Helstu niðurstöður í rekstri á þriðja ársfjórðungi 2017
Orri Hauksson, forstjóri:
„Rekstur Símasamstæðunnar gengur vel í ár og er samkvæmt væntingum. EBITDA er rúmum hálfum milljarði hærri en fyrstu níu mánuðina í fyrra, þrátt fyrir samdrátt í reiki og verðlækkanir í smásölu. Viðskiptavinum með farsíma hefur fjölgað og kynntar hafa verið nýjungar sem lofa góðu inn í framtíðina. Samstarfsaðilar okkar hafa áttað sig hratt á tækifærunum í Síminn Pay, sjávarútvegurinn fagnar örygginu sem Líflínan býður þeim og vinsældir Sjónvarps Símans Premium vaxa stöðugt.
Síminn býður upp á hraðasta farsímanet landsins, sem óháðir aðilar hafa staðfest annað árið í röð og yfir helmingur heimila á höfuðborgarsvæðinu á nú kost á að tengjast ljósleiðara Mílu. Samstæðan nýtur afraksturs mikilla fjárfestinga í innviðum undanfarin misseri, sem nýtist viðskiptavinum hennar og hluthöfum til framtíðar. Fjárfestingar hafa náð hámarki og í kjölfarið mun sterkt fjárflæði frá rekstri samstæðunnar hægt og rólega nýtast beint til aukinnar fjármunamyndunar.
Efnahagsreikningurinn var einfaldaður í upphafi fjórðungsins með endurskipulagningu skulda og handbærs fjár. Samstæðan er nú með sveigjanlegri rekstur og efnahag en fyrr og þannig vel í stakk búin til að bregðast við samkeppni og nýta tækifæri til sóknar.“
Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:
Orri Hauksson, forstjóri Símans, s. 550-6003 (orri@siminn.is)
Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans s. 550-6003 (oskarh@siminn.is)