Rekstur 4. ársfjórðungs og ársins í heild gekk vel og var umfram áætlanir félagsins.
Helstu niðurstöður 4. ársfjórðungs 2024
- Vörusala nam 41.946 millj. kr. sem er aukning um 19,0% milli ára en 6,1% án áhrifa Lyfju sem kom inn í samstæðuna frá júlí 2024.
- Framlegð af vöru- og þjónustusölu nam 10.267 millj. kr. sem er aukning um 26,6% á milli ára en 8,5% án áhrifa Lyfju.
- Framlegðarstig nam 24,5% og hækkar um 1,5 p.p. frá 4F 2023 en stendur í stað frá síðasta ársfjórðungi.
- Laun og starfsmannakostnaður nam 5.202 millj. kr. og eykst um 31,6% milli ára en 7,6% án áhrifa Lyfju.
- Einskiptiskostnaður vegna stjórnvaldssektar að fjárhæð 750 millj. kr. hækkar rekstrarkostnað og lækkar EBITDA í fjórðungnum, sjá skýringu 32 í ársreikningi félagsins.
- EBITDA nam 2.957 millj. kr. og lækkar um 6,1% milli ára en hækkar um 17,8% án áhrifa stjórnvaldssektar.
- Hagnaður fjórðungsins nam 632 millj. kr. og lækkar um 35,2% milli ára en hækkar um 41,7% án áhrifa stjórnvaldssektar á afkomu fjórðungsins.
- Hagnaður ársins 2024 nam 4.018 millj. kr. og heildarafkoman 6.422 millj. kr. en endurmat fært beint á eigið fé vegna fasteigna félagsins í árslok 2024, nam 2.437 millj. kr.
- Eigið fé nam 43.493 millj. kr. og er eiginfjárhlutfallið 37,9% í lok árs 2024 samanborið við 37,3% árið áður.
- EBITDA ársins 2024 nam 12.511 millj. kr. en hefði verið 13.940 millj. kr. með rekstur Lyfju inni allt árið og án áhrifa stjórnvaldssektar.
- EBITDA spá félagsins fyrir árið 2025 nemur 14.400 – 14.800 millj. kr.
Ásta S. Fjeldsted, forstjóri:
- Rekstur félagsins gekk vel á fjórða ársfjórðungi og fór fram úr væntingum. Ánægjulegt var að fjöldi heimsókna og selt magn jókst í flestum verslunum milli ára ásamt því að góð aukning náðist í seldum eldsneytislítrum.
- Framlegðarstig styrktist í öllum vöru- og þjónustuflokkum samstæðunnar fyrir utan raftækjasölu og hækkar heilt yfir um 1,5 p.p. milli ára. Framlegð af vöru- og þjónustusölu nam 10.267 millj. kr. og hækkar um 26,6% milli ára.
- Rekstrarkostnaður fjórðungsins litast af 750 millj. kr. einskiptiskostnaði vegna stjórnvaldsssektar sem fjallað er um í skýringu 32 í ársreikningnum. Hækkun rekstrarkostnaðar milli ára nemur 20,3% án þeirra áhrifa sem sýnir að þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í á kostnaðarhliðinni eru að skila árangri.
- EBITDA ársins 2024 nam 12.511 millj. kr. sem er 13,6% hækkun milli ára. Ef Lyfja hefði verið með sinn rekstur inni allt árið og án áhrifa einskiptiskostnaðar þá hefði EBITDA ársins numið 13.940 millj. kr.
- Hagnaður ársins 2024 nam 4.018 millj. kr. sem er aukning um 16,9% frá árinu áður. Aukin umsvif þvert á öll félög samstæðunnar skýra góða afkomu, sérstaklega í dagvöru- og eldsneytishluta samstæðunnar.
- Horfur fyrir árið 2025 eru ágætar. Búist er við því að allir starfsþættir bæti afkomu sína milli ára, sérstaklega á fyrri helmingi ársins. Unnið verður áfram í samþættingu Lyfju við samstæðuna til að ná fram aukinni samlegð við aðra starfsþætti eins og hægt er. Áfram verður mikil áhersla á aukna hagræðingu og skilvirkni í allri virðiskeðju samstæðunnar. Festi áætlar að skila betri rekstrarniðurstöðu á árinu 2025, í formi EBITDA afkomu, hagnaði eftir skatt og arðsemi eigin fjár.
Það sem bar hæst á síðasta ári og árið framundan:
- Festi fjölskyldan stækkaði um heilt númer þegar Lyfja kom inn í samstæðuna í júlí eftir að Samkeppniseftirlitið samþykkti samrunann með sátt. Við Lyfju tók nýr framkvæmdastjóri Karen Ósk Gylfadóttir og með henni sterkt stjórnendateymi. Undir lok árs fluttist skrifstofa Lyfju yfir í höfuðstöðvar Festi á Dalvegi í Kópavogi og á sama tíma tók móðurfélagið yfir og sinnir sambærilegri stoðþjónustu og veitt er öðrum félögum í samstæðunni til Lyfju.
- Yrkir eignir tók við öllum fasteignarekstri samstæðunnar í ársbyrjun 2024 en félagið leigir út atvinnuhúsnæði til félaga í verslunarrekstri og rekur öryggisdeild og framkvæmdadeild ásamt því að þróa fasteignasafn samstæðunnar með arðsemi að markmiði. Þessu tengt hefur félagið unnið að mörgum mjög spennandi fasteignaþróunarverkefnum á árinu, eins og í Stóragerði, Skógarseli og við Ægisíðu, ásamt verkefnum á Akranesi og í Vík í Mýrdal, sem nánar verður kynnt á boðaðri fjárfestakynningu á morgun, 6. febrúar.
- Við hófum formlegt söluferli í lok september á Olíudreifingu sem nú stendur yfir en Festi á 60% hlut á móti Olís. Í byrjun desember var þremur aðilum boðið að halda áfram í söluferlinu.
- Magnús Hafliðason var ráðinn framkvæmdastjóri N1 og tekur við undir lok mánaðarins. N1 færði sig aftur inn á þvottastöðvamarkaðinn þegar félagið tók yfir sex þvottastöðvar sem höfðu verið í útleigu til þriðja aðila um árabil. Einnig opnaði N1 nýja þjónustustöð, þá stærstu á Suðurnesjum, á Flugvöllum, Reykjanesi og tók undir sig nýtt húsnæði fyrir stærsta dekkjahótel landsins við Borgarhellu.
- Glæsileg og endurbætt flaggskipsverslun ELKO í Lindum í Kópavogi opnaði í lok október þar sem félagið heldur áfram að sækja fram með hnitmiðuðu vöruúrvali og öflugri þjónustu fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki.
- Krónan heldur áfram að bæta sig og hefur viðskiptavinum og fjölda seldra vara fjölgað umtalsvert milli ára. Glæsilegar uppfærslur á verslunum Krónunnar í Grafarholti og á Bíldshöfða hafa vakið lukku meðal viðskiptavina, sem sýnir sig í auknum viðskiptum á þessum stöðum.
- Mikill vöxtur hefur átt sér stað í öllum netverslunum samstæðunnar og ljóst að framtíðin liggur í frekari áherslu á þróun og vöxt þar. Vefverslun ELKO er að verða ein stærsta eining ELKO. Krónan bætti töluvert við sig af afhendingarstöðum; Húsavík, Vestmannaeyjar, Neskaupsstaður, Eskifjörður, Reyðarfjörður, Fáskrúðsfjörður, Laugarás, Flúðir og Reykholt. Lyfja hefur sömuleiðis átt mikilli velgengni að fagna með netsölu og heimsendingar í nýju appi Lyfju, sem leyfir kaup á lyfseðilskyldum lyfjum, lausasölulyfjum, snyrtivörum og ýmiss konar heilsuvörum um land allt. N1 bætir stöðugt í virkni og þjónustu stafrænna lausna með N1 kortinu í appi og afgreiðslukioskum á stærstu þjónustustöðvum félagsins.
- Þá var mikilvægur lærdómur dreginn af sátt sem gerð var við Samkeppniseftirlitið (SKE) í lok nóvember um brot Festi á sátt sem gerð var á árinu 2018 vegna kaupa N1 á Festi árið 2018. Stjórnvaldssektin nam 750 millj. kr. og var þungt högg en málinu telst endanlega lokið og kemur ekki til frekari rannsóknar eða málsmeðferðar gagnvart félaginu, starfsfólki eða öðrum einstaklingum af hálfu SKE.
Horfandi fram á veginn er ljóst að félagið okkar er að stækka og eflast. Áhersla verður áfram á að bæta tekjuvöxt, halda aftur af kostnaði og skerpa á skilvirkni til að auka framlegð og lækka einingakostnað. Fjölmörg tækifæri skapast með innkomu Lyfju í samstæðuna sem unnið verður að á árinu samhliða gríðarmörgum öðrum spennandi verkefnum sem gaman verður að segja frá þegar líður á árið. Við erum stolt af þeim árangri sem náðist á síðasta ári og þökkum það fyrst og fremst tryggum viðskiptavinum og einstöku starfsfólki okkar um land allt,“ segir Ásta S. Fjeldsted forstjóri Festi.
Afkomufundur með markaðsaðilum 6. febrúar kl. 8:30.
Afkomufundur fyrir markaðsaðila
verður haldinn fimmtudaginn 6. febrúar 2025 kl. 8:30 í höfuðstöðvum félagsins að Dalvegi 10 – 14 í Kópavogi. Á fundinum munu Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi, og Magnús Kr. Ingason, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Festi, kynna afkomu samstæðunnar og svara spurningum.
Fundinum verður einnig streymt beint á vefsíðu félagsins þar sem skráning á fundinn fer jafnframt fram: https://www.festi.is/tenglar/uppgjör-4F-2024. Þátttakendur sem fylgjast með rafrænt geta spurt spurninga á meðan á fundi stendur með því að senda tölvupóst á netfangið fjarfestatengsl@festi.is. Spurningum verður svarað að kynningu lokinni.
Kynningarefni vegna fundarins verður hægt að nálgast að honum loknum á heimasíðu Festi: https://www.festi.is/fjarhagsupplysingar
![](https://ml-eu.globenewswire.com/media/ODM0ZDZiYjQtZTgyNi00YThiLTgyY2MtZjJiNWJlZTk3Y2RmLTEwMTM3MTk=/tiny/Festi-hf-.png)