Nasdaq Iceland býður Ísfélag hf. velkomið á Aðalmarkaðinn
Reykjavík, föstudagur, 8. desember 2023 -- Nasdaq (Nasdaq:NDAQ) tilkynnir að í dag hefjast viðskipti með hlutabréf Ísfélags hf. (auðkenni: ISF) á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland. Ísfélag tilheyrir Nauðsynjavörugeiranum (e. Consumer Staples) og er 32. félagið sem tekið er til viðskipta á mörkuðum Nasdaq Nordic og Baltics* í ár.
Ísfélag hf. var stofnað árið 1901 og er elsta starfandi hlutafélag landsins. Félagið stundar aðallega veiðar og vinnslu á uppsjávarfiski, bolfiski og rækju auk þess sem dótturfélög þess stunda margþætta tengda starfsemi. Ísfélagið er eitt af stærstu sjávarútvegsfélögum landsins með höfuðstöðvar í Vestmannaeyjum og starfsstöðvar að auki á Siglufirði, í Þorlákshöfn og á Þórshöfn. Félagið er með 8,9% af heildarúthlutuðu aflamarki íslenskra fyrirtækja og er einn stærsti framleiðandi af lýsi og fiskimjöli á Íslandi. Félagið einsetur sér að vera fyrirmynd um ábyrga og arðbæra viðskiptahætti og stunda starfsemi sína í sátt við umhverfi og samfélag. Nánari upplýsingar á vefsíðu félagsins www.isfelag.is
„Skráning Ísfélags á Aðalmarkað Nasdaq Iceland markar mikilvæg tímamót fyrir félagið.”, segir Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins. „Við sjáum fram á vaxtartækifæri í aflaheimildum sem og í gegnum hlutdeildar- og dótturfélög okkar og stefnum á að styrkja samkeppnisstöðu okkar á alþjóðlegum mörkuðum, m.a. með hagræðingu og sérhæfingu í veiðum og vinnslu. Við erum afar ánægð með frábæra niðurstöðu úr útboðinu sem sýnir traust fjárfesta á félaginu og framtíð þess. Við bjóðum nýja hluthafa velkomna og hlökkum til að vinna með þeim.”
"Það er heiður að bjóða elsta starfandi hlutafélag landsins velkomið á Aðalmarkaðinn.", segir Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. "Ísfélagið er rótgróið fyrirtæki með glæsilega sögu og metnaðarfull vaxtarplön. Mikill áhugi fjárfesta á útboði félagsins sýnir trú þeirra á félaginu og áhuga á íslenskum sjávarútvegi, enda stendur sjávarútvegur okkur mjög nærri. Við óskum öllum hjá Ísfélagi innilega til hamingju, skráning á markað styður við sýnileika félagsins og dregur að fjölbreyttari hóp fjárfesta.“
*Aðalmarkaðir og Nasdaq First North Growth Markets hjá Nasdaq Copenhagen, Nasdaq Helsinki, Nasdaq Iceland, Nasdaq Stockholm, Nasdaq Riga, Nasdaq Tallinn og Nasdaq Vilnius.
Um Nasdaq
Nasdaq (Nasdaq: NDAQ) er alþjóðlegt tæknifyrirtæki sem þjónar verðbréfamörkuðum og öðrum atvinnugeirum. Fjölbreytt framboð okkar af markaðsgögnum, greiningarvörum, hugbúnaði og þjónustu gerir viðskiptavinum okkar kleift að láta framtíðarsýn þeirra verða að veruleika. Til að fræðast meira um félagið, tæknilausnir og störf hjá okkur, smellið á LinkedIn, Twitter @Nasdaq eða www.nasdaq.com
Fyrirvari vegna staðhæfinga um framtíðarhorfur
Þau mál sem hér er skýrt frá taka til staðhæfinga um framtíðarhorfur sem gerðar eru samkvæmt svonefndum Safe Harbor ákvæðum í bandarískum verðbréfalögum frá 1995 (Private Securities Litigation Reform Act of 1995). Þessar staðhæfingar taka meðal annars til en takmarkast þó ekki við staðhæfingar um afurðir og þjónustu Nasdaq. Við minnum á að þessar staðhæfingar eru ekki trygging fyrir framtíðarafkomu. Raunveruleg niðurstaða kann að vera allt önnur en sú sem fram kemur berum orðum eða með öðrum hætti í staðhæfingum um framtíðarhorfur. Í staðhæfingum um framtíðarhorfur eru ýmsir áhættu- og óvissuþættir eða aðrir þættir sem Nasdaq hefur ekki stjórn á. Þessir þættir byggjast á en takmarkast þó ekki við þætti sem gerð er grein fyrir í ársskýrslu Nasdaq á svonefndu Form 10-K og árshlutaskýrslum sem sendar eru til bandaríska verðbréfaeftirlitsins. Við tökumst ekki á hendur neinar skuldbindingar um að endurskoða að neinu leyti staðhæfingar um framtíðarhorfur.
Nasdaq Nordic lýsir sameiginlegri þjónustu Nasdaq Copenhagen, Nasdaq Helsinki, Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm.
FJÖLMIÐLASAMSKIPTI Kristín Jóhannsdóttir 868 9836 kristin.johannsdottir@nasdaq.com
|