Tilkynnt var um kaupréttaráætlun Arion banka hf. þann 9. febrúar 2021. Á aðalfundi Arion banka hf. þann 16. mars 2021 var stjórn bankans veitt heimild til að gera breytingu á gildandi kaupréttaráætlun í samræmi við breytingar á ákvæði 10. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Með breytingunum var árlegt hámark kaupa hvers starfsmanns hækkað úr kr. 600.000 í kr. 1.500.000. Kaupréttur samkvæmt áætluninni nær til allra fastráðinna starfsmanna bankans og er markmið áætlunarinnar að samþætta hagsmuni starfsfólks við langtímahagsmuni bankans.
Samkvæmt uppfærðri kaupréttaráætlun öðlast hver starfsmaður rétt til þess að kaupa hlutabréf í bankanum, fyrir að hámarki kr. 1.500.000, fyrst árið 2023 og síðast árið 2026. Nú hefur verið gengið frá kaupréttarsamningum við fastráðið starfsfólk bankans í samræmi við uppfærða kaupréttaáætlun. Starfsmenn, sem þegar voru þátttakendur í kaupréttaráætlun bankans, undirrituðu samninga sem veita þeim rétt til kaupa á hlutum fyrir allt að kr. 900.000 árlega og aðrir starfsmenn fyrir allt að kr. 1.500.000. Kaupverð hluta samkvæmt ofangreindum samningum er vegið meðalverð í viðskiptum með hlutabréf félagsins tíu viðskiptadaga fyrir samningsdag, sem er 10. febrúar 2022, eða 181,7 krónur hver hlutur.
Alls gerðu 669 starfsmenn kaupréttarsamning í febrúar 2022 sem ná til allt að 3.756.192 hluta á ári miðað við 100% nýtingu kauprétta.
Breyting á kaupréttaráætlun bankans var staðfest af ríkisskattstjóra 14. desember 2021. Staðfestingin er meðfylgjandi.