Ársreikningur Landsnets 2020 - Stærsta framkvæmdaár í sögu Landsnets
Ársreikningur Landsnets 2020 var samþykktur á fundi stjórnar í dag, 18. febrúar 2021.
Helstu atriði ársreikningsins:
Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, segir árið 2020 hafa verið ár áskorana, framkvæmda og stöðugleika hjá Landsneti og segir það mjög ánægjulegt í ljósi þess að bæði einkenndist árið af erfiðum veðrum sem og heimsfaraldri. Efnahagsleg áhrif af Covid-19 höfðu óveruleg áhrif á ársreikninginn sem sýnir góða rekstrarniðurstöðu og fjármálalegan stöðugleika.
„Það er ánægjulegt að niðurstaða ársreikningsins, sem við lögðum fram í dag, sýnir að rekstur félagsins er sterkur og sýnir fjármálalegan stöðugleika við erfiðar aðstæður. Á síðustu árum hefur náðst stöðugleiki í rekstrarumhverfi félagsins, sem er mjög mikilvægur, og grundvöllur þess að ná fram hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri flutningskerfisins. Á fyrri hluta árs voru miklar áskoranir tengdar óveðri sem hafði mikil áhrif á flutningskerfið og starfsemina. Við tók uppbygging á innviðum og áhersla var lögð á verkefni sem voru sett í forgang af stjórnvöldum í kjölfar óveðranna. Þetta var stærsta framkvæmdaár félagsins frá upphafi og við erum stolt af því að hafa náð markmiðum þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður. Framkvæmdir gengu vonum framar þrátt fyrir þær áskoranir sem fylgdu Covid-19 faraldrinum, þar sem tekist var á við einstakar tafir með breyttri forgangsröðun verkefna. Í rekstrinum var fylgt áhættumati Almannavarna og tókst með góðri samvinnu starfsfólks og ytri aðila að lágmarka áhrif Covid-19 á rekstur félagsins og halda úti góðri þjónustu við nýjar og krefjandi aðstæður. Við horfum bjartsýn til nýs árs. Verkefnastaðan er áfram krefjandi, félagið stendur vel gagnvart fjármögnun og framundan eru spennandi tímar við áframhaldandi styrkingu flutningskerfisins.“
Rekstrarreikningur
Efnahagsreikningur og sjóðstreymi
Árið 2020 var mikið fjárfestingarár. Stærstu verkefni ársins voru Kröfulína og Hólasandslína sem liggja frá Fljótsdalsstöð til Akureyrar. Einnig var unnið í spennuhækkun á Austfjörðum og tengingu Sauðárkróks og Varmahlíðar. Þessi flutningsvirki voru ekki komin í notkun á árinu 2020 og eru færð meðal flutningsvirkja í byggingu í ársreikningi. Þá var gengið frá fjármögnun verkefna á árinu auk þess sem síðasti hluti stofnláns frá móðurfélagi var greiddur upp.
Greiddur arður á árinu 2020 vegna afkomu 2019 var 9,5 milljónir USD.
Horfur í rekstri
Áætlanir félagsins fyrir árið 2021 gera ráð fyrir 30,4 milljóna USD hagnaði af rekstri félagsins. Í tekjuáætlun er byggt á þeim magn- og verðbreytingum sem félagið hefur vitneskju um. Kostnaðaráætlun er byggð á raunkostnaði við rekstur félagsins að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem ákvörðun tekjumarka felur í sér. Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að framkvæmdir nemi a.m.k. 86,6 milljónum USD á árinu. Fjármögnun verkefna er í undirbúningi og telur félagið sig hafa gott aðgengi að lánamörkuðum.
Um ársreikninginn
Ársreikningur Landsnets hf. fyrir árið 2020 er gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS). Uppgjör Landsnets er í bandaríkjadölum (USD) sem er starfrækslugjaldmiðill félagsins. Ársreikningurinn var samþykktur á fundi stjórnar 18. febrúar 2021.
Um Landsnet
Landsnet tók til starfa árið 2005 og ber ábyrgð á flutningskerfi raforkunnar, einum af mikilvægustu innviðum samfélagsins. Hlutverk félagsins er að annast flutning raforku á Íslandi, uppbyggingu flutningskerfisins og stjórnun raforkukerfisins.
Nánari upplýsingar gefur Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsnets, sími 563-9300 eða á netfanginu gudlaugs@landsnet.is
Nánar á www.landsnet.is þar sem hægt er að nálgast ársreikninginn.
Viðhengi