English Icelandic
Birt: 2021-05-27 17:32:35 CEST
Kvika banki hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Kvika banki hf.: Afkomutilkynning fyrir fyrsta ársfjórðung 2021

Á stjórnarfundi þann 27. maí 2021 samþykktu stjórn og forstjóri árshlutauppgjör samstæðu Kviku banka hf. fyrir tímabilið 1. janúar 2021 til 31. mars 2021.

Helstu atriði úr árshlutareikningi fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2021

  • Samanlagður hagnaður Kviku banka hf., TM hf. og Lykils fjármögnunar hf. fyrir skatta nam 2.520 milljónum króna. Hagnaður Kviku banka hf. nam 1.002 milljónum króna og samanlagður hagnaður TM hf. og Lykils fjármögnunar hf. 1.518 milljónum króna.
  • Arðsemi vegins efnislegs eigin fjár fyrir skatta var 26,7%.
  • Hagnaður á hlut nam 0,40 kr. á tímabilinu.
  • Heildareignir námu 260 milljörðum króna.
  • Eigið fé samstæðunnar nam 70 milljörðum króna.
  • Gjaldþolshlutfall fjármálasamsteypunnar var 1,33 og eiginfjárhlutfall samstæðunnar (CAR) var 29,3% í lok tímabilsins.
  • Heildar lausafjárþekja (LCR) samstæðunnar var 208%.
  • Heildareignir í stýringu námu 546 milljörðum króna.
  • Eftir samruna er heildafjöldi starfsmanna í fullu starfi 319.

Kynningarfundur fyrir hluthafa og markaðsaðila verður haldinn kl. 16:00 fimmtudaginn 27. maí. Fundurinn verður haldinn í gegnum fjarfundabúnað á vefslóðinni https://www.kvika.is/fjarfestaupplysingar/fjarfestakynning-27-mai-2021/.

Meðfylgjandi er fjárfestakynning.

Góð afkoma á öllum sviðum

Samanlagður hagnaður Kviku banka hf., TM hf. og Lykils fjármögnunar hf. fyrir skatta nam 2.520 milljónum króna. Samruninn á sér stað í lok mars og er rekstur TM hf. og Lykils fjármögnunar hf. því ekki hluti af árshlutareikningi samstæðunnar. Afkoma félaganna á ársfjórðungnum, sem nam 1.518 milljónum króna fyrir skatta, er hluti af eigin fé félaganna sem rennur inn í efnahag Kviku banka hf. og er þar af leiðandi hluti af efnahag samstæðunnar í lok ársfjórðungsins. Hagnaður samstæðu Kviku banka hf. fyrir skatta nam 1.002 milljónum króna og var arðsemi vegins efnislegs eigin fjár 26,7% (e. return on weighted tangible equity).

Hreinar vaxtatekjur Kviku banka hf. námu 634 milljónum króna og jukust um 31% miðað við sama tímabil árið áður og má aukningu vaxtatekna helst skýra með breyttri samsetningu útlánasafns og lausafjáreigna ásamt hagfelldri þróun fjármagnskostnaðar. Lág vanskil voru meðal lántakenda bankans og nam hrein virðisrýrnun einungis 11 milljónum króna og virðast áhrif COVID-19 faraldursins að mestu komin fram. Hreinar fjárfestingatekjur námu 373 milljónum króna en góð ávöxtun var á flestum þeim eignamörkuðum sem bankinn starfar á. Þóknanatekjur voru áfram sterkar og námu hreinar þóknanatekjur 1.684 milljónum króna.

Ávöxtun fjárfestingareigna vel umfram væntingar

Rekstur TM hf. og Lykils fjármögnunar hf. gekk vel á ársfjórðungnum og námu hreinar tekjur félaganna 2.973 milljónum króna. Rekstrarkostnaður lækkaði um 6% frá ársfjórðungnum árið áður. Fjárfestingartekjur námu 1.663 milljónum króna á tímabilinu og ávöxtun eignasafnsins því 5,6% á tímabilinu. Samsett hlutfall vátryggingarekstrar nam 102,5% sem var í samræmi við væntingar þrátt fyrir stór tjón á tímabilinu.

Miklar breytingar á efnahag vegna samruna

Heildareignir samstæðu Kviku banka hf. jukust um 111% eða um 136 milljarða króna á ársfjórðungnum og námu 260 milljörðum króna. Útlán til viðskiptavina jukust um 39 milljarða króna og eykst hlutfall útlána til einstaklinga úr því að vera 19% af af öllum útlánum í 40%. Innstæður í bönkum og Seðlabanka ásamt ríkistryggðum verðbréfum námu 79 milljörðum króna og heildar lausafjáreignir voru 107 milljarðar króna og jukust um 31 milljarða króna á ársfjórðungnum. Heildar lausafjárþekja samstæðunnar án tryggingastarfsemi nam 208% í lok ársfjórðungsins sem var vel umfram 100% lágmarkskröfu.

Eigið fé samstæðunnar jókst mikið við samruna Kviku banka hf., TM hf. og Lykils fjármögnunar hf. og var 70 milljarðar króna í lok ársfjórðungsins. Gjaldþolskrafa fjármálasamsteypunnar (Kvika banki hf. og TM Tryggingar hf.) var 1,33 í lok tímabilsins og áhættuvegið eiginfjárhlutfall samstæðunnar (CAR) án áhrifa TM Trygginga hf. nam 29,3%, en lágmarkseiginfjárkrafa eftirlitsaðila er 20,6%.

Afkomuspá og vænt samlegð

Kvika banki hf. hyggst birta nýja afkomuspá við birtingu uppgjörs fyrsta árshelmings. Afkomuspáin mun meðal annars taka mið af uppfærðri stefnumótun samstæðunnar sem stefnt er að ljúki í sumar.

Vel gengur að ná fram þeirri samlegð sem kynnt hefur verið vegna samruna félaganna og er hún framar vonum þótt of snemmt sé að segja til um hvort breyting verði á heildarniðurstöðunni. Frekari innsýn í þróun samlegðar verður gefin við birtingu uppgjöra.

Stjórn Kviku samþykkir að hefja endurkaup á eigin hlutum

Stjórn Kviku banka hf. samþykkti í dag endurkaupaáætlun á eigin bréfum bankans. Heimildin nær til endurkaupa allt að 117.000.000 hluta eða um 2,5% af útgefnu hlutafé, að undangengnu samþykki frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Síðar á árinu verður metið hvort farið verði í endurkaup á þeim 2,5% hlutafjár sem eftir standa af heimild aðalfundar 2021.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku

Það er sérstaklega ánægjulegt að rekstur samstæðunnar hafi gengið jafn vel og raun ber vitni. Á fjórðungnum sameinaðist bankinn við TM hf. og Lykil fjármögnun hf. og er það líklega stærsti samruni skráðra félaga sem hefur orðið á Íslandi.

Samstæðan er fjárhagslega sterk með góðan rekstur sem hvílir á mörgum stoðum. Mikil tækifæri felast í því að auka markaðshlutdeild félagsins. Það er ekki algengt að fjárhagslega sterkt félag hafi litla markaðshlutdeild í flestum þjónustuþáttum og í því felast margvísleg tækifæri til vaxtar. Unnið er að undirbúningi útvíkkunar þjónustu fyrir einstaklinga og ég vænti þess að viðskiptavinir félagsins muni upplifa að samkeppni aukist á fjármálamarkaði.

Vel gengur að ná markmiðum um kostnaðarhagræði í kjölfar samrunans og mun það væntanlega að mestu koma fram með hagkvæmari fjármögnun. Fjármögnunarkjör bankans hafa aldrei verið betri en í síðasta skuldabréfaútboði.

Hjá samstæðunni starfa rúmlega 300 manns, þrátt fyrir að vel hafi gengið hefur það verið krefjandi að sameina félög í samkomutakmörkunum. Ég hlakka til þess þegar starfsmannahópurinn getur hist. Það er ljóst að samruninn hefði ekki gengið eins vel og raun ber vitni nema fyrir tilstilli okkar frábæra starfsfólks og er ég mjög þakklátur fyrir þeirra framlag.


Viðhengi2021-05-27 Kvika Q1 2021 final.pdf
Kvika - Condensed Interim Consolidated Financial Statements 31.03.21.pdf