Fly Play hf.: Tekjur 15,3 milljarðar, rekstrarhagnaður tífaldast og hagnaður eftir skatta 724 milljónirTekjur 15,3 milljarðar, rekstrarhagnaður tífaldast og hagnaður eftir skatta 724 milljónir
● Flugfélagið PLAY skilaði hagnaði upp á 5,2 milljónir bandaríkjadala, 724 milljónir króna, á þriðja ársfjórðungi 2023, samanborið við tap upp á 2,9 milljónir bandaríkjadala, 404 milljónir króna, á sama tímabili í fyrra. ● Heildartekjur á þriðja ársfjórðungi 2023 jukust um 84% samanborið við þriðja ársfjórðung 2022. Heildartekjurnar fóru úr 59,9 milljónum bandaríkjadala, 8,3 milljörðum íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi 2022 í 110,2 milljónir bandaríkjadala, 15,3 milljarða íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi 2023. ● Rekstrarhagnaður nær tífaldaðist á milli ára en hann fór úr 1,3 milljónum bandaríkjadala, 181 milljón króna, á þriðja ársfjórðungi 2022 í 12,9 milljónir bandaríkjadala, nær 1,8 milljarða króna, á þriðja ársfjórðungi 2023. ● Hliðartekjur héldu áfram að aukast í þriðja ársfjórðungi. Hliðartekjurnar hafa aukist um 150% á fyrstu níu mánuðum ársins 2023 samanborið við sama tímabil í fyrra og hliðartekjur á hvern farþega hafa aukist um 35% á milli ára. ● PLAY sló eigið farþegamet á þriðja ársfjórðungi þegar það flaug 191.577 farþegum í júlí og sætanýting mældist 91,1%. ● PLAY var með áætlunarflug til 33 áfangastaða í þriðja ársfjórðungi og var stundvísi félagsins 85,1% og sætanýtingin 88,4% í fjórðungnum. ● Tekjur á hvern sætiskílómetra (RASK) jukust um 9% milli ára og voru 6,1 dollarasent á þriðja ársfjórðungi. ● Kostnaður á hvern sætiskílómetra án eldsneytiskostnaðar (CASK Ex-Fuel) var 3,4 dollarasent. Heildar CASK lækkaði um 2% á milli ára og var 5,3 dollarasent. ● Handbært fé undir lok þriðja fjórðungs nam 39,2 milljónum bandaríkjadölum, 5,4 milljörðum króna, þar á meðal bundið fé. Félagið hefur engar vaxtaberandi skuldir. ● Einingatekjur eru í áframhaldandi vexti á komandi mánuðum og staða bókana fyrir næstu mánuði er sterk þrátt fyrir að framboð á sætiskílómetrum á fyrsta ársfjórðungi 2024 aukist um 79%. Birgir Jónsson, forstjóri: Við erum mjög stolt af árangri okkar á þriðja ársfjórðungi og sérstaklega af því að PLAY skilaði um 720 milljóna króna hagnaði sem er í fyrsta sinn sem félagið skilar hagnaði eftir skatta. Rekstrarhagnaður tífaldaðist frá sama fjórðungi á síðasta ári, tekjur jukust um 84% og farþegahópurinn stækkaði um 74%. Þetta eru merkilegar staðreyndir og skýr vitnisburður um að viðskiptamódel PLAY er að virka vel og þess að félagið hefur á að skipa gríðarlega hæfu teymi fagfólks á öllum sviðum. PLAY hefur vaxið gríðarlega mikið síðustu misseri enda höfum stækkað flugflota okkar mikið, bætt fjölmörgum áfangastöðum við leiðakerfið og ráðið og þjálfað mörg hundruð frábæra starfsmenn. Það er því sérstakt afrek að í þessum mikla vexti hefur okkur tekist að hækka einingatekjur okkar umtalsvert, skila hagnaði, ásamt því að byggja upp heilbrigða lausafjárstöðu. Svona hraður vöxtur er þó mjög dýr og setur mikið álag á innviði fyrirtækisins, við ætlum því ekki að vaxa eins hratt á næsta ári heldur einbeita okkur að því að fínstilla starfsemina á öllum sviðum og hámarka þannig afkomuna af rekstrinum. Við vitum að það mun skila sér í sterkara og arðbærara fyrirtæki og mun undirbúa okkur fyrir næsta vaxtartímabil sem hefst árið 2025 þegar við tökum inn enn fleiri flugvélar, sem sumar hafa nú þegar verið pantaðar, og stækkum og þéttum leiðarkerfið enn frekar. Við leggjum allt kapp á að halda kostnaðinum í lágmarki og hefur það tekist vel hingað til enda er það algjörlega nauðsynlegt til þess að ná árangri í flugrekstri. Þetta er viðvarandi verkefni sem þarf að stöðugt að vaka yfir, ekki síst á verðbólgutímum, og því er sérstök ástæða til að þakka mínu frábæra teymi fyrir þennan góðan árangur. Allt starfsfólk PLAY hefur staðið sig eins og hetjurnar sem þau eru á þessum fjórðungi og ég er sannfærður um að ekkert getur stoppað þau þegar þau halda áfram að spila til sigurs í framtíðinni. Rekstartengdir mælikvarðar | | 3F 2023 | 3F 2022 | Breyting | Fjöldi fluga | fjöldi | 3,222 | 1,994 | 1,228 | Fjöldi áfangastaða í rekstri | fjöldi | 33 | 22 | 11 | Fjöldi flugvéla í rekstri | fjöldi | 10 | 6 | 4 | Stundvísi | % | 85% | 85% | 0.1 ppt | Fjöldi farþega | þús. | 540 | 311 | 74% | Sætiskílómetrar (ASK) | millj. | 1,821 | 1,067 | 71% | Tekjur á farþegakílómetra (RPK) | millj. | 1,611 | 913 | 76% | Meðallengd flugleggja (km) | fjöldi | 2,941 | 2,918 | 1% | Sætanýting | % | 88% | 85% | 3 ppt | Fjöldi sæta í boði | þús. | 619 | 367 | 69% | | | | | | Rekstrarreikningur | | | | | Rekstrartekjur | millj. USD | 110.2 | 59.9 | 50.3 | Rekstrargjöld | millj. USD | 82.1 | 49.3 | 32.8 | EBIT | millj. USD | 12.9 | 1.3 | 11.5 | EBIT hlutfall | % | 12% | 2% | 10 ppt | Afkoma | millj. USD | 5.2 | -2.9 | 8.1 | | | | | | Efnahagsreikningur | | | | | Heildareignir | millj. USD | 493.8 | 327.6 | 166.3 | Heildarskuldir | millj. USD | 468.4 | 287.9 | 180.4 | Eigið fé | millj. USD | 25.5 | 39.6 | -14.2 | Eiginfjárhlutfall | % | 5.2% | 12.1% | - | Fé (handbært og bundið) | millj. USD | 39.2 | 29.6 | 9.62 | | | | | | Hlutabréf | | | | | Hlutabréfaverð í lok tímabils | per bréf | 8.8 | 16.3 | - | Tap á hlut | US sent | 0.80 | -0.50 | - | | | | | | Lykilmælikvarðar | | | | | Flugtekjur per farþega | USD | 144 | 150 | -4% | Hliðartekjur per farþega | USD | 58 | 43 | 34% | Heildartekjur per farþega | USD | 201 | 193 | 4% | TRASK | US sent | 6.1 | 5.6 | 9% | CASK (með eldsneytis- og kolefniskostnaði) | US sent | 5.3 | 5.5 | -2% | CASK (án eldsneytis- og kolefniskostnaðar) | US sent | 3.4 | 3.1 | 11% | CO₂ per RPK (grömm CO₂ per RPK) | fjöldi | 57 | 62 | -9% | CO₂ útblástur í tonnum frá flugvélaolíu | fjöldi | 91,578 | 56,960 | 61% | Auknar tekjur og hærri sætanýting þrátt fyrir mikla framboðsaukningu Flugfélagið PLAY var með áætlunarferðir til 33 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku á þriðja ársfjórðungi 2023. Framboð á sætiskílómetrum jókst um 71% á milli ára. Sætanýting jókst um 3,4 prósentustig, úr 85% á þriðja ársfjórðungi 2022 í 88,4% á þriðja ársfjórðungi 2023. PLAY flutti 540 þúsund farþega á þriðja ársfjórðungi, sem er 74% meira en á þriðja ársfjórðungi 2022, þegar PLAY flutti 311 þúsund farþega. Þrátt fyrir 70% aukningu í sætisframboði jukust tekjur um 84% og einingatekjur fyrir hvern sætiskílómetra (RASK) um 9% milli ára. Þessi bæting í sætanýtingu og einingatekjum er til marks um þá góðu stöðu sem PLAY hefur náð á lykilmörkuðum félagsins. 24% allra farþega PLAY voru á leið frá Íslandi, 33% á leið til Íslands og 43% voru tengifarþegar (VIA) á þriðja ársfjórðungi. Tengifarþegum fjölgaði um fjögur prósentustig milli ára. Sætanýting á leiðum til og frá Norður-Ameríku var 92% á fjórðungnum. Farþegum fjölgaði um 74% á milli ára en af þeirri fjölgun var 88% aukning í farþegum til og frá Norður-Ameríku og 66% aukning í farþegum til og frá Evrópu. Þessi fjölgun tengifarþega, bæði þegar kemur að fjölda farþega og hlutfalli af heildarfjölda farþega, í samanburði við þriðja ársfjórðung 2022, skýrist af fjölgun tenginga innan leiðakerfisins, aukinni vitund um PLAY á erlendum mörkuðum og mikilli eftirspurn í Bandaríkjunum. Allir þessir þættir, ásamt því að hefja sölu á fargjaldapökkum í febrúar, hefur leitt til aukningar á tekjum frá tengifarþegum í samanburði við þriðja ársfjórðung í fyrra. Flugrekstur gekk sem fyrr vel en stundvísi mældist 85,1% sem er mun betri frammistaða en hjá helstu keppinautum flugfélagsins. Er það merki um vel unnin verk þeirra sem starfa hjá PLAY og þjónustuaðilum félagsins. Fjárhagsniðurstaða þriðja ársfjórðungs 2023 Eftir mikla uppbyggingu á síðastliðnum ársfjórðungum, þar sem fjórum nýjum farþegaþotum var bætt við flota PLAY og 13 nýjum áfangastöðum, er niðurstaðan sú að þriðji ársfjórðungur 2023 er besti ársfjórðungur flugfélagsins frá stofnun þess. Hagnaðurinn nam 5,2 milljónum bandaríkjadala, 724 milljónum króna, sem er viðsnúningur upp á 8,1 milljón bandaríkjadala, 1,1 milljarð króna, frá þriðja ársfjórðungi 2022 þegar félagið skilaði tapi upp á 2,9 milljónir bandaríkjadala, 404 milljónir króna. Tekjur á þriðja ársfjórðungnum voru 110,2 milljónir bandaríkjadala, 15,3 milljarðar króna, samanborið við tekjur upp á 59,9 milljónir bandaríkjadali, 8,3 milljarða króna, á þriðja ársfjórðungi í fyrra. Heildartekjur PLAY á hvern sætiskílómetra (TRASK) jukust um 9% á milli annars ársfjórðungs og þriðja ársfjórðungs og standa í 6,1 bandaríkjasenti. Rekstrarhagnaður á þriðja ársfjórðungi var 12,9 milljónir bandaríkjadala, nær 1,8 milljarðar króna, samanborið við rekstrarhagnað upp á 1,3 milljónir bandaríkjadala, 181 milljón króna, á þriðja ársfjórðungi 2022. PLAY hefur lagt ríka áherslu á að auka hliðartekjur með auknu vöruframboði á borð við pakkafargjöld sem var fyrst boðið upp á í febrúar ásamt öðrum hliðartekjuvörum. Meðalhliðartekjur á hvern farþega í þriðja ársfjórðungi voru 58 bandaríkjadalir og jukust um 35% samanborið við þriðja ársfjórðung 2022 þegar þær voru 43 bandaríkjadalir. Heildarhliðartekjur á fyrstu níu mánuðum þessa árs eru 150% hærri en á sama tímabili í fyrra. Rekstrargjöld, að meðtöldum afskriftum, voru 82,1 milljón bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi. Einingakostnaður var 5,3 bandaríkjasent sem er lækkun upp á 2% samanborið við fyrra ár. Einingakostnaður utan eldsneytiskostnaðar var 3,4 bandaríkjasent sem er 11% aukning á milli ára sem rekja má til verðbólgu og einskiptis kostnaðar vegna viðhalds. PLAY býst við að einingakostnaður utan eldsneytiskostnaðar verði um 3,7 bandaríkjasent yfir allt árið 2023. Fjármunatekjur og útgjöld voru neikvæð í fjórðungnum um 6 milljónir bandaríkjadala, en þar af voru 4,6 milljónir bandaríkjadala vaxtagjöld vegna leiguskuldbindinga. Heildareignir PLAY námu 493,8 milljónum bandaríkjadala við lok fjórðungsins, samanborið við 331,5 milljónir bandaríkjadala við lok árs 2022. Félagið var með tíu farþegaþotur í rekstri á þriðja ársfjórðungnum. Viðskiptakröfur og aðrar kröfur námu 27,9 milljónum bandaríkjadala og eru að mestu leyti kröfur á færsluhirði félagsins vegna sölu flugmiða. Fyrirfram greiddar tekjur minnkuðu á tímabilinu og voru 40,7 milljónir bandaríkjadala við lok september, samanborið við 82,4 milljónir bandaríkjadala við lok júní, en þetta er viðbúið vegna árstíðasveifla. Við lok fjórðungsins, nam handbært fé 39,2 milljónum bandaríkjadala, þar á meðal bundið fé. Eigið fé var 25,5 milljónir bandaríkjadala. Félagið hefur engar vaxtaberandi skuldir. Besta áhöfnin og nýjar hliðartekjuvörur Áhöfn flugfélagsins PLAY er sú besta að mati lesenda bandaríska fjölmiðilsins USA Today. Þetta er niðurstaða kosningar sem fór fram á vegum USA Today 10Best þar sem PLAY var tilnefnt ásamt þekktustu flugfélögum heimsins. Sérfræðingar á vegum USA Today 10Best tilnefndu áhafnir sem síðan voru lagðar fyrir dóm lesenda sem fengu fjórar vikur til að segja sína skoðun með því að greiða atkvæði með þeirri áhöfn sem þeim þótti bera af. Þar varð áhöfn PLAY hlutskörpust en önnur flugfélög sem voru tilnefnd ásamt PLAY voru Virgin Atlantic, Fiji Airways, Southwest Airlines, Delta Airlines, Korean Air, British Airways, Emirates, Singapore Airlines og Cathay Pacific. PLAY hefur undanfarið prófað stafræna sjálfsafgreiðslu um borð í farþegaþotum sínum þar sem farþegar geta pantað vöru í gegnum eigin tæki. Prófanir hafa þegar leitt í ljós aukna sölu um borð og með þessari stafrænu sjálfsafgreiðslu er hægt að bjóða upp á sveigjanleg verð og vöruúrval. Farþegar geta einnig fylgst með framvindu ferðar sinnar í eigin tæki og þá verður jafnframt hægt að spila tölvuleiki og horfa á barnaefni, farþegum að kostnaðarlausu. PLAY hefur einnig hafið sölu á flugsætum með auknu plássi og þægindum. Varan er nefnd „Space-sæti“ þar sem farþegum býðst að kaupa sér sæti með auknu fótarými við glugga eða gang þar sem þægilegu hliðarborði hefur verið komið fyrir í miðjusætinu. Þessi vara mun draga framboð á sætum í Airbus A321neo úr 214 sætum í 200 sæti. Það þýðir að PLAY mun draga úr kostnaði því þá þarf færri áhafnarmeðlimi til að þjónusta farþega. Þetta mun að sama skapi auka hliðartekjur og verður einfalt að auka framboðið á ný þegar eftirspurnin eykst á ný eftir veturinn. Horfur Horfur PLAY eru óbreyttar frá sumarlokakynningu félagsins undir lok septembermánaðar. Þar kom fram að búist er við að PLAY flytji 1,5 milljónir farþega árið 2023 og að 10 milljóna bandaríkjadala tap verði á rekstri. Áætlað er að tekjur félagsins verði 280 milljónir bandaríkjadala árið 2023. Frekari upplýsingar: Streymi frá fjárfestakynningu, 26. október 2023 PLAY mun kynna uppgjör sitt í vefstreymi klukkan 16:15 þann 26. október 2023. Birgir Jónsson, forstjóri, og Ólafur Þór Jóhannesson, fjármálastjóri, kynna uppgjörið. Kynningunni verður streymt hér: https://www.flyplay.com/financial-reports-and-presentations. Fjárhagsdagatal • Fjórði ársfjórðungur og ársreikningur 2023 - 8. febrúar 2024
|