English Icelandic
Birt: 2024-05-07 19:04:58 CEST
Sýn hf.
Árshlutareikningur (Q1 og Q3)

Sýn hf.: Afkoma fyrsta ársfjórðungs 2024

Helstu atriði varðandi afkomu og samanburður milli ára

Árshlutareikningur samstæðu Sýnar hf. fyrir fyrsta ársfjórðung ársins 2024 var samþykktur á stjórnarfundi þann 7. maí 2024. 

 • Rekstrartekjur samstæðunnar á fyrsta ársfjórðungi (1F) 2024 námu 5.934 m.kr. og jukust um 1,3%  (1F 2023: 5.860 m.kr.). Þær skiptast þannig:
  • Fjölmiðlun 2.381 m.kr., hækkun um 10,0% milli ára (1F 2023: 2.165 m.kr.). Leiðrétt fyrir auknum tekjum vegna innkomu Já, er tekjuvöxtur á milli ára 3,6%.
  • Internet 1.147 m.kr., hækkun um 3,4% milli ára (1F 2023: 1.109 m.kr.)
  • Farsími 1.062 m.kr., lækkun um 11,5% milli ára (1F 2023: 1.200 m.kr.)
  • Fastlína 106 m.kr., lækkun um 9,3% á milli ára (1F 2023: 116 m.kr.)
  • Hýsingar- og rekstrarlausnir (Endor) 708 m.kr., hækkun um 0,8% á milli ára (1F 2023: 702 m.kr.)
  • Vörusala 288 m.kr., lækkun um 12,5% á milli ára (1F 2023: 329 m.kr.)
  • Aðrar tekjur 242 m.kr., hækkun um 1,5% á milli ára (1F 2023: 238 m.kr.)
 • Sterkur tekjuvöxtur í auglýsingatekjum nam 22%, þar af 51% í auglýsingatekjum sjónvarps, og er umfram væntingar stjórnenda. Lækkun í farsímatekjum um 138 m.kr. skýrist einkum af lækkun í IoT tekjum. Viðsnúningur var í heimatengingum með rúmum 6% vöxt frá fyrra ári en einnig var öflugur vöxtur í tekjum af gestareiki (30%).
 • EBITDA 23,2% af tekjum eða 1.379 m.kr. (1F 2023: 25,5% og 1.497 m.kr.).
 • Rekstrarhagnaður EBIT  2,0% af tekjum eða 119 m.kr. (1F 2023: 7,3% og 428 m.kr.).
 • Tap ársfjórðungsins nam 153 m.kr. (1F 2023: hagnaður 213 m.kr.) og eiginfjárhlutfall var 29,5%.
 • Skipulagsbreytingar: Starfslok gerð við framkvæmdastjóra, deildir sameinaðar og stöðugildum fækkað um 20 á tímabilinu. Sparnaður á ársgrundvelli áætlaður um 380 m.kr., þegar breytingar koma fram að fullu á 4F 2024.

„Stjórn og lykilstjórnendur Sýnar eru sammála um að arðsemi fyrirtækisins hafi ekki verið ásættanleg undanfarin ár. Við erum jafnframt samstíga um að hefja stefnumótunar vegferð félagsins undir merkjum skilvirkni, vaxtar og samvinnu, sem leitast við að gefa viðskiptavinum, starfsmönnum og fjárfestum, skýra mynd af markmiðum og áherslum fyrirtækisins. Gildi félagsins eru Gleði - Ástríða – Metnaður sem verður drifkraftur fyrirhugaðrar vegferðar.

Frá því ég hóf störf hjá Sýn hefur samstarfsfólk mitt sýnt mikla áræðni, drifkraft og metnað til að efla rekstur samstæðunnar enn frekar. Þeirri vegferð verður haldið áfram með skýrri stefnu og framsetningu á lykiláherslum og þannig getum við fært markaðsaðilum reglulega fréttir af framgangi verkefna. Samtakamáttur og skýr stefna er lykilþáttur í árangri. Það má segja að vegferðin fari vel af stað. Skipulagsbreytingar sem nú þegar hefur verið gripið til á þessu ári, munu skila um 32 m.kr. sparnaði á mánuði, eða um 380 m.kr. á ársgrundvelli þegar áhrif þeirra verða að fullu komin fram.

Á fyrsta ársfjórðungi, var ég einstaklega ánægð með sterkan tekjuvöxt í auglýsingatekjum og einnig er ánægjulegt að sjá góðan viðsnúning í heimatengingum. Reikitekjur halda til viðbótar áfram að vaxa. Farsímatekjur lækka hins vegar frá sama tímabili í fyrra, líkt og greint var frá í nýlegri tilkynningu. Rekstrarafkoma félagsins er ekki ásættanleg en hins vegar er gert ráð fyrir umtalsverðum rekstrarbata á síðari hluta ársins og á því næsta, eftir því sem skipulagsbreytingar ná fram að ganga,“ segir Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar.

ViðhengiSyn hf. Frettatilkynning 1F 2024 - ISL.pdf
Syn hf. Samstuarshlutareikningur 1F 2024.pdf