Þann 1. júlí 2021 var tilkynnt um kaup Rapyd á Valitor, sem gerð voru með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Jafnframt var í tilkynningu þann 31. desember 2021 upplýst að samkomulag félaganna um kaupin hefði verið framlengt til 1. maí 2022, þar sem niðurstaða rannsóknar Samkeppniseftirlitsins lá ekki fyrir í árslok.
Þar sem fyrirvarar í samningi um kaup Rapyd á Valitor eru enn ekki uppfylltir hafa samningsaðilar samþykkt að framlengja samninginn til 1. júní 2022.
Samkvæmt upphaflegum samningi nam kaupverð Rapyd á Valitor 100 milljónum Bandaríkjadala eða tæpum 13 milljörðum króna. Vegna þeirra tafa sem orðið hafa á lúkningu viðskiptanna hefur Rapyd greitt Arion banka viðbótargreiðslu að fjárhæð 10 milljónir Bandaríkjadala eða um 1,3 milljarða króna. Að auki mun Rapyd greiða Arion banka 10% vexti á ársgrundvelli af upphaflegu kaupverði frá 1. apríl 2022 og fram til uppgjörs viðskiptanna. Væntur hagnaður sölunnar, að frádregnum sölukostnaði, hækkar sem því nemur og er áætlaður um 5 milljarðar króna, miðað við gengi dagsins.