Published: 2018-10-18 11:05:05 CEST
TM hf.
Boðun hluthafafundar

Hluthafafundur í Tryggingamiðstöðinni hf. 25. október 2018. Endanleg dagskrá.

Stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar hf. hefur boðað til hluthafafundar í félaginu fimmtudaginn 25. október 2018 kl. 16:00 í fundarsal félagsins að Síðumúla 24, Reykjavík, 4. hæð, sbr. m.a. tilkynningu í fréttaveitu Kauphallarinnar 26. september síðastliðinn.

Frestur hluthafa til að fá ákveðin mál til meðferðar á fundinum rann út 15. október.  Engin mál bárust og er upphafleg dagskrá fundarins óbreytt:

1.   Tillaga um breytingar á samþykktum félagsins.

2.   Tillaga um starfsreglur tilnefningarnefndar.

3.   Tillaga um þóknun til tilnefningarnefndar fyrir störf fram að aðalfundi 2019.

4.   Kosning tveggja nefndarmanna í tilnefningarnefnd sem starfa skal fram að aðalfundi 2019.

5.   Önnur mál löglega fram borin.

Tillaga um breytingar á samþykktum félagsins sem varða 13., 15. og 16. gr. auk þess sem lagt er til að ný grein komi inn í samþykktirnar á eftir 25. gr. og verði 26. gr., en allar breytingarnar lúta að því að koma á fót tilnefningarnefnd í félaginu í samræmi við góða stjórnarhætti.  Einnig er gerð tillaga um sérstakt bráðabirgðaákvæði í þeim tilgangi að unnt verði þá strax að ganga frá skipan nefndarinnar svo hún megi hefja þegar störf til undirbúnings fyrir aðalfund á næsta ári.

Framboð til setu í tilnefningarnefnd, sbr. 4. dagskrárlið, skulu hafa borist skriflega stjórn félagsins skemmst fimm dögum fyrir hluthafafundinn á sérstöku eyðublaði sem stjórnin lætur í té og unnt er að nálgast á vefsíðu félagsins (www.tm.is/fjarfestar).  Unnt er að senda félagsstjórninni útfyllta og undirritaða framboðstilkynningu fyrir lok framboðsfrests með tölvuskeyti á netfangið stjorn@tm.is.  Eigi síðar en tveimur dögum fyrir fundinn verða birtar á vefsíðu félagsins upplýsingar um framboð til nefndarinnar.

Hluthafi getur látið umboðsmann sækja hluthafafund fyrir sína hönd.  Umboðsmaður skal leggja fram skriflegt eða rafrænt umboð á eyðublaði eða í samræmi við eyðublað sem aðgengilegt er á vef félagsins, tm.is/fjarfestar.  Rafrænt umboð skal sent félaginu á netfangið stjorn@tm.is áður en fundur hefst.

Ekki verður unnt að greiða atkvæði með rafrænum hætti á fundinum.  Óski hluthafi að taka fyrir fram þátt í atkvæðagreiðslu skriflega og fá sendan atkvæðaseðil skal hann gera skriflega kröfu þar um til félagsins eigi síðar en fimm dögum fyrir fundinn.  Að auki er unnt að greiða atkvæði á skrifstofu félagsins á venjulegum opnunartíma (kl. 09:00 til 16:00) til og með miðvikudeginum 24. október 2018, en fyrir lokun þann dag skal einnig skila þangað útsendum atkvæðaseðlum.  Nánar fer um atkvæðagreiðsluna og gildi atkvæða samkvæmt henni eftir reglum félagsins um atkvæðagreiðslu utan hluthafafundar, settum af stjórn félagsins 18. desember 2013.

Dagskrá hluthafafundarins og tillögur sem fyrir hann verða lagðar, svo og aðrar nauðsynlegar upplýsingar um fundinn má finna á vef félagsins (www.tm.is/fjarfestar).

Hluthafar og umboðsmenn geta skráð sig á fundinn á fundarstað hálfri klukkustund áður en hann hefst og fengið fundargögn afhent.

Stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar hf.