English Icelandic
Birt: 2022-07-27 18:53:00 CEST
Arion banki hf.
Árshlutareikningur - 6 mán.

Afkoma Arion banka á öðrum ársfjórðungi 2022

  • Hagnaður Arion banka á 2F 2022 var 9.712 m.kr., samanborið við 7.816 m.kr. á 2F 2021
  • Áhrifin af sölunni á Valitor koma að fullu fram á öðrum ársfjórðungi. Söluverð félagsins var 14,6 ma.kr. (USD 112,5 m.) sem skilar 5,6 ma.kr. söluhagnaði
  • Arðsemi eiginfjár var 21,8% samanborið við 16,3% á 2F 2021
  • Hagnaður á hlut var 6,47 krónur, samanborið við 4,89 á 2F 2021
  • Hreinn vaxtamunur var 3,1%, samanborið við 2.9% á 2F 2021
  • Tekjur af kjarnastarfsemi jukust um 23,5% samanborið við 2F 2021
  • Kostnaðarhlutfallið var 50,1% samanborið við 42,5% á 2F 2021
  • Eiginfjárhlutfall bankans var 23,5% og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 19,7% þann 30. júní 2022, að teknu tilliti til áhrifa af sölunni á Valitor

Hagnaður Arion banka nam 9.712 m.kr. á öðrum ársfjórðungi og arðsemi eiginfjár var 21,8%.

Heildareignir námu 1.383 mö.kr. í lok júní, samanborið við 1.314 ma.kr. í árslok 2021. Lán til viðskiptavina jukust um 7,9% frá áramótum. Hækkunin snýr aðallega að lánum til fyrirtækja sem hækkuðu um 12,5% frá árslokum 2021. Heildar eigið fé nam 183 mö.kr. í lok júní. Eigið fé lækkaði frá áramótum vegna arðgreiðslu og endurkaupa á hlutabréfum bankans, samtals að fjárhæð 26,8 ma.kr., en afkoma tímabilsins kemur til hækkunar á eigin fé.

Eiginfjárhlutfall bankans (CAR hlutfall) var 23,5% í lok júní og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 19,7%, að teknu tilliti til áhrifa af sölunni á Valitor. Eiginfjárhlutfall samkvæmt reglum Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands var 23,1% í lok júní og hlutfall eiginfjárþáttar 1 19,4%. Eiginfjárhlutfall og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 eru vel umfram kröfur sem settar eru fram í lögum og af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands.

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka
„Afkoma Arion banka á fyrri helmingi ársins er góð. Þar skiptir mestu að kjarnastarfsemi bankans heldur áfram að þróast með jákvæðum hætti og gengið var frá sölu bankans á dótturfélaginu Valitor á tímabilinu. Kjarnatekjur bankans aukast um tæp 24% á milli ára ef horft er til annars ársfjórðungs og vegur aukning í vaxtatekjum þar þyngst. Jafnframt náðist góður árangur á fjórðungnum þegar kemur að þóknanatekjum sem hafa ekki verið hærri á einum fjórðungi og má rekja það meðal annars til mikilla umsvifa í fyrirtækjaráðgjöf og eignastýringu. Á móti kemur að aðstæður á fjármálamörkuðum hafa verið krefjandi sem hefur neikvæð áhrif á fjármunatekjur bankans. Áfram er eigin- og lausafjárstaða bankans sterk og bíður ný endurkaupaáætlun bankans samþykkis eftirlitsaðila.

Það var mikilvægur áfangi þegar kaup Rapyd á Valitor gengu í gegn þann 1. júlí síðastliðinn. Samið var um kaupin fyrir ári og hefur því tekið lengri tíma en til stóð að ganga frá kaupunum. En með samþykki Samkeppniseftirlitsins þann 23. maí og samþykki Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands 30. júní voru allir fyrirvarar samningsins uppfylltir. Salan á Valitor einfaldar Arion samstæðuna og skerpir okkar fókus. Áfram eru þó fjölbreyttar og styrkar stoðir undir starfseminni þar sem bankinn ásamt núverandi dótturfélögum sínum, Verði og Stefni, býður áfram afar fjölbreytta fjármálaþjónustu. Fjölbreytni þjónustunnar er jákvæð fyrir viðskiptavini okkar – sem geta sótt til okkar hvers kyns þjónustu á sviði fjármála og trygginga – og dregur úr sveiflum í afkomu bankans. Okkar hlutverk er að styðja við okkar viðskiptavini og hjálpa þeim að ná árangri í þeirra verkefnum og fjölbreytt og nútímalegt þjónustuframboð gegnir þar lykilhlutverki. Það verður jafnframt spennandi að fylgjast með þeirri vegferð sem nú tekur við hjá Valitor, nú þegar fyrirtækið er orðið hluti af alþjóðlega fjártæknifyrirtækinu Rapyd. Óska ég fyrirtækinu og starfsfólki þess alls hins besta í þeirra framtíðarverkefnum.

Moody‘s veitti nýlega Arion banka lánshæfismat í fyrsta sinn og erum við mjög ánægð með niðurstöðuna; A3 fyrir innlán og Baa1 fyrir Arion banka sem útgefanda óveðtryggðra skuldabréfa. Horfir Moody‘s m.a. til þess að arðsemi bankans er góð og mynduð á breiðum tekjugrunni m.a. frá eignastýringu, fyrirtækjaráðgjöf og tryggingastarfsemi auk hefðbundinni bankastarfsemi. Auk þess bendir Moody‘s á sterka eiginfjárstöðu, lágt hlutfall vanskilalána og lausafjárstýringu sem styrkleika bankans. Lánshæfismat Moody‘s er með jákvæðum horfum. Einnig hefur S&P staðfest lánshæfiseinkunn Arion banka til lengri og skemmri tíma með stöðugum horfum.

Það er órjúfanlegur þáttur í okkar starfsemi að hafa jákvæð áhrif á samfélag okkar og umhverfi. Við leggjum því ríka áherslu á að starfa með sjálfbærum og ábyrgum hætti. Nýverið fékk Arion banki niðurstöðu úr UFS-áhættumati alþjóðlega matsfyrirtækisins Sustainalytics sem sérhæfir sig í mati á áhættu fyrirtækja þegar kemur að umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum. Niðurstaða áhættumatsins felur í sér að Arion banki skipar sér á bekk með þeim bönkum í Evrópu og á heimsvísu sem þykja standa hvað best að vígi í þessum efnum og er lítil hætta talin á verulegu fjárhagslegu tjóni vegna UFS-þátta hjá bankanum. Matið ber með sér að við höfum náð góðum árangri á sviði sjálfbærni og ætlum við okkur að ná enn lengra.

Undanfarin misseri hefur Arion banki aukið verulega við markaðshlutdeild sína á markaði bílafjármögnunar enda leggjum við áherslu á góð kjör og framúrskarandi þjónustu. Við höfum lengi boðið upp á rafræn bílalán og getur hver sem er óskað eftir bílaláni hjá okkur hvar og hvenær sem er óháð opnunartíma bankans. Nú eru þinglýsingar okkar bílalána einnig orðnar 100% rafrænar og geta viðskiptavinir okkar gengið frá bíláláni með rafrænum hætti á örfáum mínútum, allt frá umsókn til þinglýsingar og útborgunar. Enn einn áfanginn í því að gera þjónustu okkar aðgengilegri og þægilegri fyrir viðskiptavini okkar.“

Fundur / vefstreymi fyrir markaðsaðila 28. júlí klukkan 8:30
Fundur / vefstreymi fyrir markaðsaðila verður fimmtudaginn 28. júlí klukkan 8:30 í Borgartúni 19 þar sem Iða Brá Benediktsdóttir aðstoðarbankastjóri Arion banka og framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs og Ólafur Hrafn Höskuldsson framkvæmdastjóri fjármálasviðs munu kynna afkomu bankans og Erna Björg Sverrisdóttir aðalhagfræðingur Arion banka mun fara yfir stöðu efnahagslífsins. Fundurinn fer fram á ensku.

Hægt verður að nálgast streymið beint á financialhearings.com og á fjárfestatengslavef bankans.

Þátttakendur geta spurt spurninga á meðan fundi stendur í gegnum spjallþráð sem birtist fyrir neðan vefstreymið. Spurningum verður svarað að loknum kynningum.

Fjárhagsdagatal
Fjárhagsdagatal Arion banka er aðgengilegt á heimasíðu bankans.


Arion Bank Condensed Consolidated Interim Financial Statements 1 January 30 June 2022.pdf
Q2 2022 Arion Bank Presentation Investor.pdf
Q2 2022 Press Release Arion Bank.pdf