórðungur í áætlunarsiglingum, sér í lagi með tilliti til hefðbundinnar árstíðarsveiflu. EBITDA áætlanasiglinga nam 27,8 milljónum evra samanborið við 18,7 milljónir á sama ársfjórðungi fyrra árs. Aukningin var einkum drifin áfram af góðri nýtingu í siglingakerfinu og vexti í Trans-Atlantic flutningum.
  • Flutningsmiðlun skilar góðri afkomu, þrátt fyrir lækkun á EBITDA um 2,2 milljónir evra frá fyrra ári, en EBITDA nam 10,6 milljónum í ársfjórðungnum sem er góð niðurstaða í sögulegu samhengi.
  • Það dró enn frekar úr þeim truflunum á aðfangakeðjum heimsins sem einkennt hafa alþjóðlega flutningageirann síðustu ár. Alþjóðleg flutningsverð hafa lækkað samfara því sem hafði neikvæð áhrif á framlegð í flutningsmiðlun félagsins en jafnframt jákvæð áhrif á magnþróun vegna betra aðgengis að gámum og plássi á skipum.
  • Tekjur á fjórðungnum námu 255,7 milljónum evra sem er aukning um 0,9 milljónir evra eða 0,4% samanborið við Q4 2021.
  • Kostnaður nam 217,3 milljónum evra á fjórðungnum og lækkaði um 2,7%. Olía og annar rekstrarkostnaður hækkuðu á meðan aðkeypt þjónusta lækkaði vegna lægri alþjóðlegra flutningsverða.
    • Launakostnaður hækkaði um 2,4 milljónir evra vegna gengisáhrifa, aukinna umsvifa, almennra launahækkana og einskiptis jólagreiðslu til allra starfsmanna að fjárhæð 1,5 milljónir evra, en þar af var 1,1 milljón evra gjaldfærð á fjórða ársfjórðungi.
  • Góð aukning í EBITDA sem nam 38,4 milljónum evra samanborið við 31,5 milljónir á sama ársfjórðungi 2021. EBITDA framlegð var 15% samanborið við 12,4% á sama fjórðungi síðasta árs.
  • Hagnaður eftir skatta nam 21,8 milljónum evra samanborið við 13,7 milljónir á sama tímabili 2021.

Helstu atriði í afkomu ársins 2022

  • Sterk afkoma sem má þakka áherslu á framúrskarandi þjónustu til viðskiptavina og skilvirkni í rekstri sem og hagfelldum ytri aðstæðum meirihluta ársins.
  • Góður gangur í áætlunarsiglingum, þar sem magn í Trans-Atlantic flutningum jókst umtalsvert og verð hækkuðu, samanborið við fyrra ár, sem endurspeglar mikla eftirspurn eftir flutningum á þessari alþjóðlegu flutningsleið.
    • Góð nýting var í siglingakerfinu sem byggði á sterku magni á öllum leiðum og virkri stýringu á flutningsgetu.
    • Áframhaldandi vel heppnuð vöruþróun undir merkjum Fresh by Sea
  • Alþjóðleg flutningsmiðlun skilaði góðri afkomu á markaði sem einkenndist af miklum sveiflum og verðlækkunum á seinni árshelmingi.
    • Flutningsmiðlun Eimskips í Asíu skilaði lægri afkomu en árið 2021 vegna breyttra markaðsaðstæðna, en aðrar skrifstofur skiluðu almennt betri niðurstöðu.
  • Tekjur námu 1.070,6 milljónum evra, sem er aukning um 187,9 milljónir eða 21,3% samanborið við árið 2021.
  • Kostnaður nam 907,5 milljónum evra, sem er aukning um 139,1 milljón* aðallega vegna hækkunar á aðkeyptri flutningsþjónustu, hærra olíuverðs og verðbólguþrýstings sem hafði áhrif á laun og annan rekstrarkostnað.
  • Góð aukning í EBITDA sem nam 163,1 milljónum evra samanborið við 114,3 milljónir evra 2021, sem jafngildir aukningu um 48,8 milljónir evra milli ára. EBIT nam 101,5 milljón evra samanborið við 63,3 milljónir evra* 2021.
  • Áframhaldandi gott framlag frá hlutdeildarfélaginu ElbFeeder á árinu 2022, vegna hagstæðra leigusamninga um skip félagsins.
  • Hagnaður eftir skatta nam 85,3 milljónum evra, samanborið við 50,6 milljónir evra* 2021.
  • Viðhaldsfjárfesting var í samræmi við áætlun ársins 2022 og nam 24,2 milljónum evra samanborið við 13,1 milljónir evra á fyrra ári.
  • Ný fjárfesting nam 9,7 milljónum evra samanborið við 2,3 milljónir evra 2021. Meðal helstu verkefna ársins 2022 voru fjárfesting í nýjum hafnarkrana í Sundahöfn sem var afhentur síðasta sumar, bygging á nýrri frystigeymslu, vöruhúsi og höfuðstöðvum í Færeyjum og nýtt sjálfvirkt gámahlið í Sundahöfn, en tvö síðarnefndu verkefnin eru enn þá á framkvæmdastigi.
  • Sterkt sjóðstreymi frá rekstri á árinu og lausafjárstaða nam 69,9 milljónum evra í árslok.
  • Skuldsetningarhlutfall var 1,01x EBITDA í árslok samanborið við 1,98x í árslok 2021, en langtímamarkmið er 2-3x. Eiginfjárhlutfall var 46,4% í lok árs samanborið við langtímamarkmið um 40%.
  • Stjórn félagsins mun leggja til við Aðalfund, sem verður haldinn 9. mars 2023, að greiddur verði út arður til hluthafa að fjárhæð u.þ.b. 22,5 miljónir evra, sem jafngildir 26% af hagnaði ársins.
    • Enn fremur mun stjórn leggja til að hlutafé félagsins verði lækkað um fjárhæð sem jafngildir um 12,5 milljónum evra, í því skyni að aðlaga fjármagnsskipan félagsins nær langtímamarkmiðum þess.
  • Stjórn og framkvæmdastjórn félagins eru þakklát fyrir framúrskarandi framlag starfsmanna Eimskips um allan heim sem hafa sýnt þrautseigju og útsjónarsemi í krefjandi rekstrarumhverfi.

VILHELM MÁR ÞORSTEINSSON, FORSTJÓRI

“Fjórði ársfjórðungur var góður, sér í lagi með tilliti til hefðbundinnar árstíðarsveiflu í okkar atvinnugrein. Afkoma fjórðungsins er drifin áfram af góðu gengi í áætlunarsiglingum félagsins og góðri eftirspurn á öllum flutningsleiðum, sérstaklega í Trans-Atlantic þjónustunni sem skilaði töluvert betri afkomu en fyrra ár. Til þess að mæta þeirri eftirspurn leigðum við 700 eininga gámaskip inn í flotann frá og með nóvember, en á sama tíma lentum við í vélarbilun á leiguskipinu EF Ava sem tók sex vikur í viðgerð og hafði það áhrif á afkastagetu fjórðungsins. Við sáum viðsnúning á alþjóðlegum flutningamörkuðum á fjórðungnum með mikilli lækkun á alþjóðlegum sjóflutningsverðum. Það jók pressu á framlegð í alþjóðlegri flutningsmiðlunarstarfsemi okkar, sér í lagi í Asíu, þar sem afkoma var lægri samanborið við fyrra ár, þótt afkoman sé góð í sögulegu samhengi.

Áhersla okkar á framúrskarandi þjónustu við viðskipavini, skilvirkni í rekstri og hagfelldar ytri aðstæður meirihluta síðasta árs, hjálpuðust að við að gera árið 2022 að metári í sögu félagsins. Við höldum áfram að þróa flutningalausnir í gámasiglingakerfinu undir merkjum „Fresh by Sea“ þar sem við bjóðum sérsniðnar lausnir fyrir innflytjendur jafnt sem útflytjendur á ferskum vörum, sem er markaður í vexti.

Það hefur verið krefjandi að stýra alþjóðlegu flutningafyrirtæki í gegnum það stormasama efnahagsumhverfi sem við höfum séð upp á síðkastið. Hækkandi verðbólga, hægari vöxtur í alþjóðlegri eftirspurn og spenna í alþjóðastjórnmálum eru meðal þeirra þátta sem við þurfum að mæta og aðlaga okkur að á hverjum tíma. Þar hefur komið sér vel að búa að öflugu teymi starfsfólks um heim allan, sem hefur sýnt þrautseigju og útsjónarsemi við þær óvenjulegu aðstæður sem hafa einkennt alþjóðlegt hagkerfi síðustu ár.

Við höldum áfram á sjálfbærnivegferð fyrirtækisins og meðal þeirra áfanga sem náðust á árinu voru landtenging skipa í Sundahöfn, sem gerir okkur kleift að tengja stærstu gámaskip flotans við rafmagn og spara þannig um 240 tonn af gasolíu á ári hverju. Við vinnum einnig stöðugt að því að stækka tækjaflota okkar sem drifinn er áfram af rafmagni og á árinu fengum við afhentan nýjan rafknúinn gámakrana og lögðum inn pöntun á tveimur stórum rafdrifnum flutningabílum sem við fáum afhenta á öðrum fjórðungi þessa árs. Ég er stoltur af því skrefi sem við tókum síðasta vor þegar við fórum af stað með leiðtogaþjálfun fyrir hóp starfsmanna á alþjóðavísu, með það að leiðarljósi að byggja upp breiðan og fjölbreyttan hóp leiðtoga innan félagsins. Í heildina hafa 74 einstaklingar frá 14 löndum farið í gegnum þjálfunina þar sem kynjahlutfall var jafnt. Þá er gaman að segja frá því að nú þegar hafa níu þátttakendur, þar af fimm konur, hlotið framgang í starfi í nýjum hlutverkum.

Árið 2023 fer af stað í samræmi við væntingar, þar sem hefðbundið er að áætlunarsiglingar fari hægt af stað fyrstu vikur janúar, en magn í kerfunum hefur aukist eftir því sem liðið hefur á fjórðunginn. Útflutningur frá Íslandi hefur verið lægri en vænst var, vegna lægri framleiðslu á ákveðnum útflutningsvörum, en magn í innflutningi og Trans-Atlantic hefur haldist gott. Nýlega hafa verð á Trans-Atlantic flutningum farið lækkandi og eru þau nú á svipuðum stað og fyrir ári síðan. Eftir rólega byrjun árs í alþjóðlegri flutningsmiðlun félagsins, sjáum við merki um magnaukningu og verðin eru á svipuðu reiki og í lok síðasta árs.“

KYNNINGARFUNDUR 15. FEBRÚAR 2023

Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. samþykkti ársreikning samstæðu Eimskips fyrir árið 2022 á stjórnarfundi þann 14. febrúar 2023. Kynningarfundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila verður haldinn miðvikudaginn 15. febrúar kl. 8:30 í höfuðstöðvum félagsins Sundabakka 2, 2. hæð. Fundurinn verður einnig rafrænn og verður honum streymt beint á fjárfestasíðu Eimskips www.eimskip.com/investors. Þar munu Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri og María Björk Einarsdóttir fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins fyrir fjórða ársfjórðung og fjárhagsárið 2022. Uppgjörsgögn og upptöku af fundinum verður einnig hægt að nálgast á fjárfestasíðunni.

FREKARI UPPLÝSINGAR

María Björk Einarsdóttir, fjármálastjóri , sími: 774 0604, netfang: investors@eimskip.com.

  
TIL ATHUGUNAR FYRIR FJÁRFESTA

Eimskip vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar tilkynningin er fyrst birt og takmarkast gildi þeirra við sem segir í fyrirvara þessum.

Viðhengi



549300IUR8Q7Y44KBL02-2022-12-31-en.zip
549300IUR8Q7Y44KBL02-2022-12-31-en.zip-viewer.html
Eimskip - 2022 Financial Results - Investor Presentation.pdf
Eimskipafelag Islands hf Consolidated Financial Statements 2022.pdf
Eimskip - Sustainability Statement 2022.pdf