Sex mánaða uppgjör LandsvirkjunarGóð afkoma í fullnýttu raforkukerfi Helstu atriði árshlutareiknings - Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 196 milljónum USD (26,8 mö.kr.), en var 154,3 milljónir USD á sama tímabili árið áður og hækkar því um 27,0% þrátt fyrir mjög góða afkomu á síðasta ári.
- Hagnaður tímabilsins var 114 milljónir USD (15,6 ma.kr.), en var 137,5 milljónir USD á sama tímabili árið áður. Á síðasta ári skilaði hagnaður Landsnets hluta af niðurstöðu ársins.
- Rekstrartekjur námu 331,8 milljónum USD (45,5 ma.kr.) og hækka um 36,8 milljónir USD (12,5%) frá sama tímabili á árinu áður.
- Nettó skuldir lækkuðu um 182,4 milljónir USD (25 ma.kr.) frá áramótum og voru í lok júní 665,7 milljónir USD (91,2 ma.kr.).
- Handbært fé frá rekstri nam 248,8 milljónum USD (34,1 ma.kr.), sem er 29,7% hækkun frá sama tímabili árið áður.
- Á öðrum ársfjórðungi var 125 milljóna USD lánalína endurfjármögnuð til þriggja ára. Kjör lánalínunnar eru hagstæð, eða 45 punktar yfir SOFR millibankavöxtum.
- Matsfyrirtækið S&P Global Ratings breytti horfum á lánshæfi Landsvirkjunar úr stöðugum í jákvæðar og staðfesti BBB+ lánshæfiseinkunn fyrirtækisins.
- Landsvirkjun gerir ekki samstæðuárshlutareikning með dótturfélögum sínum Icelandic Power Insurance Ltd. og Landsvirkjun Power ehf., þar sem áhrif þeirra eru talin vera óveruleg. Þess í stað eru reikningsskilin gerð í samræmi við staðalinn IAS 27, Aðgreind reikningsskil.
Hörður Arnarson, forstjóri: „Rekstur Landsvirkjunar gengur áfram vel. Hagnaður af grunnrekstri jókst um 27% frá sama tímabili ársins 2022, sem þó var metár í sögu fyrirtækisins. Rekstrartekjur jukust um 12,5% frá fyrri helmingi ársins 2022. Munar þar mestu um tekjur vegna innleystra áhættuvarna, auk þess sem raforkusala var áfram mikil, en á móti kemur verðlækkun á þeim mörkuðum sem raforkuverð til stórnotenda er að hluta til tengt við. Á sama tíma lækkaði rekstrar- og viðhaldskostnaður um 6% frá fyrra ári. Fjármunamyndun var sterk á tímabilinu, en handbært fé frá rekstri jókst um 29,7% og nam 34 milljörðum króna. Rekstur aflstöðva gekk vel á fyrri helmingi ársins, en á fyrsta fjórðungi þurfti þó að takmarka afhendingu á skerðanlegri orku til gagnavera og fiskmjölsframleiðenda, þar sem raforkukerfið er nú rekið nærri hámarks afkastagetu. Eins og við hjá Landsvirkjun höfum ítrekað bent á síðustu ár og misseri ríður á að byggja upp frekari raforkuvinnslu til að uppfylla þá augljósu orkuþörf sem er í samfélaginu vegna orkuskipta og almenns vaxtar í atvinnulífinu. Landsvirkjun vinnur nú hörðum höndum að því að afla tilskilinna leyfa svo fyrirtækinu sé unnt að mæta þessum sjálfsögðu kröfum samfélags og stefnu stjórnvalda.“
|