Hagnaður Arion banka nam 7.091 m.kr. á öðrum ársfjórðungi 2023 og 13.382 m.kr. á fyrri helmingi ársins. Arðsemi eiginfjár var 15,5% á ársfjórðungnum og 14,5% á fyrri helmingi ársins.
Heildareignir námu 1.518 mö.kr. í lok júní, samanborið við 1.466 ma.kr. í árslok 2022. Lán til viðskiptavina jukust um 4,6% frá áramótum. Aukningin nam 7,9% í lánum til fyrirtækja og 1,8% í lánum til einstaklinga, aðallega íbúðalán. Aukning í innlánum frá viðskiptavinum var 3,4% á fyrri helmingi ársins, einkum frá einstaklingum og stærri fyrirtækjum. Heildar eigið fé nam 186 mö.kr. í lok júní. Eigið fé lækkaði frá áramótum vegna arðgreiðslu og endurkaupa á hlutabréfum bankans, samtals að fjárhæð 15,6 ma.kr., en afkoma fjórðungsins kemur til hækkunar á eigin fé.
Eiginfjárhlutfall bankans (CAR hlutfall) var 23,9% í lok júní og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 18,9%. Hlutföllin taka tillit til væntrar arðgreiðslu sem nemur 50% af hagnaði í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans. Eiginfjárhlutfall og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 eru vel umfram kröfur sem settar eru fram í lögum og af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka
„Uppgjör Arion banka á öðrum ársfjórðungi er í takt við okkar væntingar og þann stöðuleika sem hefur einkennt afkomu bankans síðustu misseri. Áfram er arðsemi fjórðungsins umfram 13% markmið bankans og öll helstu fjárhagsmarkmið náðust. Við sjáum þó að það hægir almennt á vexti sem kemur ekki á óvart þar sem hægt hefur á vexti í íslensku efnahagslífi. Það eru ýmis jákvæð merki í efnahagslífinu um þessar mundir, m.a. fer verðbólgan loks lækkandi og svo hafa alþjóðlegu matsfyrirtækin S&P Global Ratings og Moody‘s bæði nýverið breytt horfum um lánshæfi ríkissjóðs úr stöðugum í jákvæðar.
Í júní tilkynnti fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands niðurstöðu árlegs mats á áhættuþáttum í starfsemi Arion banka og fól niðurstaðan í sér að viðbótareiginfjárkrafa fjármálaeftirlitsins lækkaði um 1,4 prósentustig. Þetta er jákvæð niðurstaða og við lok annars ársfjórðungs nam hlutfall eiginfjárþáttar 1 hjá bankanum 18,9%, sem er 4 prósentustigum yfir lögbundnum kröfum. Að sama skapi er lausafjár- og fjármögnunarstaða Arion banka áfram sterk.
Samstarf bankans og Varðar heldur áfram að skila góðum árangri og jukust tryggingaiðgjöld á öðrum ársfjórðungi hjá Verði um 14,4% samanborið við sama fjórðung síðasta árs. Mestur er vöxturinn í sölu trygginga til fyrirtækja sem er afrakstur þess að fyrirtækjaþjónusta Varðar er nú hluti af fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði Arion banka. Í þessari þróun felst að tekjugrunnur Varðar hefur breikkað og áhættudreifing aukist.
Það bárust jákvæðar fréttir fyrr í þessum mánuði þegar tilkynnt var um kaup danska félagsins Coloplast á vestfirska sprotafyrirtækinu Kerecis. Óhætt er að segja að Kerecis sé frábært dæmi um vel heppnaða nýsköpun hér á landi þar sem hráefni sem áður var hent er breytt í dýrmæta lækningavöru. Það er mikilvægt að við höldum áfram að búa vel að nýsköpun hér á landi þar sem hugverkaiðnaðurinn er nú fjórða stoðin í útflutningstekjum þjóðarinnar. Hlutverk banka er að taka áhættu með sínum viðskiptavinum, einstaklingum og fyrirtækjum, og það gerum við á hverjum degi. Það er ánægjulegt að hafa verið þó ekki nema lítill þátttakandi í vegferð Kerecis og mun bankinn færa til tekna um 560 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi vegna sölu félagsins. Fleiri íslensk sprotafyrirtæki eru að gera spennandi hluti í dag, til að mynda félög eins og Controlant og Amaroq Minerals sem við höfum unnið náið með síðustu ár og verður spennandi að fylgjast með þróun þeirra á næstu árum. Jafnframt hafa rótgróin fyrirtæki sem sinna nýsköpun með markvissum hætti í sinni starfsemi verið að ná góðum árangri og má þar til dæmis nefna Hampiðjuna, en Arion banki hafði nýverið umsjón með vel heppnuðu almennu hlutafjárútboði félagsins sem í kjölfarið snéri aftur á Aðalmarkað kauphallarinnar.
Á verðbólgutímum hefur reynst erfitt að ávaxta sparnað þannig að hann haldi í við verðbólgu án þess að festa sparnaðinn í þrjú ár. Þetta breyttist í maí þegar Arion banki kynnti nýja verðtryggða sparnaðarleið fyrir einstaklinga sem er aðeins bundin í 90 daga. Breytingar á lögum sem tóku gildi 1. júní, og fólu í sér að verðtryggð innlán þurfa ekki lengur að vera bundin í þrjú ár, gerðu þetta kleift. Þetta er auðvitað jákvæð breyting fyrir neytendur og tóku viðskiptavinir okkar þessari nýju sparnaðarleið fagnandi.
Í júní kynnti Mosfellsbær tillögur að rammahluta aðalskipulags Blikastaðalandsins, sem er stærsta óbyggða landsvæði höfuðborgarsvæðisins og er í eigu Arion banka. Landið sem er um 93 hektarar verður þróað enn frekar og deiliskipulag kynnt á seinni stigum. Gert er ráð fyrir að þar muni rísa um 3.700 íbúðir, blanda fjölbýlis og sérbýlis, auk 150 íbúða fyrir 55 ára og eldri, skóla, íþróttaaðstöðu og atvinnuhúsnæðis. Í ljósi þessa mikilvæga áfanga hjá Mosfellsbæ og þar með minni óvissu varðandi þróun verkefnisins hækkaði bankinn verðmat sitt á landinu sem hafði jákvæð áhrif á niðurstöðu ársfjórðungsins. Verður spennandi að fylgjast með uppbyggingu svæðisins enda mikilvæg viðbót við húsnæðismarkaðinn.“
Fundur/vefstreymi fyrir markaðsaðila 27. júlí klukkan 8:30
Fjárfestafundur fyrir markaðsaðila verður fimmtudaginn 27. júlí klukkan 8:30 í Borgartúni 19 þar sem Benedikt Gíslason bankastjóri Arion banka og Ólafur Hrafn Höskuldsson framkvæmdastjóri fjármálasviðs munu kynna afkomu bankans og fara yfir stöðu efnahagslífsins. Fundurinn fer fram á ensku og verður einnig streymt beint.
Hægt verður að nálgast streymið á financialhearings og á fjárfestatengslavef bankans.
Þátttakendur sem fylgjast með rafrænt geta spurt spurninga á meðan á fundi stendur í gegnum spjallþráð sem birtist fyrir neðan vefstreymið. Spurningum verður svarað að loknum kynningum.
Vinsamlegast beinið fyrirspurnum til Theodórs Friðbertssonar, forstöðumanns fjárfestatengsla í síma 856 6760 eða Haraldar Guðna Eiðssonar, forstöðumanns samskiptasviðs í síma 856 7108.
Fjárhagsdagatal
Fjárhagsdagatal Arion banka er aðgengilegt á heimasíðu bankans.
Vinsamlegast beinið fyrirspurnum til:
Theodórs Friðbertssonar, forstöðumanns fjárfestatengsla Arion banka, ir@arionbanki.is, s. 856 6760 eða Haraldar Guðna Eiðssonar, forstöðumanns samskiptasviðs, haraldur.eidsson@arionbanki.is, s. 856 7108.
Þessar upplýsingar eru birtar í samræmi við upplýsingaskyldu Arion banka hf. skv. reglugerð Evrópusambandsins um markaðssvik (MAR), þann 2023-07-26 16:43 GMT.
Fyrirvari
Tilkynning þessi inniheldur framtíðarsýn sem endurspeglar núverandi viðhorf stjórnenda um framtíðina og mögulegan fjárhagslegan árangur. Upplýsingarnar eru byggðar á gögnum félagsins, sem fyrir liggja, þegar tilkynningin er birt. Þó Arion banki telji að gefnar væntingar séu raunhæfar er enga vissu hægt að gefa fyrir því að þær gangi eftir. Af þeim sökum getur endanleg niðurstaða orðið umtalsvert frábrugðin umræddum væntingum. Þeir þættir sem mikilvægastir eru og gætu valdið annarri útkomu hjá Arion banka eru meðal annars eftirfarandi: a) þróun efnahagsumhverfis, b) þróun verðbólgu, vaxta og gjaldmiðla, c) þróun samkeppnisumhverfis og d) breytingar á regluverki og aðrar aðgerðir stjórnvalda. Þessir þættir eru alls ekki tæmandi taldir. Tilkynning þessi gefur ekki til kynna að Arion banki hyggist eða hafi breytt sinni framtíðarsýn á neinn hátt, umfram það sem þegar liggur fyrir um breytingar á lögum eða gildandi kauphallarreglum, ef og þegar aðstæður koma upp sem kalla á breytingar frá þeim tíma er tilkynning þessi var birt. Arion banki ber ekki í neinum tilvikum ábyrgð á tjóni sem kann að hljótast af notkun upplýsinga í tilkynningu þessari. Óheimilt er að afrita, breyta, endurbirta eða dreifa upplýsingum í tilkynningunni án skriflegs samþykkis Arion banka.