English Icelandic
Birt: 2021-09-28 16:07:00 CEST
Arion banki hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Arion banki gefur í fyrsta sinn út sértryggð skuldabréf í evrum – hagstæðustu kjör íslensks útgefanda í rúman áratug

Arion banki gaf í dag út sértryggð skuldabréf til fimm ára að upphæð 300 milljónir evra eða sem nemur rúmum 45 milljörðum íslenskra króna. Um er að ræða fyrstu sértryggðu skuldabréfaútgáfu íslensks banka í evrum. Umframeftirspurn var eftir skuldabréfunum en í heild bárust tilboð frá yfir 30 fjárfestum frá 12 löndum fyrir rúmlega 700 milljónir evra. Tilboð bárust frá eignastýringum, opinberum aðilum og bönkum. Skuldabréfaútgáfan kemur í kjölfar vel heppnaðra fjárfestakynninga í síðustu viku.

Skuldabréfin voru seld á kjörum sem jafngilda 0,27% álagi á millibankavexti, sem eru bestu kjör sem íslenskur aðili, að íslenska ríkinu meðtöldu, hefur fengið á erlendum lánsfjármörkuðum frá stofnun Arion banka fyrir um 13 árum. Deutsche Bank AG, Barclays Bank Ireland PLC og UBS Europe SE sáu um útgáfuna fyrir hönd bankans.
 
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka:
„Það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu vel okkar fyrsta sértryggða skuldabréfaútgáfa erlendis gekk en mikil eftirspurn var eftir bréfunum meðal erlendra fjárfesta. Kjörin á skuldabréfaútgáfunni eru þau bestu sem íslenskur aðili hefur fengið í meira en áratug. Með þessari útgáfu hefur Arion banki tekið stórt skref hvað varðar aukna fjölbreytni í fjármögnun íbúðalána og færst nær alþjóðlegri framkvæmd. Til að mynda er umtalsverður hluti íbúðalána í Noregi nú fjármagnaður með útgáfu á sértryggðum skuldabréfum í evrum. Við vonumst til að útgáfur sem þessar leiði í framtíðinni til hagstæðari kjara fyrir viðskiptavini.“


Arion banki gefur i fyrsta sinn ut sertrygg skuldabref i evrum - hagstustu kjor islensks utgefanda i ruman aratug.pdf