English Icelandic
Birt: 2021-12-20 17:06:46 CET
Eimskipafélag Íslands hf.
Innherjaupplýsingar

Eimskip: Upplýsingar varðandi afkomu fjórða ársfjórðungs

Samkvæmt stjórnendauppgjöri fyrir október og nóvember ásamt nýrri spá fyrir desember sem nú liggur fyrir, lítur út fyrir að EBITDA af rekstri á fjórða ársfjórðungi 2021 verði umtalsvert betri en á sama ársfjórðungi síðasta árs.

Áætlað er að EBITDA á fjórða ársfjórðungi verði á bilinu 26,7 til 29,7 milljónir evra samanborið við 14,9 milljónir evra á sama ársfjórðungi síðasta árs.  Að teknu tilliti til væntra afskrifta má gera ráð fyrir að EBIT fjórðungsins verði á bilinu 12,7 til 15,7 milljónir evra samanborið við 3,2 milljónir evra á fjórða ársfjórðungi síðasta árs.

Helstu ástæður betri afkomu eru góður gangur í gámasiglingum með auknu magni og bættri framlegð. Auk þess hefur verið áframhaldandi sterk afkoma í alþjóðlegri flutningsmiðlun á fjórða ársfjórðungi. Í desember var greidd út sérstök jólagreiðsla til starfsmanna Eimskips á alþjóðavísu fyrir framúrskarandi framlag við krefjandi aðstæður ásamt góðri afkomu á árinu 2021 og nam sú greiðsla um einni milljón evra.

Gangi spáin eftir verður um umtalsverða hækkun á rauntölum úr rekstri milli tímabila að ræða og má þá gera ráð fyrir að afkoma félagsins á árinu 2021 verði yfir efri mörkum uppfærðrar afkomuspár sem gefin var út 9. nóvember sl.

Uppfærð afkomuspá fyrir árið 2021 er nú aðlöguð EBITDA á bilinu 109,5 til 112,5 milljónir en var áður á bilinu 102 til 110 milljónir evra. Aðlagað EBIT er nú áætlað á bilinu 58,5 til 61,5 milljónir evra.

Framangreint byggir á rauntölum úr rekstri fyrstu níu mánaða 2021, stjórnendauppgjörum fyrir október og nóvember ásamt nýrri rekstrarspá fyrir desember.

Fjórða ársfjórðungi er ólokið og geta niðurstöður tekið breytingum af þeim sökum sem og í uppgjörsferlinu og við endurskoðun ársreiknings.

Eimskip birtir uppgjör fjórða ársfjórðungs 2021 eftir lokun markaða fimmtudaginn 17. febrúar 2022.

Nánari upplýsingar veitir Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs í síma 825-3399 eða á investors@eimskip.is.