English Icelandic
Birt: 2023-06-22 23:33:00 CEST
Íslandsbanki hf.
Innherjaupplýsingar

Íslandsbanki hf.: Spá um afkomu annars ársfjórðungs ársins 2023 og uppfærð afkomuspá fyrir árið 2023

Vísað er til fyrri tilkynningar Íslandsbanka í dag, 22. júní 2023, þar sem fram kom að stjórn Íslandsbanka hafi tekið ákvörðun um að þiggja boð fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands um að ljúka máli vegna framkvæmdar bankans á útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka sem fram fór hinn 22. mars 2022 með samkomulagi um sátt. Í samkomulaginu felst m.a. að bankinn greiði sekt að fjárhæð 1.160 milljónir króna. Tilkynning þessi lýsir áhrifum sektarfjárhæðarinnar á vænta afkomu annars ársfjórðungs ársins 2023 og hefur jafnframt að geyma uppfærða afkomuspá fyrir árið 2023.

Á öðrum ársfjórðungi 2023 gjaldfærir Íslandsbanki 860 milljónir króna vegna þessa atburðar en bankinn gjaldfærði 300 milljónir króna vegna sama atburðar í ársuppgjöri 2022.

Áætlað er að afkoma Íslandsbanka fyrir annan ársfjórðung 2023 verði á bilinu 5,8-6,5 milljarðar króna eftir skatt, þegar tillit hefur verið tekið til sáttarinnar, sem jafngildir arðsemi eigin fjár á bilinu 10,7-12,1% á ársgrundvelli. Byggir þessi vænta afkoma á stjórnendauppgjöri fyrir apríl og maí og spá um afkomu júnímánaðar og gerir m.a. ráð fyrir væntum jákvæðum áhrifum virðisrýrnunar á fjórðungnum. Öðrum ársfjórðungi er ólokið og getur afkoman tekið breytingum af þeim sökum, sem og í uppgjörsferlinu sjálfu.

Í ljósi afkomu bankans á fyrsta ársfjórðungi og væntrar afkomu annars ársfjórðungs uppfærir bankinn afkomuspá sína að því er varðar arðsemi eigin fjár fyrir árið 2023. Upphafleg spá gerði ráð fyrir 10-11% arðsemi á árinu, en nú er gert ráð fyrir að arðsemin verði á bilinu 10,7-11,7%. Er þar gert ráð fyrir virðisrýrnun sem nemur 0,25-0,30% á ársgrundvelli af lánasafni bankans á síðari hluta ársins, sem er í samræmi við vænta virðisrýrnun í gegnum hagsveifluna. Ný afkomuspá er háð fjölda áhættu- og óvissuþátta, sem geta valdið því að afkoma bankans verði frábrugðin því sem greint er frá í þessari spá.

Íslandsbanki birtir uppgjör annars ársfjórðungs 2023 eftir lokun markaða fimmtudaginn 27. júlí næstkomandi.

Þessi tilkynning er birt af Íslandsbanka hf. og inniheldur upplýsingar sem töldust eða kunna að hafa talist innherjaupplýsingar í skilningi 7. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og Ráðsins (ESB) nr. 596/2014 um markaðssvik (MAR), sbr. lög nr. 60/2021, um aðgerðir gegn markaðssvikum, varðandi athugun fjármálaeftirlitsins sem lýst er að ofan. Tilkynning þessi er gerð af Jóni Guðna Ómarssyni, fjármálastjóra Íslandsbanka hf., í samræmi við upplýsingaskyldu bankans samkvæmt MAR og 2. gr. framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EU) 2016/1055.

Frekari upplýsingar veita:
Fjárfestatengsl - Bjarney Anna Bjarnadóttir, ir@islandsbanki.is
Samskiptastjóri - Edda Hermannsdóttir, pr@islandsbanki.is

Fyrirvari
Framangreind fréttatilkynning gæti vísað til spár um framtíðarhorfur sem er háð áhættu- og óvissuþáttum og getur þýtt að raunverulegur árangur verði umtalsvert frábrugðinn því sem spáð er í þessari fréttatilkynningu. Íslandsbanki hf. hefur ekki skyldu til að, og mun ekki, uppfæra þessar spár um framtíðarhorfur félagsins til að endurspegla atburði og aðstæður sem eiga sér stað eftir útgáfu þessarar fréttatilkynningar. Það er ábyrgð fjárfestis að reiða sig ekki seinna meir á spár um framtíðarhorfur sem eru settar fram í þessari fréttatilkynningu þar sem þær eiga eingöngu við á þeim tíma sem hún er gefin út. Spár um framtíðarhorfur gefa ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur og eru allar yfirlýsingar um framtíðarhorfur félagsins fullgildar í heild sinni með tilliti til þessa fyrirvara.


Islandsbanki hf. Spa um afkomu annars arsfjorungs arsins 2023 og uppfr afkomuspa fyrir ari 2023.pdf