English Icelandic
Birt: 2024-07-31 19:03:43 CEST
Festi hf.
Árshlutareikningur - 6 mán.

Festi hf.: Afkoma á 2. ársfjórðungi 2024

Helstu niðurstöður

  • Vörusala nam 36.037 millj. kr. samanborið við 34.199 millj. kr. árið áður og jókst um 5,4% milli ára.
  • Framlegð af vöru- og þjónustusölu nam 8.593 millj. kr. og jókst um 837 millj. kr. eða 10,8% á milli ára.
  • Framlegðarstig nam 23,8% og hækkar um 1,1 p.p. frá 2F 2023 og hækkar 2,0 p.p. frá 1F 2024.
  • Laun og starfsmannakostnaður eykst um 6,6% en stöðugildum fjölgar um 4,5% milli ára.
  • EBITDA nam 2.915 millj. kr. samanborið við 2.562 millj. kr. árið áður sem er hækkun um 13,8% milli ára.
  • Hagnaður fjórðungsins nam 953 millj. kr. eða 11,1% af framlegð vörusölu og hækkar um 29,1% á milli ára.
  • Handbært fé frá rekstri nam 3.063 millj. kr. eða 35,6% af framlegð, samanborið við 2.859 millj. kr. árið áður.
  • Eigið fé nam 36.105 millj. kr. og er eiginfjárhlutfallið 37,2% í lok 2F 2024.
  • Lyfja kemur inn í samstæðuna frá 1. júlí og er EBITDA spá félagsins fyrir árið 2024 hækkuð um 800 millj. kr. og er 12.300 – 12.700 millj. kr.


Ásta S. Fjeldsted, forstjóri:

Rekstur ársfjórðungsins gekk samkvæmt áætlun

  • Rekstur félagsins gekk vel á öðrum ársfjórðungi og var niðurstaðan í samræmi við áætlanir félagsins. Framlegðarstig styrktist hjá öllum félögum samstæðunnar og hækkar um 1,1 p.p. milli ára. Aðhald með birgjum, aukinn eiginn innflutningur og árangur í minnkun á rýrnun á kostnaðarhliðinni er fyrst og fremst að skila þessum árangri eins og nýleg verðlagskönnun ASÍ sýnir vel fyrir dagvörumarkaðinn. Þá fjölgaði heimsóknum í verslanir og var góð magnaukning í sölu flestra vöruflokka milli ára.
  • Rekstrarhagnaður félagsins (EBITDA) nam 2.915 millj. kr. (2F2023: 2.562 millj.kr) sem er 13,8% hækkun milli ára. Hagnaður annars ársfjórðungs nam 953 millj. kr. sem er hækkun um 215 millj. kr. milli ára. Horfur fyrir seinni helming ársins eru góðar. Lyfja kemur inn í samstæðuna frá 1. júlí og er  EBITDA spá félagsins fyrir árið 2024 hækkuð um 800 millj. kr. og er: 12.300-12.700 millj.kr.

Helstu verkefnin á fjórðungnum og fram undan:

  • Sannkölluð tímamót voru fyrir samstæðu Festi þegar kaupin á Lyfju gengu í gegn þann 10. júlí sl.  Kaupverð hlutafjár nam 7.117 millj.kr. og var greiðslan annars vegar með reiðufé að fjárhæð 5.077 millj. kr. og hins vegar í afhendingu 10. millj. hluta í Festi að markaðsvirði kr. 2.040 millj. kr. miðað við dagslokagengið 204 á Nasdaq Iceland þann 10. júlí 2024.
  • Mikil tækifæri felast í kaupunum til samvinnu, samlegðar, aukinnar hagkvæmni og vaxtar þvert á félögin. Næstu vikur og mánuðir fara í að samstilla félögin og ná tökum á rekstri kerfa, samtvinna starfsemi þar sem við á og tryggja að Lyfja nái enn meiri árangri með allt það öfluga starfsfólk sem þar starfar. App- og netsala ásamt vel staðsettum þjónustustöðvum og verslunum okkar um land allt mun gegna hér lykilhlutverki.
  • Ný og endurgerð Króna í Grafarholti opnaði 11. júlí sl. og hafa viðtökurnar verið frábærar frá fyrsta degi. Krónan á Bíldshöfða mun fá svipaða yfirhalningu á þriðja ársfjórðungi og mun opna endurnýjuð fyrir lok október.
  • Sókn Krónunnar út á land hefur verið afar vel tekið en Snjallverslun Krónunnar hóf að þjónusta Austurland á ársfjórðungnum. Velta Snjallverslunar heilt yfir jókst um 35% milli ára.
  • Framkvæmdir eru hafnar á flaggskipi ELKO, raftækjaverslun okkar í Lindum, sem mun veita enn betra aðgengi að upplifun nýrrar og skemmtilegrar tækni fyrir viðskiptavini okkar. Formleg opnun er áætluð í október.
  • Ýmir Örn Finnbogason lét af störfum sem framkvæmastjóri N1 í lok júní og verður starfið auglýst til umsóknar með haustinu.
  • Fyrsta sjálfvirka bílaþvottastöðin af sjö sem settar verða upp í ár opnaði í Mosfellsbæ í júlí. Næstu stöðvar opna í ágúst og september.
  • 20 Tesla hraðhleðslustöðvar verða klárar í Reykjanesbæ við þjónustustöð N1 á Flugvöllum í ágúst. N1 hefur uppfært hraðhleðslustöðvar á Hvolsvelli, Blönduósi og í Skógarlind og framkvæmdir Tesla eru að hefjast við þjónustustöðvar N1 á Blönduósi og við Staðarskála.

Fram undan er spennandi tími með Lyfju innanborðs. Áhersla verður áfram lögð á að bæta tekjuvöxt, halda framlegð og vinna áfram í verkefnum tengdum lækkun alls einingakostnaðar.

Viðhengi



Festi hf - Afkomutilkynning 2F 2024.pdf
Festi hf - Consolidated Statements for 2024 Q2.pdf