Hagar hf.: Vörusala á 1F jókst um 8,6% og hagnaður nam 653 m.kr. Uppgjör Haga hf. á 1. ársfjórðungi 2023/24 Árshlutareikningur Haga hf. fyrir fyrsta ársfjórðung 2023/24 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 28. júní 2023. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars til 31. maí 2023. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur hvorki verið kannaður né endurskoðaður af endurskoðendum félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf. Helstu lykiltölur - Vörusala 1F nam 41.490 m.kr. (8,6% vöxtur frá 1F 2022/23). [1F 2022/23: 38.213 m.kr.]
- Framlegð 1F nam 8.072 m.kr. (19,5%). [1F 2022/23: 7.564 m.kr. (19,8%)]
- Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 1F nam 2.521 m.kr. eða 6,1% af veltu. [1F 2022/23: 2.668 m.kr. (7,0%)]
- Hagnaður 1F nam 653 m.kr. eða 1,6% af veltu. [1F 2022/23: 926 m.kr. (2,4%)]
- Grunnhagnaður á hlut 1F var 0,59 kr. [1F 2022/23: 0,82 kr.]. Þynntur hagnaður á hlut 1F var 0,58 kr. [1F 2022/23: 0,81 kr.]
- Eigið fé nam 27.751 m.kr. í lok tímabils og eiginfjárhlutfall 37,4%. [Árslok 2022/23: 27.931 m.kr. og 38,8%]
- Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2023/24 gerir ráð fyrir að EBITDA verði 11.000-11.500 m.kr.
Helstu fréttir af starfsemi - Rekstur á fyrsta ársfjórðungi gekk vel, sér í lagi í dag- og sérvöruhluta samstæðunnar. Vörusala jókst um 8,6% milli ára og heildarhagnaður nam 653 m.kr.
- Seldum stykkjum í dagvöruverslunum fjölgar milli ára um 4,5% og heimsóknum viðskiptavina fjölgar auk þess um 11,6% á fjórðungnum. Samdráttur var í seldum eldsneytislítrum á 1F sem nam 1,1%.
- Framlegð í krónum talið eykst um 6,7% milli ára en framlegðarhlutfallið lækkar um 0,3%-stig. Framlegðarhlutfall lækkar bæði í dagvöru- og eldsneytishluta samstæðunnar.
- Áframhaldandi verðhækkana á aðfanga- og vöruverði hefur gætt á fjórðungnum. Reynt hefur verið af fremsta megni að sporna við verðhækkunum og hefur þeim ekki öllum verið fleytt út í vöruverð.
- Ný sjálfsafgreiðslulausn Bónus, Gripið & Greitt, var sett í loftið í Bónus Smáratorgi í lok ársfjórðungs. Lausnin hefur fengið frábærar viðtökur og verður innleidd í áföngum í fleiri verslanir á árinu.
- Bónus opnaði nýja 1.800 m2 matvöruverslun að Norðlingabraut 2 í Norðlingaholti þann 3. júní.
Finnur Oddsson, forstjóri: Starfsemi Haga á fyrsta fjórðungi rekstrarársins 2023/24 gekk heilt yfir vel. Vörusala samstæðu nam 41,5 ma. kr. og jókst um tæp 9% miðað við sama tímabil í fyrra. EBITDA nam 2.521 m.kr. og hagnaður var 653 m.kr. Líkt og undanfarin misseri þá var rekstrarumhverfi smásölu krefjandi, en það hefur einkennst af miklum hækkunum á verði matvöru og almennt hækkandi rekstrarkostnaði. Hvoru tveggja má a.m.k. að hluta rekja til áhrifa stríðs í Úkraínu og eftirstöðva Covid-19 faraldursins. Afkoma samstæðunnar dregst lítillega saman á milli fjórðunga en megin ástæðan liggur í því að starfsemi Olís skilaði lægri afkomu en í fyrra. Tekjur vegna eldsneytissölu námu 12,7 ma. kr. og drógust saman um 8% sem skýrist fyrst og fremst af því að heimsmarkaðsverð olíu lækkaði töluvert á milli ára. Heildarsala eldsneytis í lítrum stóð svo til í stað, áfram sterk á smásölumarkaði og í sölu til stórnotenda, þrátt fyrir að heldur hafi dregið úr umsvifum útgerða vegna minni kvóta. Heildarumsvif hjá Olís voru í samræmi við áætlanir, en lækkun á heimsmarkaðsverði olíu á fjórðungnum leiddi til lægri framlegðar af sölu til stórnotenda. Mikill vöxtur er áfram í sölu verslana og vöruhúsa, en tekjur jukust um 18% á milli fjórðunga. Þessa aukningu má annars vegar rekja til verðbólgu, hækkandi verðs aðfanga frá heildsölum og framleiðendum, sem hefur verið viðvarandi viðfangsefni síðustu misseri. Hins vegar er ánægjulegt að tekjuvöxtur er einnig til kominn vegna aukinna umsvifa í dag- og sérvöruhluta samstæðunnar því seldum stykkjum og heimsóknum viðskiptavina fjölgaði umtalsvert á tímabilinu. Þetta er sérstaklega áberandi í Bónus, en síðustu fjórðunga hefur þeim sem sækja í hagkvæmasta verslunarkostinn á dagvörumarkaði fjölgað umtalsvert. Að sama skapi fjölgaði viðskiptavinum Hagkaups og mikil aukning er í netverslun Eldum rétt þar sem æ fleiri viðskiptavinir sækja í þægindi, hagkvæmni og gæði heimsendra matarpakka í viku hverri. Afkoma af verslunum og vöruhúsum jókst m.v. sama fjórðung í fyrra. Á fjórðungnum náðust áfangar sem hafa það að markmiði að efla þjónustu við viðskiptavini og styrkja starfsemi Haga enn frekar. Ný og rúmgóð verslun Bónus var opnuð í Norðlingaholti í byrjun júní og Hagkaup hélt áfram að bæta við úrval þægilegra, einfaldra og gómsætra lausna, nú með veisluréttum í netsölu og heimsendingu. Olís opnaði nýja og glæsilega þjónustumiðstöð á Fitjum í Reykjanesbæ og fjölgaði Lemon mini útibúum, m.a. á Hellu, Fitjum og Reyðarfirði. Enn er unnið að fjölda stafrænna verkefna sem hafa það að markmiði að tryggja grunnrekstur kerfa og efla þjónustu við viðskiptavini. Á þeim vettvangi kynnti Bónus nýja útfærslu af skönnunarlausn, Gripið & Greitt, við mjög góðar undirtektir, enda mun lausnin bæta upplifun viðskiptavina umtalsvert og gera Högum kleift að sníða þjónustu betur að þeirra þörfum. Við erum sátt með árangur Haga á fyrsta fjórðungi rekstrarársins, sérstaklega í ljósi þess hversu ögrandi rekstrarumhverfi í okkar geira er og hefur verið. Ef litið er fram hjá áhrifum niðursveiflu í heimsmarkaðsverði olíu á fjórðungnum, sem hefur neikvæð áhrif á afkomu Olís, þá er rekstur annarra eininga heldur að styrkjast. Verkefni okkar framundan verður að halda áfram framþróun félagsins á öllum sviðum, en gæta um leið að hagkvæmni í innkaupum og allri starfsemi og leggja þannig okkar af mörkum til að berjast gegn verðhækkunum og verðbólgu. Hagar búa sem fyrr að fjárhagslegum styrk, sterkum rekstrareiningum og frábæru starfsfólki sem hefur það að markmiði að efla hag viðskiptavina með því að gera verslun hagkvæma, þægilega og skemmtilega. Rafrænn kynningarfundur miðvikudaginn 28. júní 2023 Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn í dag, miðvikudaginn 28. júní kl. 16:00, þar sem Finnur Oddsson, forstjóri, og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, munu kynna rekstur og afkomu félagsins ásamt því að svara fyrirspurnum. Tekið verður við spurningum sem tengjast uppgjörinu á meðan á útsendingu stendur á netfangið fjarfestakynning@hagar.is og verður þeim svarað eins og kostur er í lok fundar. Fundinum verður streymt og er skráning á fundinn hér: https://www.hagar.is/skraning Kynningargögn eru hér meðfylgjandi og eru auk þess aðgengileg á heimasíðu Haga, www.hagar.is, við upphaf fundar. Nánari upplýsingar veita Finnur Oddsson, forstjóri félagsins (fo@hagar.is), og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs (geg@hagar.is), í síma 530-5500 eða tölvupósti.
|