Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar janúar - júní 2023Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar janúar – júní 2023 var lagður fyrir borgarráð í dag 7. september. Rekstrarniðurstaða samantekins árshlutareiknings Reykjavíkurborgar, A- og B-hluta, var neikvæð um 6,7 ma.kr. en áætlun gerði ráð fyrir að reksturinn yrði jákvæður um 6 ma.kr. sem var 12,8 ma.kr. lakari niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir. Helstu frávik frá áætlun má rekja til fjármagnsliðar eða 9 ma.kr. Skýrist það af hærri verðbólgu á tímabilinu en áætlun gerði ráð fyrir, lækkunar álverðs og minni matsbreytinga fjárfestingaeigna Félagsbústaða. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA), skilaði 23,1 ma.kr. í afgang sem var um 2 ma.kr. undir áætlun en var 4 ma.kr. betri niðurstaða en á fyrsta árshluta ársins 2022. Heildareignir A- og B-hluta samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi 30. júní 2023 námu samtals 893,4 ma.kr. og heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 478,9 ma.kr. Eiginfjárhlutfall A- og B-hluta er í lok tímabils 46,4% en var 48,7% um síðustu áramót. Veltufé frá rekstri hjá A- og B-hluta nam 16,5 ma.kr. á tímabilinu eða 13,5% af tekjum. Fjárfestingar að frádregnum seldum eignum námu 22,4 ma.kr. Greidd gatnagerðagjöld og seldur byggingarréttur nam 2,4 ma.kr. Lántaka og ný stofnframlög námu 30,4 ma.kr., og afborganir lána og leiguskulda námu 16,9 ma.kr. Handbært fé í lok tímabils var 33,3 ma.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 921 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 857 m.kr. Niðurstaðan var því 1,8 ma.kr. lakari en gert var ráð fyrir. Skatttekjur voru ásamt öðrum tekjum 4,5 ma.kr. yfir áætlun. Frávik í rekstrargjöldum voru 5,1 ma.kr. yfir áætlun, þar af var frávik í rekstri skóla- og frístundasviðs 2,3 ma.kr. og breyting lífeyrisskuldbindingar 1,0 ma.kr. Fjármagnskostnaður var 1,1 ma.kr. yfir áætlun einkum vegna hærri verðbólgu en gert var ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 34 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 609 m.kr. Niðurstaðan fyrir fjármagnsliði var því 643 m.kr. lakari en áætlun gerði ráð fyrir. Heildareignir A-hluta samkvæmt efnahagsreikningi 30. júní 2023 námu samtals 275,8 ma.kr. og heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 194,2 ma.kr. Eigið fé nam 81,7 ma.kr. og eiginfjárhlutfall nam 29,6%. Veltufé frá rekstri var jákvætt um 6,8 ma.kr. og var um 931 m.kr. betra en áætlað var á tímabilinu. Heildarfjárfestingar námu 10 ma.kr. en samanlögð gatnagerðagjöld og tekjur af byggingarétti námu 2,4 ma.kr. Lántaka tímabilsins nam 14,8 ma.kr. Afborganir lána og leiguskulda námu 2,9 ma.kr. Handbært fé í lok tímabils nam 20 ma.kr. Með 13. gr. laga nr. 25/2020 og 2. gr. laga nr. 22/2021 hefur Alþingi vikið til hliðar fjármálareglum sveitarfélaga skv. ákvæði 64. gr. sveitarstjórnarlaga til loka árs 2025. Var það gert til að liðka fyrir möguleikum sveitarfélaganna að grípa til viðspyrnu og sóknar í stað samdráttaraðgerða vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, sem heldur utan um rekstur fagsviða og Eignasjóð. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf., Jafnlaunastofa sf. og Þjóðarleikvangs ehf. Reykjavík, 7. september 2023. Nánari upplýsingar veitir Halldóra Káradóttir sviðsstjóri fjármála- og áhættustýringarsviðs halldora.karadottir@reykjavik.is
|