English Icelandic
Birt: 2022-06-23 11:30:07 CEST
Nasdaq Nordic
Fjárfestatilkynningar

Nasdaq Iceland býður Alvotech hf. velkomið á Nasdaq First vaxtarmarkaðinn á Íslandi

Reykjavík, 23. júní, 2022 — Nasdaq (Nasdaq: NDAQ) tilkynnir að hlutabréf Alvotech (auðkenni: ALVO) verða í dag tekin til viðskipta á Nasdaq First North Growth Market Iceland. Félagið tilheyrir heilbrigðisgeiranum (e. Health care) og er 48. félagið sem tekið er til viðskipta á mörkuðum Nasdaq Nordic* í ár.

Alvotech, stofnað árið 2013 af Róberti Wessmann, stjórnarformanni fyrirtækisins, er líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. All­ir þætt­ir í þróun og fram­leiðslu eru í hönd­um fyr­ir­tæk­is­ins sjálfs til að tryggja há­marks­gæði. Félagið hefur samið við samstarfsaðila með þekkingu á heimamarkaði, um markaðssetningu og dreifingu á öllum helstu mörkuðum, þar á meðal í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína og víðar í Asíu, ásamt stórum hluta Suður-Ameríku, Afríku og í Miðausturlöndum. Höfuðstöðvar og há­tækni­set­ur Al­votech, sem staðsett er í Vís­inda­görðum Há­skóla Íslands í Vatns­mýri, eru búin full­komn­ustu tækj­um og búnaði til þró­un­ar og fram­leiðslu líf­tækni­lyfja. Félagið er með yfir 800 starfsmenn á heimsvísu.

„Skráning Alvotech hér á landi kemur í kjölfar vel heppnaðrar skráningar í Bandaríkjunum og markar afar spennandi tímamót fyrir félagið,“ sagði Róbert Wessman, stjórnarformaður og stofnandi Alvotech. „Félagið er á mikilvægri vegferð þar sem markmiðið er að verða leiðandi í heiminum í líftæknihliðstæðulyfjum og bæta líf sjúklinga um allan heim. Skráning hér á landi styrkir tengingu okkar við íslenska fjárfesta. Stuðningur fjárfesta gerir okkur kleift að halda áfram öflugu þróunarstarfi og nýta framleiðslugetuna sem þegar hefur verið byggð upp, til að koma lyfjum í sölu og dreifingu mörkuðum um allan heim, gegnum þétt riðið net samstarfsaðila.“

„Það er okkur mikil ánægja að bjóða Alvotech velkomið á First North vaxtarmarkaðinn á Íslandi,” sagði Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. „Alvotech er fyrsta íslenska félagið til að vera tvískráð hjá Nasdaq í Bandaríkjunum og á Íslandi. Félagið hefur sérstöðu á íslenska hlutabréfamarkaðnum sem stórt hávaxtarfyrirtæki í heilbrigðisgeiranum og er mikilvæg stoð íslenska þekkingarhagkerfisins. Við hlökkum til að vinna með þeim að auknum sýnileika og aðgengi fjárfesta. Við óskum öllum hjá félaginu innilega til hamingju.“

*Aðalmarkaðir og Nasdaq First North í Nasdaq Copenhagen, Nasdaq Helsinki, Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm.

Um Nasdaq

Nasdaq (Nasdaq: NDAQ) er alþjóðlegt tæknifyrirtæki sem þjónar verðbréfamörkuðum og öðrum atvinnugeirum. Fjölbreytt framboð okkar af markaðsgögnum, greiningarvörum, hugbúnaði og þjónustu gerir viðskiptavinum okkar kleift að láta framtíðarsýn þeirra verða að veruleika. Til að fræðast meira um félagið, tæknilausnir og störf hjá okkur, smellið á LinkedIn, Twitter @Nasdaq eða www.nasdaq.com

 

         Nasdaq tengiliður:
         Kristín Jóhannsdóttir
         kristin.johannsdottir@nasdaq.com
         868 9836