Eik fasteignafélag hf.: Niðurstöður yfirtökutilboðs Langasjávar ehf. til hluthafa Eikar fasteignafélags hf.Þann 20. september 2024 gerði Langisjór ehf. („tilboðsgjafi“) hluthöfum Eikar fasteignafélags hf. („Eik“) yfirtökutilboð í skilningi X. og XI. kafla laga nr. 108/2007 um yfirtökur („lög um yfirtökur“), með þeim skilmálum og skilyrðum sem fram komu í opinberu tilboðsyfirliti dagsettu sama dag („tilboðið“). Gildistími tilboðsins rann út kl. 13:00 þann 18. október 2024. Samþykki barst fyrir alls 247.190 hlutum í Eik. Samkeppniseftirlitið tilkynnti tilboðsgjafa þann 14. október 2024 að ekki væri um tilkynningarskyldan samruna að ræða. Greiðsla til þeirra sem samþykktu tilboðið og afhending hluta til tilboðsgjafa fer fram í síðasta lagi 25. október 2024. Á þeim degi sem tilboðið var sett fram fóru tilboðsgjafi og samstarfsaðilar með 1.106.281.964 hluti í Eik sem samsvarar 32,31% af hlutafé félagsins. Eftir tilboðið fara tilboðsgjafi og samstarfsaðilar með 1.106.529.154 hluti í Eik sem samsvarar 32,32% af hlutafé félagsins. Gunnar Þór Gíslason, framkvæmdastjóri Langasjávar ehf.: „Við hefðum gjarnan viljað eignast fleiri bréf í Eik í aðdraganda yfirtökutilboðsins og í tilboðsferlinu sjálfu. Yfirtökutilboðið var hins vegar einungis fyrsta skrefið í vegferð Langasjávar að auka áhrif sín og eignarhald í Eik. Það lá lengi fyrir að Langisjór og samstarfsaðilar væru nálægt því að fara yfir 30% eignarhlut í Eik og þyrftu þannig að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð. Nú er Langasjó frjálst að eignast meirihluta í félaginu án þess að endurtaka það ferli. Hvenær og á hvern hátt Langisjór eykur við hlut sinn í Eik mun fara eftir markaðsaðstæðum og öðrum fjárfestingartækifærum sem bjóðast. Gengi Eikar hafði sveiflast í kringum 10 krónur á hlut lengstan hluta þessa árs þegar það tók nokkurn kipp í litlum viðskiptum strax eftir birtingu hálfsársuppgjörs félagsins þann 15. ágúst. Til stóð að Langisjór myndi bæta við sig eignarhlut með því að kaupa hlutabréf í utanþingsviðskiptum helgina eftir birtingu árshlutauppgjörs. Það gekk ekki eftir og þar eftir hækkaði gengi félagsins enn frekar eftir að yfirtökutilboð var lagt fram þannig að markaðsverð á hlutabréfum Eikar var orðið nokkuð hærra en tilboðsverð þegar yfir lauk.
Á tilboðstímanum höfum við haft tækifæri til að eiga marga uppbyggilega fundi með stærstu hluthöfum Eikar. Þann vettvang höfum við nýtt til að ræða sýn okkar á uppbyggingu, skipulag og framtíðarhorfur félagsins við meðeigendur. Við finnum góðan samhljóm hjá þeim við þau áhersluatriði okkar að hagræða í eignasafni Eikar, auka arðgreiðslur og skuldsetningu félagsins. Þessi samstilling í hluthafahópi félagsins gefur okkur tækifæri til að horfa björtum augum fram á veginn þar sem hagsmunir hluthafa fara saman við vegferð Eikar.“ Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka var umsjónaraðili yfirtökutilboðsins fyrir hönd tilboðsgjafa og veitti BBA // Fjeldco tilboðsgjafa lögfræðilega ráðgjöf í tilboðsferlinu.
|