Skrifað hefur verið undir samning um kaup Ölgerðarinnar á öllu hlutafé í Ankra ehf. („Ankra“ eða „fyrirtækið“) sem séð hefur Ölgerðinni fyrir kollageni síðan 2019. Heildarvirði Ankra í viðskiptunum nemur 600 milljónum króna. Kollagen frá Ankra hefur verið notað við framleiðslu á virknidrykknum Collab og hefur fyrirtækið fengið réttindagreiðslur vegna þess bæði á Íslandi og á erlendum mörkuðum. Jákvæð áhrif kaupanna á EBITDA Ölgerðarinnar á næsta fjárhagsári eru áætluð um 100 milljónir króna. Stærsti eigandi Ankra fyrir viðskiptin er Hrönn Margrét Magnúsdóttir framkvæmdastjóri og annar stofnenda Ankra og hefur verið samið um að hún muni verða Ölgerðinni til ráðgjafar og aðstoði við útflutning á Collab næstu tvö árin.
„Það er afar ánægjulegt að samningar um kaup Ölgerðarinnar á Ankra hafi náðst og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við Hrönn í þeirri vegferð að gera Collab enn stærra. Rúm sex ár eru síðan Hrönn bankaði upp á hjá okkur með þá hugmynd að gera drykk sem innihéldi kollagen sem unnið væri úr íslensku fiskroði. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og Collab selt meira en 40 milljónir dósa, unnið til alþjóðlegra verðlauna og vakið mikla athygli. Collab hefur verið fáanlegt í Danmörku um hríð og markaðssókn er að hefjast í Þýskalandi í vor,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.
„Frá stofnun til dagsins í dag hefur Ankra notað yfir 2.500 tonn af fiskroði, sem áður var hent og þannig aukið verðmæti hliðarafurða íslenska fisksins töluvert við sköpun fyrsta flokks kollagenvara. Við erum mjög stolt af því og þeim árangri sem Collab hefur náð á svo skömmum tíma í þessu árangursríka samstarfi. Það verður ánægjulegt að fylgjast með áframhaldandi uppbyggingu Ölgerðarinnar á Collab erlendis og taka þátt í þeirri vegferð. Á sama tíma er ég spennt fyrir því að leggja áherslu mína á Feel Iceland og halda áfram að þróa sjálfbærar kollagen fæðubótavörur af bestu gæðum úr íslensku fiskroði og sjávarafurðum,“ segir Hrönn Margrét Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Ankra.
Hrönn mun á sama tíma kaupa vörumerkið Feel Iceland út úr rekstri Ankra og halda áfram rekstri þessi í sérstöku félagi, en Ölgerðin hefur ótímabundinn rétt til notkunar vörumerkisins við framleiðslu og markaðssetningu á drykknum Collab.
ARMA Advisory, IUS Lögmannsstofa og LOGOS veittu aðilum ráðgjöf í viðskiptunum.
Kaupin eru gerð með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Nánari upplýsingar veitir:
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar andri.thor.gudmundsson@olgerdin.is / 412 8000