English Icelandic
Birt: 2023-08-28 13:54:52 CEST
Landsvirkjun
Árshlutareikningur - 6 mán.

Sex mánaða uppgjör Landsvirkjunar

Góð afkoma í fullnýttu raforkukerfi

Helstu atriði árshlutareiknings

  • Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 196 milljónum USD (26,8 mö.kr.), en var 154,3 milljónir USD á sama tímabili árið áður og hækkar því um  27,0% þrátt fyrir mjög góða afkomu á síðasta ári. 
  • Hagnaður tímabilsins var 114 milljónir USD (15,6 ma.kr.), en var 137,5 milljónir USD á sama tímabili árið áður. Á síðasta ári skilaði hagnaður Landsnets hluta af niðurstöðu ársins.
  • Rekstrartekjur námu 331,8 milljónum USD (45,5 ma.kr.) og hækka um 36,8 milljónir USD (12,5%) frá sama tímabili á árinu áður.
  • Nettó skuldir lækkuðu um 182,4 milljónir USD (25 ma.kr.) frá áramótum og voru í lok júní 665,7 milljónir USD  (91,2 ma.kr.).
  • Handbært fé frá rekstri nam 248,8 milljónum USD (34,1 ma.kr.), sem er 29,7% hækkun frá sama tímabili árið áður.
  • Á öðrum ársfjórðungi var 125 milljóna USD lánalína endurfjármögnuð til þriggja ára. Kjör lánalínunnar eru hagstæð, eða 45 punktar yfir SOFR millibankavöxtum.
  • Matsfyrirtækið S&P Global Ratings breytti horfum á lánshæfi Landsvirkjunar úr stöðugum í jákvæðar og staðfesti BBB+ lánshæfiseinkunn fyrirtækisins.
  • Landsvirkjun gerir ekki samstæðuárshlutareikning með dótturfélögum sínum Icelandic Power Insurance Ltd. og Landsvirkjun Power ehf., þar sem áhrif þeirra eru talin vera óveruleg. Þess í stað eru reikningsskilin gerð í samræmi við staðalinn IAS 27, Aðgreind reikningsskil.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Rekstur Landsvirkjunar gengur áfram vel. Hagnaður af grunnrekstri jókst um 27% frá sama tímabili ársins 2022, sem þó var metár í sögu fyrirtækisins. Rekstrartekjur jukust um 12,5% frá fyrri helmingi ársins 2022. Munar þar mestu um tekjur vegna innleystra áhættuvarna, auk þess sem raforkusala var áfram mikil, en á móti kemur verðlækkun á þeim mörkuðum sem raforkuverð til stórnotenda er að hluta til tengt við. Á sama tíma lækkaði rekstrar- og viðhaldskostnaður um 6% frá fyrra ári.

Fjármunamyndun var sterk á tímabilinu, en handbært fé frá rekstri jókst um 29,7% og nam 34 milljörðum króna.

Rekstur aflstöðva gekk vel á fyrri helmingi ársins, en á fyrsta fjórðungi þurfti þó að takmarka afhendingu á skerðanlegri orku til gagnavera og fiskmjölsframleiðenda, þar sem raforkukerfið er nú rekið nærri hámarks afkastagetu.

Eins og við hjá Landsvirkjun höfum ítrekað bent á síðustu ár og misseri ríður á að byggja upp frekari raforkuvinnslu til að uppfylla þá augljósu orkuþörf sem er í samfélaginu vegna orkuskipta og almenns vaxtar í atvinnulífinu. Landsvirkjun vinnur nú hörðum höndum að því að afla tilskilinna leyfa svo fyrirtækinu sé unnt að mæta þessum sjálfsögðu kröfum samfélags og stefnu stjórnvalda.“

Viðhengi



Arshlutareikningur januar til juni 2023.pdf
Frettatilkynning.pdf