Published: 2018-07-06 21:55:25 CEST
TM hf.
Innherjaupplýsingar

TM hefur einkaviðræður við Klakka hf. um kaup á Lykli fjármögnun hf.

Tryggingamiðstöðin hf. (TM) tilkynnti föstudaginn 22. júní 2018 að félagið hefði lagt fram skuldbindandi kauptilboð í alla hluti í Lykli fjármögnun hf. Á grundvelli tilboðsins hefur seljandi, Klakki hf., ákveðið að hefja einkaviðræður við TM um kaup á Lykli fjármögnun hf.  

Lykill er fjármögnunarfyrirtæki sem lánar til fyrirtækja og einstaklinga fyrir kaupum þeirra á bílum, vélum og tækjum. Á árinu 2017 námu hreinar vaxtatekjur 1.319 m.kr. og hagnaður fyrir tekjuskatt nam 1.076 m.kr. Í árslok 2017 námu heildareignir 31.779 m.kr. en þar af voru leigusamningar og útlán 22.740 m.kr. Þá nam eigið fé 13.324 m.kr.

Kauptilboðið nemur 10,6 milljörðum króna og er háð ýmsum fyrirvörum, svo sem um áreiðanleikakönnun og niðurstöðu hennar, samþykki Fjármálaeftirlitsins um að TM megi fara með virkan eignarhlut í hinu selda félagi og að Samkeppniseftirlitið samþykki hið nýja eignarhald.

Ráðgjafar TM í kaupunum voru Deloitte og BBA Legal.