Marel vísar í fyrri tilkynningar til markaðar frá 24. nóvember 2023 og 13. desember 2023 varðandi óskuldbindandi viljayfirlýsingar frá John Bean Technologies Corporation (“JBT”) um mögulegt tilboð í öll hlutabréf í félaginu. Í 102. gr. laga nr. 108/2007 um yfirtökur er kveðið á um að sé það gert opinbert að aðili íhugi að gera yfirtökutilboð, skuli hann birta lokaákvörðun um hvort hann hyggist leggja fram yfirtökutilboð innan sex vikna.
Marel hefur verið upplýst um að Fjármálaeftirlitið hafi veitt JBT tveggja vikna framlengingu á fresti til þess að birta lokaákvörðun um hvort það hyggist gera yfirtökutilboð í Marel. Með hliðsjón af framlengdum fresti skal JBT birta lokaákvörðun um hvort það hyggist gera yfirtökutilboð í Marel eigi síðar en 19. janúar 2024.
Á grundvelli langtímahagsmuna Marel og allra hluthafa félagsins, er enn unnið að því að meta framangreinda óskuldbindandi viljayfirlýsingu af kostgæfni, meðal annars með öflun ítarlegri upplýsinga er varða efnisatriði yfirlýsingarinnar og, í samstarfi við ráðgjafa félagsins, með takmörkuðum og óformlegum samskiptum við JBT. Sem fyrr, liggur ekki fyrir nein vissa um hvort umrædd yfirlýsing muni leiða til formlegs skuldbindandi yfirtökutilboðs, eða hverjir skilmálar þess kunni að verða.
Marel mun halda markaðsaðilum tímanlega upplýstum um gang mála í samræmi við upplýsingaskyldu félagsins.
JP Morgan er fjármálaráðgjafi Marel og lagalegir ráðgjafar eru Baker McKenzie (Bandaríkin), BBA/Fjeldco (Ísland), og Osborne Clarke (Holland).
Fjárfestatengsl
Nánari upplýsingar veita fjárfestatengsl Marel í gegnum netfangið ir@marel.com og í síma 563 8001.
Um Marel
Marel (NASDAQ: MAREL; AEX: MAREL) er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Í gegnum árin, hefur Marel skref fyrir skref, útvíkkað starfsemi sína. Með kaupunum á Wenger 2022 myndast fjórða stoðin í viðskiptamódeli Marel með áherslu á lausnum fyrir matvælavinnslu fyrir gæludýr, plöntuprótein og fóður fyrir fiskeldi. Hjá félaginu starfa um 8.000 manns í yfir 30 löndum. Tekjur Marel námu um 1,7 milljarði evra árið 2022 en árlega fjárfestir Marel um 6% af tekjum í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið hefur verið skráð í Kauphöll Íslands síðan 1992 og var lokið við tvíhliða skráningu í Euronext Kauphöllina í Amsterdam árið 2019. Frekari upplýsingar má finna á marel.com/ir.