Hagnaður Arion banka nam 4.863 m.kr. á þriðja ársfjórðungi og 20.393 m.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins. Arðsemi eiginfjár var 10,5% á þriðja ársfjórðungi og 14,8% á fyrstu níu mánuðum ársins.
Heildareignir námu 1.428 mö.kr. í lok september, samanborið við 1.314 ma.kr. í árslok 2021. Lán til viðskiptavina jukust um 11,6% frá áramótum. Aukningin frá áramótum var 15,6% í lánum til fyrirtækja og 8,5% í lánum til einstaklinga. Heildar eigið fé nam 186 mö.kr. í lok september. Eigið fé lækkaði frá áramótum vegna arðgreiðslu og endurkaupa á hlutabréfum bankans, samtals að fjárhæð 28,9 ma.kr., en afkoma tímabilsins kemur til hækkunar á eigin fé.
Eiginfjárhlutfall bankans (CAR hlutfall) var 23,1% í lok september og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 19,3%. Hlutföllin taka tillit til óendurskoðaðs hagnaðar fjórðungsins að teknu tilliti til væntrar arðgreiðslu, sem nemur 50% af hagnaði í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans, og fyrirhugaðra endurkaupa eigin bréfa að fjárhæð 2,8 milljarða króna. Eiginfjárhlutfall samkvæmt reglum Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands var 22,8% í lok september og hlutfall eiginfjárþáttar 1 19,0%. Eiginfjárhlutfall og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 eru vel umfram kröfur sem settar eru fram í lögum og af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka
„Við erum nokkuð sátt við afkomu bankans á þriðja ársfjórðungi. Kjarnatekjur aukast um 19% á milli ára og þróunin er almennt mjög jákvæð í okkar starfsemi. Neikvæð þróun á verðbréfamörkuðum undanfarna mánuði hefur hins vegar áhrif á fjármunatekjur samstæðunnar á fjórðungnum. Eiginfjárstaða bankans er áfram mjög góð og í gangi er endurkaupaáætlun upp á 5 milljarða króna og fyrir liggur samþykki eftirlitsaðila fyrir 5 milljarða endurkaupum til viðbótar. Í stuttu máli má segja að við séum á góðri leið með að ná fjárhagslegum markmiðum okkar fyrir þetta ár.
Markaðsviðskipti og eignastýring bankans ganga vel þrátt fyrir ólgusjó á mörkuðum og þegar að kemur að veltu í kauphöll, Nasdaq Iceland, þá er miðlun Arion banka með hæstu markaðshlutdeild á fyrstu níu mánuðum ársins bæði þegar kemur að hlutabréfum og skuldabréfum.
Fjármögnunarstaða bankans er góð eftir að hafa í septembermánuði sótt 300 milljónir evra á lánsfjármörkuðum. Þá upphæð nýttum við að nokkru leyti til að greiða upp lán sem voru á gjalddaga á næsta ári. Þetta felur í sér að uppgreiðsluþörf bankans út næsta ár er óveruleg. Þá er lausafjárstaða bankans einnig mjög sterk og gefur okkur færi á að nýta þau tækifæri sem upp kunna að koma varðandi þróun eign fjár og efnahags bankans.
Ísland er um margt í ágætri stöðu þessi misserin, sérstaklega ef við berum okkur saman við okkar helstu nágrannalönd. Vegna innrásar Rússlands í Úkraínu glíma mörg þeirra við háa verðbólgu, ekki síst vegna hækkandi orkuverðs. Við hins vegar höfum okkar jarðvarma og vatnsafl og erum því sjálfbær í þeim efnum sem reynist okkur afar vel nú. Til viðbótar við lægri verðbólgu þá er margt jákvætt í okkar umhverfi og er til að mynda gert ráð fyrir góðum hagvexti á árinu og lágu atvinnuleysi. Við getum því leyft okkur að vera nokkuð bjartsýn á okkar umhverfi fyrir komandi vetur.“
Fundur / vefstreymi fyrir markaðsaðila 27. október klukkan 8:30
Fundur / vefstreymi fyrir markaðsaðila verður fimmtudaginn 27. október klukkan 8:30 í Borgartúni 19 þar sem Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka og Ólafur Hrafn Höskuldsson framkvæmdastjóri fjármálasviðs munu kynna afkomu bankans og Erna Björg Sverrisdóttir aðalhagfræðingur Arion banka mun fara yfir stöðu efnahagslífsins. Fundurinn fer fram á ensku.
Hægt verður að nálgast streymið beint á financialhearings.com og á fjárfestatengslavef bankans.
Þátttakendur geta spurt spurninga á meðan fundi stendur í gegnum spjallþráð sem birtist fyrir neðan vefstreymið. Spurningum verður svarað að loknum kynningum.
Fjárhagsdagatal
Fjárhagsdagatal Arion banka er aðgengilegt á heimasíðu bankans.
Vinsamlegast beinið fyrirspurnum til:
Theodórs Friðbertssonar, forstöðumanns fjárfestatengsla Arion banka, ir@arionbanki.is, s. 856 6760 eða Haraldar Guðna Eiðssonar, forstöðumanns samskiptasviðs, haraldur.eidsson@arionbanki.is, s. 856 7108.
Þessar upplýsingar eru birtar í samræmi við upplýsingaskyldu Arion banka hf. skv. reglugerð Evrópusambandsins um markaðssvik (MAR), þann 2022-10-26 16:16 GMT.
Fyrirvari
Tilkynning þessi inniheldur framtíðarsýn sem endurspeglar núverandi viðhorf stjórnenda um framtíðina og mögulegan fjárhagslegan árangur. Upplýsingarnar eru byggðar á gögnum félagsins, sem fyrir liggja, þegar tilkynningin er birt. Þó Arion banki telji að gefnar væntingar séu raunhæfar er enga vissu hægt að gefa fyrir því að þær gangi eftir. Af þeim sökum getur endanleg niðurstaða orðið umtalsvert frábrugðin umræddum væntingum. Þeir þættir sem mikilvægastir eru og gætu valdið annarri útkomu hjá Arion banka eru meðal annars eftirfarandi: a) þróun efnahagsumhverfis, b) þróun verðbólgu, vaxta og gjaldmiðla, c) þróun samkeppnisumhverfis og d) breytingar á regluverki og aðrar aðgerðir stjórnvalda. Þessir þættir eru alls ekki tæmandi taldir. Tilkynning þessi gefur ekki til kynna að Arion banki hyggist eða hafi breytt sinni framtíðarsýn á neinn hátt, umfram það sem þegar liggur fyrir um breytingar á lögum eða gildandi kauphallarreglum, ef og þegar aðstæður koma upp sem kalla á breytingar frá þeim tíma er tilkynning þessi var birt. Arion banki ber ekki í neinum tilvikum ábyrgð á tjóni sem kann að hljótast af notkun upplýsinga í tilkynningu þessari. Óheimilt er að afrita, breyta, endurbirta eða dreifa upplýsingum í tilkynningunni án skriflegs samþykkis Arion banka.