Icelandic
Birt: 2023-01-12 18:16:20 CET
Hagar hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Hagar hf.: Aukin umsvif og nýjar stoðir í rekstri

Uppgjör Haga hf. á 3. ársfjórðungi 2022/23

Árshlutareikningur Haga hf. fyrir þriðja ársfjórðung 2022/23 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 12. janúar 2023. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars til 30. nóvember 2022. Árshlutareikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Reikningurinn hefur hvorki verið kannaður né endurskoðaður af endurskoðendum félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf.


Helstu lykiltölur

 • Vörusala 3F nam 40.220 m.kr. (19,9% vöxtur frá 3F 2021/22). Vörusala 9M nam 121.832 m.kr. (21,3% vöxtur frá 9M 2021/22). [3F 2021/22: 33.551 m.kr., 9M 2021/22: 100.470 m.kr.]
 • Framlegð 3F nam 7.301 m.kr. (18,2%) og 23.248 m.kr. (19,1%) fyrir 9M. [3F 2021/22: 6.916 m.kr. (20,6%), 9M 2021/22: 21.149 m.kr. (21,1%)]
 • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 3F nam 2.598 m.kr. eða 6,5% af veltu. EBITDA 9M nam 9.635 m.kr. eða 7,9% af veltu. [3F 2021/22: 2.535 m.kr. (7,6%), 9M 2021/22: 8.076 m.kr. (8,0%)]
 • Hagnaður 3F nam 910 m.kr. eða 2,3% af veltu. Hagnaður 9M nam 4.214 m.kr. eða 3,5% af veltu. [3F 2021/22: 841 m.kr. (2,5%), 9M 2021/22: 3.277 m.kr. (3,3%)]
 • Grunnhagnaður á hlut 3F var 0,82 kr. og 3,74 kr. fyrir 9M. [3F 2021/22: 0,73 kr., 9M 2021/22: 2,84 kr.]. Þynntur hagnaður á hlut 3F var 0,82 kr. og 3,67 kr. fyrir 9M. [3F 2021/22: 0,73 kr., 9M 2021/22: 2,82 kr.]
 • Eigið fé nam 27.196 m.kr. í lok tímabils og eiginfjárhlutfall 37,8%. [Árslok 2021/22: 26.726 m.kr. og 41,0%]
 • Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2022/23 gerir ráð fyrir að EBITDA verði 10.200-10.700 m.kr., án áhrifa vegna viðskipta með Klasa og endurgreiðslu flutningsjöfnunarsjóðs. Áhrif einskiptisliða á EBITDA félagsins eru um 1,4 ma. kr.


Helstu fréttir af starfsemi

 • Töluverð veltuaukning (19,9%) á ársfjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra og heildarhagnaður eykst um 8,2%, einkum vegna einskiptisliða.
 • Seldum stykkjum í dagvöruverslunum á 3F fjölgar um 7,0% milli ára og heimsóknum viðskiptavina fjölgar um 15,0% í samanburði við fyrra ár. Seldum eldsneytis­lítrum á 3F fækkar um 2,6% - sala til stórnotenda óvenju mikil á sama fjórðungi í fyrra. 
 • Framlegð í krónum talið eykst um 5,6% milli ára en framlegðarhlutfallið lækkar um 2,5%-stig, einkum vegna hærra heimsmarkaðsverðs olíu samanborið við fyrra ár en einnig hefur framlegðarhlutfall dagvöru lækkað.
 • Áframhaldandi hnökra gætir í aðfangakeðjunni og við framleiðslu matvöru með verulegri hækkun á verði aðfanga. Allt kapp lagt á að sporna við hækkandi vöruverði til viðskiptavina og þannig leggja Hagar sitt af mörkum til að halda aftur af verðbólgu.
 • Einskiptisliðir að upphæð 451 m.kr. færðir meðal annarra rekstrartekna á 3F
 • Áhrifa kjarasamninga gætir á fjórðungnum en vegna afturvirk-ni til 1. nóvember var færð gjaldfærsla á tímabilinu.
 • Hagar tóku við rekstri Eldum rétt þann 1. nóvember og gætir áhrifa samrunans því í rekstri og efnahag samstæðunnar frá og með þeim tíma.


Finnur Oddsson, forstjóri:

Á síðustu mánuðum hefur órói á heimsmörkuðum fyrir hrávöru og orku leitt af sér fordæmalausar hækkanir á vöruverði til neytenda og um leið haft mikil áhrif á rekstrarumhverfi í smásölu. Í ljósi þessara aðstæðna, þá má segja að starfsemi Haga á þriðja fjórðungi rekstrarársins 2022/23 hafi gengið ágætlega. Áfram er umtalsverð aukning vörusölu miðað við sama tímabil í fyrra, en tekjur námu 40,2 ma. kr. sem er 20% vöxtur. Afkoma batnaði lítillega, einkum vegna einskiptisliða, en EBITDA nam 2.598 m.kr. og hagnaður 910 m.kr. Á fyrstu 9 mánuðum ársins nam vörusala tæpum 122 ma.kr. og EBITDA hlutfall 7,9%. Við erum sátt með starfsemi félagsins það sem af er ári, bæði niðurstöðu rekstrar við erfiðar aðstæður og að hafa komið í höfn mikilvægum áföngum sem munu styrkja Haga til framtíðar.

Eins og fyrr segir, þá litaðist fjórðungurinn af áframhaldandi róti á hráefnismörkuðum og hafa hækkanir og sveiflur í verði aðfanga því verið eitt mikilvægasta viðfangsefni stjórnenda félagsins. Þar hefur leiðarstefið verið að tryggja vöruúrval og vinna gegn hækkandi vöruverði í verslunum með hagkvæmum innkaupum og með því að leita eftir auknu hagræði í allri starfsemi.

Ef horft er til starfsþátta, þá jukust tekjur Olís um 35% á milli ára, námu 14,3 ma. kr., og afkoma batnaði. Bætta afkomu má fyrst og fremst rekja til einskiptisliða sem féllu til á fjórðungnum, en til grundvallar liggur ávinningur af breyttum áherslum í rekstri og vel heppnaðrar hagræðingarvinnu síðustu missera. Eldsneytissala á smásölumarkaði jókst og þurrvörusala sömuleiðis, en aðeins dró úr umsvifum stórnotenda, enda óvenju mikil umsvif stórnotenda á sama fjórðungi í fyrra. Framlegð hefur heldur lækkað, bæði í krónum og sem hlutfall af veltu, meðal annars vegna óhagfelldra sveiflna á heimsmarksverði olíu. Aðlögun á þjónustu- og vöruframboði eldsneytisstöðva miðar samkvæmt áætlun og einfaldað sölu- og aðfangskipulag gagnvart stórnotendum hefur gefist vel.

Ágætur vöxtur var í sölu á dagvöru í Bónus og Hagkaup, ríflega 13%. Það er ljóst að hækkandi verð aðfanga frá heildsölum og framleiðendum hefur leitt til hærra vöruverðs í verslunum, sem skýrir tekjuvöxt að hluta. Það er hins vegar ánægjulegt að seldum stykkjum fjölgaði um 7% og heimsóknum viðskiptavina í verslanir fjölgaði um 15%. Þennan sterka vöxt í dagvöruverslun má að stærstum hluta rekja til þess að fleiri viðskiptavinir sækja Bónus heim, þar sem lengri opnunartími, gott aðgengi og hagkvæmt vöruverð mælast vel fyrir. Gert er ráð fyrir að svo verði áfram, enda skiptir það æ fleiri máli að gera sem hagkvæmust innkaup á matvöru. Framlegð í krónum hækkaði á fjórðungnum í samræmi við aukna veltu, en framlegðarhlutfall í dagvöru hefur hins vegar heldur lækkað.

Í samræmi við markaða stefnu, þá hefur uppbygging samstæðu Haga tekið nokkrum breytingum á síðustu misserum, með það að markmiði að bregðast við þróun í rekstrarumhverfi félagsins og skjóta um leið fleiri stoðum undir rekstur samstæðunnar. Flestir þættir í því uppbyggingarstarfi eru komnir í höfn eða á góðan rekspöl nú í upphafi árs 2023.  Eldum rétt er formlega orðið meðlimur í Haga fjölskyldunni, sem liður í að bregðast við breyttum neysluvenjum með hollum, einföldum og tímasparandi lausnum. Stór þróunar- og fasteignaverkefni eru komin í góðan farveg hjá Klasa, sem mun flýta fyrir verðmætasköpun og auka fókus stjórnenda Haga á kjarnarekstur á sviði dagvöru- og eldsneytis. Stórkaup var sett á laggirnar, og fer vel af stað, til að nýta innviði Haga enn betur og bjóða rekstrar-, heilbrigðis- og matvöru á ört stækkandi stórnotendamarkaði. Stafræn vegferð Haga hefur svo skilað margvíslegum ávinningi, og m.a. gert Hagkaup kleift að „stækka“ og þjóna viðskiptavinum um allt land enn betur, með nýjum netverslunum með snyrtivörur, leikföng og valdar sérvörur. Þessar breytingar skjóta nú enn fleiri stoðum undir rekstur Haga samstæðunnar og er þess vænst að þær skili rekstrarlegum ávinningi strax á næstu fjórðungum.

Veiking krónu og þær fordæmalausu verðhækkanir sem verið hafa á innlendum og erlendum aðföngum hafa óhjákvæmilega leitt til hærra vöruverðs á nauðsynjum og verðbólga matvöru hefur því aukist. Á sama tíma hefur rekstrarkostnaður aukist töluvert, bæði vegna launahækkana og almennra kostnaðarhækkana. Í þessu ljósi erum við ágætlega sátt við þann árangur sem náðst hefur það sem af er rekstrarárs. Staða Haga á markaði er sterk og fjárhagslega stendur félagið traustum fótum, vel í stakk búið til að takast á við þær óvenjulegu og krefjandi rekstraraðstæður sem nú eru. Styrkur Haga liggur í öflugum dótturfélögum sem hafa á að skipa þaulreyndu starfsfólki sem vinnur af einurð að því markmiði að tryggja vöruframboð, hagkvæm innkaup og rekstur. Starfsfólk Haga mun áfram vinna að því markmiði að efla hag viðskiptavina með því að gera verslun sem hagkvæmasta, en jafnframt þægilega og skemmtilega.


Rafrænn kynningarfundur föstudaginn 13. janúar 2022

Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn föstudaginn 13. janúar kl. 8:30. Fundinum verður varpað í gegnum netið, þar sem Finnur Oddsson, forstjóri, og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, munu kynna rekstur og afkomu félagsins ásamt því að svara fyrirspurnum.

Tekið verður við spurningum sem tengjast uppgjörinu á meðan á útsendingu stendur á netfangið fjarfestakynning@hagar.is og verður þeim svarað eins og kostur er í lok fundar.

Fundinum verður streymt og er skráning á fundinn hér: https://www.hagar.is/skraning

Kynningargögn verða aðgengileg á heimasíðu Haga, www.hagar.is, við upphaf fundar.Frekari upplýsingar um uppgjörið má finna í meðfylgjandi fréttatilkynningu og árshlutareikningi.

Nánari upplýsingar veita Finnur Oddsson, forstjóri félagsins (fo@hagar.is) og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs (geg@hagar.is), í síma 530-5500 eða tölvupósti.

ViðhengiFrettatilkynning Hagar 3F 2022-23.pdf
Hagar Arshlutareikningur 30.11.2022 isl.pdf