Icelandic
Birt: 2022-12-01 14:00:00 CET
Reykjavíkurborg
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Reykjavíkurborg - Árshlutareikningur janúar - september 2022

Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar - september 2022 var afgreiddur í borgarráði í dag, fimmtudaginn 1. desember.

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta Reykjavíkurborgar var jákvæð um 6.777 m.kr. en áætlanir gerðu ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 6.019 m.kr.  Rekstrarniðurstaðan var því 758 m.kr. betri en gert var ráð fyrir.  Betri rekstrarniðurstöðu má einkum rekja til matsbreytinga fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum sem námu 20,5 ma.kr. eða 16 ma.kr. umfram áætlun. Vísitala neysluverðs hækkaði mun meira en áætlað var og mældist verðbólga 7,8% á tímabilinu sem hafði veruleg áhrif á fjármagnsgjöld sem voru 12,1 ma.kr. hærri en áætlað var. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 10.253 m.kr. sem er 4.321 m.kr. lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir. Heildareignir A- og B-hluta samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í lok september 834.386 m.kr., heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 437.749 m.kr. og eigið fé var 396.637 m.kr. en þar af var hlutdeild meðeigenda 14.702 m.kr.  Eiginfjárhlutfallið er nú 47,5% en var 48,5% um síðustu áramót.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 11.084 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 1.632 m.kr. Niðurstaðan var því 9.452 m.kr. lakari en gert var ráð fyrir. Tekjur voru 344 m.kr. undir áætlun en rekstrarútgjöld voru 4.357 m.kr. yfir fjárheimildum. Þá voru nettó fjármagnsgjöld 4.995 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 7.456 m.kr. sem var 4.457 m.kr. lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir.

Heimsfaraldur kórónaveiru sem veldur COVID-19 og staðið hefur frá því í byrjun mars 2020 er nú að mestu liðinn hjá. Í upphafi árs reið yfir bylgja þegar nýtt afbrigði veirunnar náði hámarki í janúar og febrúar og fól í sér tímabundið álag á rekstur, einkum á sviðum skóla- og velferðar. Stríðið í Úkraínu, sem hefur nú staðið frá því í febrúar, hefur auk kórónaveirunnar leitt til skorts á hrávöru og hægt á framleiðslulínum með miklum áhrifum á heimsmarkað og leitt til aukinnar verðbólgu í öllum okkar helstu viðskiptalöndum. Vegna hækkana á húsnæðismarkaði, hárrar verðbólgu og þenslu hér innanlands hefur Seðlabankinn verið í hækkunarferli stýrivaxta sem eru nú 6%. Þessi staða setur svip sinn á uppgjör borgarinnar, bæði rekstrar- og fjármagnsliði.

Reykjavíkurborg hefur brugðist við erfiðri stöðu með samdrætti í fjárfestingum miðað við áætlanir en  gert er ráð fyrir að þær verði 25 ma.kr. í stað 32,4 ma.kr. í árslok. Ný fjárhagsáætlun fyrir árið 2023-2027 gerir jafnframt ráð fyrir samdrætti í fjárfestingum miðað við fyrri áætlanir og hagræðingaraðgerðum til að ná jafnvægi í rekstri og styrkja veltufé frá rekstri. Þá hefur fjármálastefna borgarinnar verið endurskoðuð með hliðsjón af fjárhagslegri stöðu og efnahagslegu ytra umhverfi samhliða framlagningu fjárhagsáætlunar 2023-2027.

Samþykkt hafa verið lög frá Alþingi sem miða að því að gera sveitarfélögunum kleift að takast á við vanda kórónaveirunnar til skemmri og millilangs tíma með tilslökun í fjármálareglum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 fram til ársins 2025, sbr. lög nr. 22/2021.

Reykjavík, 1. desember 2022.

Nánari upplýsingar veitir
Halldóra Káradóttir,
sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs
halldora.karadottir@reykjavik.is

Viðhengi



Arshlutareikningur Reykjavikurborgar januar-september 2022.pdf
Skyrsla fjarmala- og ahttustyringarsvis me arshlutauppgjori Reykjavikurborgar januar-september 2022.pdf