Icelandic
Birt: 2022-01-14 10:11:50 CET
Brim hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Brim hf.: Stækkun á græna og bláa skuldabréfaflokknum BRIM 221026 GB

Brim hefur í samstarfi við Íslandsbanka lokið við sölu skuldabréfa í græna og bláa flokknum BRIM 221026 GB. Skuldabréfin eru óveðtryggð, óverðtryggð og með lokagjalddaga þann 22. október 2026. Þau bera 4,67% vexti sem greiddir eru ársfjórðungslega en höfuðstóll skuldabréfanna er greiddur í einni greiðslu á lokagjalddaga.

Seld voru skuldabréf að nafnverði 2.500 milljónir króna á ávöxtunarkröfunni 5,10%. Áður höfðu verið seld skuldabréf að nafnverði 2.500 milljónir króna, og hafa því samtals verið seld skuldabréf í flokknum að fjárhæð 5.000 milljónir króna sem er hármarksstærð flokksins.

Samhliða hefur félagið gert gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamning til að mæta greiðsluflæði skuldabréfanna og umbreyta því yfir í fasta 2,0% vexti í evru fram til lokagjalddaga skuldabréfanna.

Stefnt er að uppgjöri viðskiptanna þann 24. janúar næstkomandi og verður óskað eftir því að bréfin verði tekin til viðskipta á Nasdaq Iceland í framhaldinu.

Nánari upplýsingar veitir Inga Jóna Friðgeirsdóttir,  framkvæmdastjóri fjármálasviðs í síma 858-1170 eða í tölvupósti ingajona@brim.is.