English Icelandic
Birt: 2022-06-17 00:07:16 CEST
Festi hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Festi hf.: hluthafafundur

Stjórn Festi hf. boðar til hluthafafundar sem haldinn verður fimmtudaginn 14. júlí 2022 klukkan 10.00 árdegis í höfuðstöðvum félagsins að Dalvegi 10-14, Kópavogi.

Á dagskrá fundarins verður eitt mál: Stjórnarkjör. Í upphafi fundarins mun stjórn félagsins segja af sér til að tryggja að stjórnarkjör fari fram. Tilgangur fundarins er að gefa hluthöfum færi á að kjósa nýja stjórn, eftir atvikum að endurnýja umboð sitjandi stjórnar, eða kjósa nýja eða breytta stjórn, allt eftir því hvað hluthöfum sýnist og hverjir gefa kost á sér til stjórnarstarfa.

Dagskrá fundarins

  1. Stjórnarkjör.

Aðrar upplýsingar:

Öll skjöl og tillögur sem lögð verða fyrir hluthafafundinn verður að finna á vefsíðu félagsins www.festi.is/fjarfestatengsl. Þar má einnig finna skýrslu Tilnefningarnefndar þegar hún verður tilbúin, sbr. það sem síðar segir. Hluthöfum stendur einnig til boða að nálgast skjölin í höfuðstöðvum félagsins að Dalvegi 10-14, Kópavogi, virka daga milli klukkan 9:00-16:00. Fundurinn fer fram á íslensku og verða fundargögn jafnframt á íslensku.

Hluthafar geta látið umboðsmann sækja hluthafafundinn fyrir sína hönd. Umboðsmaður skal leggja fram skriflegt umboð.

Ekki verður hægt að greiða atkvæði með rafrænum hætti á fundinum. Hluthöfum gefst kostur á að greiða atkvæði um mál sem eru á dagskrá fundarins bréflega. Skal beiðni um slíka atkvæðagreiðslu hafa borist skrifstofu félagsins eða á netfangið hluthafar@festi.is eigi síðar en fimm dögum fyrir fundinn, þ.e. fyrir kl. 10.00 laugardaginn 9. júlí 2022.

Hluthafar eiga rétt á að fá ákveðin mál tekin til meðferðar á hluthafafundi ef þeir gera um það skriflega eða rafræna kröfu. Óski hluthafi eftir að koma máli eða tillögu á dagskrá hluthafafundarins skal slík beiðni hafa borist skrifstofu félagsins eða á netfangið hluthafar@festi.is eigi síðar en tveimur vikum fyrir fundinn, þ.e. fyrir kl. 10.00 fimmtudaginn 30. júní 2022.

Endanleg dagskrá og tillögur verða birtar viku fyrir fundinn.

Tilnefningarnefnd tekur við framboðum til stjórnar til kl. 10 þriðjudaginn 28. júní 2022. Tilnefningarnefnd mun skila skýrslu sinni og tillögu um stjórnarmenn eigi síðar en kl. 10 þriðjudaginn 5. júlí 2022.

Fráfarandi stjórn Festi hf. hefur lagt til við Tilnefningarnefnd að hún geri tillögu um fleiri stjórnarmenn en fimm í þetta sinn svo tryggt sé að hluthafar geti kosið á milli frambjóðenda og ekki verði sjálfkjörið. Fulltrúi stjórnar í Tilnefningarnefnd mun ekki að þessu sinni taka þátt í störfum nefndarinnar.

Tillaga Tilnefningarnefndar takmarkar ekki frekari framboð til stjórnar. Samkvæmt 63. gr. a. hlutafélagalaga nr. 2/1995 ber að tilkynna um framboð til stjórnar skriflega með minnst fimm sólarhringa fyrirvara fyrir aðalfund, eða fyrir kl. 10.00 laugardaginn 9. júlí 2022. Framboðum skal skila á skrifstofu Festi hf., Dalvegi 10-14, Kópavogi, eða á netfangið hluthafar@festi.is. Upplýsingar um frambjóðendur til stjórnar verða birtar eigi síðar en þremur sólarhringum fyrir aðalfund. Hluthafar eiga rétt á að krefjast hlutfallskosningar eða margfeldiskosningar við stjórnarkjör í tvo sólarhringa frá því að stjórn kunngerir niðurstöður framboða til stjórnar, ef ekki er sjálfkjörið.

Aðgöngumiðar, atkvæðaseðlar og önnur fundargögn verða afhent frá klukkan 9.30 á fundardegi.