English Icelandic
Birt: 2023-02-14 16:38:00 CET
Síminn hf.
Ársreikningur

Síminn hf. - Viðburðaríkt ár að baki

Helstu niðurstöður úr rekstri á 4F 2022

  • Tekjur á fjórða ársfjórðungi (4F) 2022 námu 6.233 m.kr. samanborið við 6.464 m.kr. á sama tímabili 2021. Samdráttur í tekjum má rekja til vörusölu búnaðar sem dróst saman um fjórðung og sölu á fjarskiptabúnaði til Mílu árið 2021. Sé horft til kjarnavara félagsins er tekjuvöxtur 4,2%.
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 1.633 m.kr. á 4F 2022 og hækkar því um 350 m.kr. eða 27,3%. EBITDA hlutfallið er 26,2% fyrir 4F 2022 en var 19,8% á sama tímabili 2021. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 703 m.kr. á 4F 2022 samanborið við 373 m.kr. á sama tímabili 2021. Án niðurfellingar stjórnvaldssektar að fjárhæð 200 m.kr. er EBITDA á 4F 2022 1.433 m.kr. (23,0%) og EBIT 503 m.kr. (8,1%).
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 389 m.kr. á 4F 2022 en námu 13 m.kr. á sama tímabili 2021. Fjármagnsgjöld námu 223 m.kr., fjármunatekjur voru 361 m.kr. og gengistap nam 145 m.kr. Undir fjármagnsliðnum er nú færð neikvæð gangvirðisbreyting skuldabréfs vegna sölu Mílu sem nemur 382 m.kr.
  • Hagnaður á 4F 2022 nam 670 m.kr. að teknu tilliti til aflagðrar starfsemi. Hagnaður af áframhaldandi starfsemi á 4F 2022 nam 381 m.kr. samanborið við 310 m.kr. á sama tímabili 2021.
  • Vaxtaberandi skuldir samstæðu að leiguskuldbindingum meðtöldum námu 8,9 ma.kr. í árslok 2022, en voru 8,3 ma.kr. í árslok 2021. Handbært fé í árslok 2022 nam 3,7 ma.kr., en var 3,5 ma.kr. í árslok 2021. Staða útlána hjá Símanum Pay var 1,7 ma.kr. í árslok 2022, en var 1,2 ma.kr. í árslok 2021
  • Eiginfjárhlutfall Símans var 68,9% í árslok 2022 og eigið fé 35,3 ma.kr.

Orri Hauksson, forstjóri:

„Árið 2022 var eitt viðburðaríkasta árið í sögu Símans, sem í haust spannar 117 ár. Má segja að hver stórviðburðurinn hafi rekið annan allt til ársloka. Eitt það ánægjulegasta fyrir hluthafa var rekstrarafkoman síðustu mánuði ársins, sem leiddi til þess að niðurstaða ársins var sú besta í rekstrarsögu félagsins, þótt horft sé fram hjá hagnaði af sölu Mílu.

Við erum afar stolt af þessum árangri enda var margt sem keppti um athygli starfsmanna og stjórnenda á árinu. Má þar nefna skipulagsbreytingar, mannabreytingar og nýjar vörur sem kynntar voru til leiks. Við jukum fjölbreytileika í hópi stjórnenda og bjuggum fyrirtækið undir nýja framtíð með því að stytta boðleiðir innan þess. Títtnefnt söluferli Mílu var auk þess afar fyrirferðarmikið og reyndist langvinnt fram úr hófi. Í því ferli fluttust yfir 10 milljarðar króna frá íslenskum hluthöfum Símans til fjárfesta á meginlandi Evrópu.

Hitt er jákvætt, að viðskiptin hlutu á endanum samþykki samkeppnisyfirvalda og að sölunni lokinni stendur Síminn sem sterkt eignalétt þjónustufélag. Við teljum okkur nú geta sinnt kröfuhörðum viðskiptavinum félagsins til framtíðar af aukinni lipurð og hagkvæmni. Nú þegar Síminn á Mílu ekki lengur treystum við því að eftirlitsaðilar aflétti þungum opinberum kvöðum svo félagið öðlist langþráð athafnafrelsi til að keppa á markaði á jafnréttisgrundvelli, neytendum til heilla.

Eftir að samningar um sölu Mílu tókust upphaflega í október 2021 ákvað stjórn félagsins að stjórnendur skyldu kanna hvort félagið gæti nýtt það fé, sem vænta mátti úr sölunni, að hluta eða öllu leyti í arðbærari verkefni en þau sem hluthafar Símans gætu með góðu móti fundið á eigin spýtur. Í ljós kom að mögulegar fjárfestingar Símans á Íslandi verða ekki af þeirri stærðargráðu að þörf sé á söluverðmæti Mílu. Þá kom í ljós að hluthafar Símans telja almennt ekki að hið skráða rekstrarfélag Síminn hf. eigi að varðveita á eigin bókum háar upphæðir til að leita að verkefnum fyrir Símann utan Íslands.

Verkefni stjórnenda varð því að koma söluverðmæti Mílu í hendur hluthafa á fumlausan hátt. Þannig var hlutafé fært niður og greitt til hluthafa að upphæð 31,5 milljarðar króna í nóvember síðastliðnum og verður gert á ný í lok mars að upphæð 15,7 milljarðar króna, fallist aðalfundur á tillögur stjórnar. Síðari greiðsluna varð gerlegt að inna af hendi í formi reiðufjár eftir að seljendalán vegna sölu Mílu var selt. Mikill meirihluti hlutafjár Símans er í eigu íslenskra lífeyrissjóða og njóta því allir landsmenn góðs af þessum ríkulegu greiðslum til hluthafa. Skapist í framtíðinni fjárfestingatækifæri fyrir Símann af slíkri stærðargráðu, að þau útheimti á ný aukna fjármögnun til handa félaginu, mun samtalið snúast við og stjórn og stjórnendur munu þá óska eftir nýju hlutafé frá hluthöfum.

Nokkur atriði þróuðust gegn hagsmunum Símans í lok síðasta árs. Þannig lækkaði gengi íslensku krónunnar, sem hækkaði umtalsverðan hluta aðfanga Símans í krónum talið. Kjarasamningarnir sem Samtök atvinnulífsins náðu við flest verkalýðsfélög í landinu voru fagnaðarefni í sjálfu sér, en reyndust heldur dýrari en búist hafði verið við. Afturvirkni samninganna jók einnig launakostnað ársins 2022 umfram væntingar.

Margir góðir áfangar náðust í rekstrinum. Þannig má nefna að bandaríski sjónvarpsrisinn HBO valdi Símann í lok árs til að miðla gæðaefni sínu til Íslendinga næstu misseri. Bætir það með markvissum hætti sjónvarpsþjónustu Símans til handa viðskiptavinum sínum. Yfirvöld hafa einnig sett fram langtímaáætlanir um 5G tíðnileyfi. Því ber að fagna, þar sem Síminn getur nú með birgjum sínum, Mílu og Ericsson, hannað örugga 5G þjónustu sína til langrar framtíðar um land allt. Í lok síðasta árs tók Síminn einnig nýtt skref inn í heim fjártækni og stafrænnar lánaþjónustu til landsmanna, með útgáfu veltukorts í farsíma. Viðtökurnar hafa verið umfram væntingar og ánægjulegt að geta boðið lántakendum upp á sveigjanlega kosti. Fleiri spennandi nýjungar eru á leiðinni.

Síminn fjárfesti umtalsvert í uppfærslu innri kerfa og sjónvarpsefni á síðasta ári. Fjárfestingar félagsins fara nú lækkandi, verða þó áfram umtalsverðar í ár en úr þeim dregur hratt í kjölfarið. Í heild leiðir öll framangreind þróun til þess að starfsmenn og stjórnendur Símans horfa björtum augum til framtíðar.“


Kynningarfundur 15. febrúar 2023

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins verður haldinn miðvikudaginn 15. febrúar 2023 kl. 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 25, Reykjavík. Hluthafar, fjárfestar og markaðsaðilar eru sérstaklega boðnir velkomnir á fundinn. Á fundinum munu Orri Hauksson forstjóri og Óskar Hauksson fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins og svara fyrirspurnum. Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast í fréttakerfi Nasdaq Iceland og á heimasíðu Símans https://www.siminn.is/fjarfestar/uppgjor-og-arsskyrslur.

Jafnframt verður hægt að fylgjast með fundinum í netstreymi á vefslóðinni:https://www.siminn.is/fjarfestakynning.

Þeir sem vilja bera upp spurningar geta sent þær á fjarfestatengsl@siminn.is og verður þeim svarað í lok fundarins.


Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:

Orri Hauksson, forstjóri Símans (orri@siminn.is)
Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans (oskarh@siminn.is)

Viðhengi254900X9GQZM6UGXYF10-2022-12-31-is.zip
254900X9GQZM6UGXYF10-2022-12-31-is.zip-viewer.html
Siminn hf. - Arsreikningur samstu 2022.pdf
Siminn hf. - Fjarfestakynning 4F 2022.pdf
Siminn hf - Afkomutilkynning 4F 2022.pdf