Helstu atriði í afkomu fyrsta ársfjórðungs
VILHELM MÁR ÞORSTEINSSON, FORSTJÓRI
„Ég er ánægður með frammistöðu okkar í upphafi árs sem sýnir að okkur hefur tekist að bæta árangurinn í gámasiglingum samanborið við óásættanlega niðurstöðu á sama ársfjórðungi í fyrra. Ytra umhverfið alþjóðlega er áfram hagstætt fyrir flutningageirann en á sama tíma er rekstraraðstæður áfram krefjandi.
EBITDA nam 30,4 milljónum evra á fjórðungnum og jókst um 86% frá síðasta ári sem að mestu má rekja til magnaukningar í áætlunarsiglingum, bættrar afkomu í gámasiglingum auk góðs árangurs í alþjóðlegri flutningsmiðlun. Það er mikilvægt að hafa í huga að við vorum ekki ánægð með afkomuna á sama ársfjórðungi síðasta árs sem var óviðunandi. Áætlunarsiglingar Eimskips krefjast mikillar fjárbindingar í formi skipa, búnaðar og tækja. Það er mikilvægt að afkoma félagsins standi undir fjárfestingu í nýjum umhverfisvænni tækjum og geri okkur kleift að ráðast í verkefni sem miða að því að þróa þjónustu okkar og rekstur í takt við alþjóðlega þróun í sjálfbærni, stafrænum lausnum og sjálfvirkni. Við njótum góðs af lægri kostnaðargrunni eftir samþættingu og hagræðingaraðgerðir undanfarinna ára, ríkri áherslu á virka tekjustýringu ásamt öguðum verkferlum og stöðugum mælingum á rekstrarárangri.
Það var góður vöxtur í magni á Íslandi samanborið við fyrsta fjórðung síðasta árs og magnið í frystiflutningum í Noregi hélst stöðugt þrátt fyrir að siglingum til Murmansk hafi verið hætt frá og með febrúar. Það er áfram sterk eftirspurn eftir Trans-Atlantic flutningum og hefur siglingaleiðin vestur um haf verið fullbókuð og auk þess hefur mikil aukning verið í magni austurleiðina. Til að mæta umframeftirspurn höfum við ákveðið að auka afkastagetu á Norður-Ameríku leiðinni með því að færa skip tímabundið frá Noregi þar sem vertíðin er rólegri yfir sumarið.
Í alþjóðlegu flutningsmiðluninni okkar finnum við fyrir skorti á gámum og takmarkaðri afkastagetu hjá stóru skipafélögunum en þrátt fyrir það er afkoman góð.
Við sjáum viss stöðugleikamerki í alþjóðlegum flutningaverðum og leiguverðum skipa en hins vegar er enn ójafnvægi og stíflur í höfnum sem hefur áhrif á markaðinn og staðan er viðkvæm. Alþjóðlegar efnahagshorfur einkennast af miklum sveiflum og spennu á alþjóðavettvangi með áskorunum bæði á eftirspurnar- og framboðshliðinni.
Við erum almennt bjartsýn fyrir komandi mánuði og Eimskip er vel staðsett á sínum lykilmarkaði í Norður-Atlantshafi þar sem við þjónum heimamörkuðum sem eru drifnir áfram af inn- og útflutningi auk sérhæfingar í frystiflutningum í okkar alþjóðlegu flutningsmiðlun.“
KYNNINGARFUNDUR 13. MAÍ 2022
Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. samþykkti ársreikning samstæðu Eimskips fyrir fyrsta ársfjórðung 2022 á stjórnarfundi þann 12. maí 2022. Kynningarfundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila verður haldinn föstudaginn 13. maí kl. 8:30 í höfuðstöðvum félagsins Sundabakka 2, 2. hæð. Þátttakendur eru vinsamlega beðnir um að skrá sig fyrir lok dags 12. maí. Fundurinn verður einnig rafrænn og verður honum streymt beint á fjárfestasíðu Eimskips www.eimskip.com/investors. Þar munu Vilhelm Már Þorsteinsson forstjóri og María Björk Einarsdóttir fjármálastjóri kynna ársuppgjör félagsins. Uppgjörsgögn og upptöku af fundinum verður einnig hægt að nálgast á fjárfestasíðunni.
FREKARI UPPLÝSINGAR
Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og samskiptasviðs, sími: 825 3399, netfang: investors@eimskip.com .
TIL ATHUGUNAR FYRIR FJÁRFESTA
Eimskip vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari afkomutilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar tilkynningin er fyrst birt og takmarkast gildi þeirra við sem segir í fyrirvara þessum.
Viðhengi