Uppgjör Ísfélags á öðrum ársfjórðungi 2024
Helsta úr starfseminni. - Annar ársfjórðungur er sá ársfjórðungur þegar minnstu umsvifin eru í rekstri félagsins
- Verið er að útbúa Sigurbjörgu, nýjan togara félagsins, til veiða.
- Í vor var tekin ákvörðun um að loka fiskvinnslu félagsins í Þorlákshöfn í september nk.
- Verð á mörkuðum hefur almennt verið ágætt.
- Birgðir minnkuðu á tímabilinu.
- Afli skipa félagsins á fyrstu 6 mánuðum var tæp 26.000 tonn.
- Framleiddar afurðir voru um 14.700 tonn.
Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri tímabilsins. - Rekstrartekjur á öðrum ársfjórðungi námu 31,2 m.USD og 68,3 m.USD á fyrstu 6 mánuðum ársins.
- Hagnaður á rekstri nam 1,4 m.USD á öðrum ársfjórðungi og 0,3 m.USD, fyrstu 6 mánuðina.
- EBITDA annars ársfjórðungs var 7,2 m.USD eða 23%. Á fyrstu 6 mánuðum ársins var EBITDA 13,2 m.USD eða 19,4%.
- Heildareignir námu 764,9 m.USD þann 30.6.24 og var eiginfjárhlutfall 70%.
- Nettó vaxtaberandi skuldir voru 91,7 m.USD í lok júní.
Rekstur. Rekstrartekjur á öðrum ársfjórðungi námu 31,2 m.USD og á fyrri árshelmingi 2024 námu þær 68,3 m.USD samanborið við 82,2 m.USD á fyrri árshelmingi 2023. Loðnubrestur á vetrarvertíð 2023/2024 hafði mikil áhrif til tekjulækkunar. Hagnaður á rekstri annars ársfjórðungs nam 1,4 m.USD og var hagnaður fyrri árshluta 2024 því 0,3 m.USD, samanborið við hagnað 17,9 m.USD á fyrri árshelmingi 2023. Sama á við um rekstrarniðurstöðu og tekjur, þ.e. ástæðan er fyrst og fremst að ekki var veidd loðna á vetrarvertíð 2023/2024. EBITDA framlegð á öðrum ársfjórðungi var 7,2 m.USD eða 23%. Á fyrri árshelmingi 2024 var EBITDA framlegðin 13,2 m.USD eða 19,4% af rekstrartekjum.
Efnahagur. Heildareignir Ísfélagsins voru 764,9 m.USD þann 30.6.2024, þar af voru fastafjármunir 666,1 m.USD og veltufjármunir 98,8 m.USD. Í árslok 2023 voru heildareignir 804,4 m.USD, þar af voru fastafjármunir 663,4 m.USD og veltufjármunir 141 m.USD. Heildareignir lækkuðu um 17,5 m.USD á fyrri árshelmingi 2024. Rekja má lækkunina að mestu til til minnkunar birgða og lækkunar á handbæru fé. Eigið fé Ísfélagsins var 535,4 m.USD þann 30.6.2024, en var 554,2 m.USD í lok árs 2023. Eiginfjárhlutfallið var 70% þann 30.6.2024 en í lok árs 2023 var eiginfjárhlutfallið 68,9%. Nettó vaxtaberandi skuldir félagsins voru 91,7 m.USD þann 30.6.2024 en voru í árslok 2023, 98,5 m.USD. Sjóðstreymi. Á fyrri árshluta 2024 var handbært fé frá rekstri 30,1 m.USD, samanborið við 8 m.USD á fyrri árshelmingi 2023. Fjárfestingarhreyfingar fyrstu 6 mánuði ársins voru neikvæðar um 10,2 m.USD. Fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 32 m.USD. Lækkun á handbæru fé, fyrri árshluta 2024 var 12,9 m.USD og var handbært fé í lok tímabilsins 31,2 m.USD. Meginniðurstöður í íslenskum krónum á fyrri árshluta 2024. Þegar helstu niðurstöður úr rekstrarreikningi tímabilsins eru færðar yfir í íslenskar krónur á meðalgengi fyrstu 6 mánuði ársins 2024 (138,24) voru rekstrartekjur félagsins 9,4 milljarðar króna, rekstrarhagnaður 815,6 milljónir króna, hagnaður eftir skatta 38,7 milljónir króna og EBITDA 1,83 milljarðar króna. Sé staða á efnahag félagsins þann 30.6.24, færð í íslenskar krónur á lokagengi tímabilsins (139,09), eru heildareignir 106,4 milljarðar króna, fastafjármunir 92,6 milljarðar króna og veltufjármunir 13,7 milljarðar króna. Eigið fé í lok annars ársfjórðungs 2024 var 74,5 milljarðar króna og skuldir og skuldbindingar 31,9 milljarðar króna. Kynningarfundur 30. ágúst 2024. Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn í vefstreymi föstudaginn 30. ágúst klukkan 16:00. Streymið verður aðgengilegt á vefsíðu Ísfélagsins https://isfelag.is/streymi. Hægt er að senda spurningar á netfangið fjarfestatengsl@isfelag.is. Frá Stefáni Friðrikssyni forstjóra Í lok júlí kom Sigurbjörg, nýr togari félagsins, til landsins og verið er að búa hann til veiða. Við bindum miklar vonir við að skipið verði fengsælt og beri að landi úrvals hráefni. Það fylgir útgerð nýs skips að eldri skip hverfa úr rekstri og því hefur togaranum Ottó N. Þorlákssyni verið lagt og til stendur að hætta útgerð Jóns á Hofi í haust. Eftir þessar breytingar munu frystitogarinn Sólberg og Sigurbjörg veiða bróðurpartinn af bolfiskkvóta félagsins en auk þeirra gerir félagið út krókabátinn Litlanes. Í vor var tekin ákvörðun um að hætta fiskvinnslu félagins í Þorlákshöfn og verður henni lokað í september. Ástæðurnar eru, eins og áður hefur komið fram, annars vegar að félagið hefur ekki nægar aflaheimildir til þess að vera með bolfiskvinnslu á þremur stöðum og hins vegar aflabrestur í humarveiðum. Annar ársfjórðungur er yfirleitt sá ársfjórðungur þegar umsvifin eru hvað minnst í rekstrinum og þá er tíminn notaður til að sinna nauðsynlegu viðhaldi um borð í skipum og í landi. Birgðir félagsins minnkuðu á tímabilinu og verð á mörkuðum hefur almennt verið ágætt. Heildarafli skipa félagsins á fyrri helmingi ársins var 25.900 tonn samanborið við tæp 81.200 tonn á sama tímabili í fyrra og framleiddar afurðir voru 14.700 tonn samanborið við 31.300 tonn í fyrra. Í júní komu fram tillögur Hafrannsóknastofnunar um kvóta fyrir næsta ár í flestum nytjastofnunum. Það voru vonbrigði að sjá ekki tillögur um meiri aukningu í þorskkvótanum og ég verð að viðurkenna að minni úthlutun í íslensku síldinni kom mér mjög á óvart. Ég vil því nota þetta tækifæri og benda enn og aftur á brýna nauðsyn þess að auka hafrannsóknir. Þannig bætum við þekkingu okkar á lífríkinu í hafinu og minnkum þar með óvissuna um afrakstursgetu nytjastofnanna. Minni óvissa leiðir til þess að unnt er að taka betri og nákvæmari ákvarðanir um sjálfbærar veiðar úr fiskistofnunum. Vakin er athygli á breytingu á fjárhagsdagatali félagsins. Birting ársuppgjör félagsins fyrir árið 2024 færist frá 19. mars 2025, til 27. mars 2025. Fjárhagsdagatal: Birting uppgjörs þriðja ársfjórðungs 2024 – 29. nóvember 2024. Ársuppgjör 2024 – 27. mars 2025. Nánari upplýsingar veitir Stefán Friðriksson, forstjóri.
|