Á hluthafafundi Origo hf. þann 1. desember 2022 var samþykkt tillaga stjórnar félagsins um að lækka hlutafé félagsins með greiðslu til hluthafa. Samþykkt var að lækka hlutafé félagsins úr kr. 435.000.000 í kr. 140.000.000.
Lögboðin skilyrði fyrir framkvæmd hlutafjárlækkunarinnar eru nú fyrir hendi þar sem fyrirtækjaskrá hefur veitt félaginu undanþágu frá innköllunarskyldu, sbr. 2. mgr. 53. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög.
Lækkunin nemur kr. 295.000.000 að nafnverði. Lækkunarfjárhæð sem er umfram nafnverð, eða kr. 23.705.000.000 mun verða færð til lækkunar á óráðstöfuðu eigin fé. Samtals verða því kr. 24.000.000.000 greiddar til hluthafa hlutfallslega í samræmi við hlutafjáreign þeirra í félaginu í lok dags 8. desember 2022. Síðasti viðskiptadagur með réttindum til útgreiðslu vegna lækkunar hlutafjár er því þriðjudagurinn 6. desember 2022. Framkvæmd útgreiðslunnar verður eftirfarandi:
- Ex-dagur –1: 6. desember 2022
- Réttindaleysisdagur (Ex-dagur): 7. desember 2022
- Viðmiðunardagur: 8. desember 2022
- Lækkunardagur/greiðsludagur: 9. desember 2022
Hér á eftir fara nánari upplýsingar varðandi dagsetningar sem tilgreindar eru í framkvæmd lækkunar hlutafjár.
Ex-dagur - 1* - Síðasti viðskiptadagur
- Síðasti viðskiptadagur með bréfin ef núverandi hluthafi hyggst selja fyrir framkvæmd lækkunar.
- Kaupandi bréfanna mun fá bréfin afhent fyrir framkvæmd lækkunar og fá greiddar krónur til samræmis við ákvörðun hluthafafundar.
Réttindaleysisdagur (Ex-dagur)*
- Bréf hluthafa sem selur bréf sín á þessum degi eða seinna munu lækka og fær hluthafi greiddar krónur til samræmis við ákvörðun hluthafafundar.
- Seljandi verður að hafa í huga þann möguleika að bréf sem hann selur verða lækkuð fyrir afhendingu bréfa sem getur orðið til þess að viðkomandi haldi ekki á þeim fjölda bréfa sem hann skuli afhenda.
- Bréf kaupanda sem kaupir bréf í Origo hf. á þessum degi eða seinna munu ekki lækka og þar af leiðandi fær kaupandi ekki greitt.
Viðmiðunardagur
- Hlutafjáreign þeirra hluthafa sem skráðir eru í hluthafaskrá félagsins í lok þessa dags mun lækka til samræmis við ákvörðun hluthafafundar.
Lækkunardagur/Greiðsludagur
- Útgefið nafnvirði hlutafjár í Origo hf. mun lækka um kr. 295.000.000 að nafnvirði að morgni lækkunardags.
- Þeir hluthafar sem eiga bréf í lok viðmiðunardags fá greiddar krónur til samræmis við áður útgefna tilkynningu um niðurstöður hluthafafundar.
*Hér er miðað við að viðskipti séu gerð upp m.v. T+2 regluna.
Nánari upplýsingar veitir Gunnar Petersen, Fjármálastjóri Origo hf. í netfangi gp@origo.is eða gsm 825 9001