Published: 2018-05-18 19:20:34 CEST
Reginn hf.
Aðrar upplýsingar sem birtar eru í samræmi við reglur Kauphallarinnar

Reginn hf. undirritar kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í dótturfélögum FAST-1 slhf.


Í tilkynningu Regins þann 19. nóvember 2017 kom fram að undirritað hefði verið samningur um helstu skilmála um fyrirhuguð kaup á öllu hlutafé dótturfélaga FAST-1 slhf., HTO ehf. og FAST-2 ehf.

Í dag var undirritaður kaupsamningur milli Regins og FAST-1 á grunni ofangreinds samnings. Undirritun kaupsamnings er gerð í kjölfar áreiðanleikakönnunar sem nú er lokið. Samhliða því var heildarvirði félaganna lækkað um 482 m.kr. og er nú 22.717 m.kr.

Stærstu eignir félaganna eru Katrínartún 2 (turninn Höfðatorgi) og Borgartún 8-16. Aðrar eignir eru Skúlagata 21, Vegmúli 3 og Skútuvogur 1. Samtals telur fasteignasafnið 44 þúsund fermetra ásamt bílakjallara með yfir 600 bílastæðum. Eignirnar eru í 98% útleigu til traustra leigutaka en 57% af leigutekjum félaganna koma frá opinberum aðilum. Meðal stærstu leigutaka eru Reykjavíkurborg, Fjársýsla Ríkisins, Reiknistofa Bankanna og Fjármálaeftirlitið.

Með viðskiptunum verður eignasafn Regins hf. 369 þúsund fermetrar og falla fyrirhuguð kaup vel að fjárfestingastefnu félagsins sem felur m.a í sér að auka hlut félagsins í hágæða atvinnuhúsnæði á sterkum markaðssvæðum.

Heildarvirði hins keypta er samtals 22.717 m.kr. og verður að fullu fjármagnað með útgáfu á nýju hlutafé í Regin að nafnverði 220.532.319 á genginu 24,53, lánsfé og yfirtöku áhvílandi skulda. Sölutakmarkanir eru á þriðjungi hlutanna í 4 mánuði frá afhendingardegi og þriðjungi hlutanna í 2 mánuði frá afhendingardegi.

Ef af kaupunum verður er áætlað að EBITDA Regins hækki um 1.240 m.kr. á ársgrundvelli og að arðsemi kaupanna verði um 5,5%.

Viðskiptin eru m.a. háð skilyrðum um að hluthafafundur FAST-1 samþykki kaupin, samþykki Samkeppniseftirlitsins og endanlegri fjármögnun kaupanda.

Nýr eignarhlutur í Regin, ef af verður, yrði um 12% sem afhendist seljanda, FAST-1 slhf. Á meðal stærstu hluthafa FAST-1 eru Gildi-lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður verzlunarmanna með tæplega 20% hlut hver, Festa lífeyrissjóður með tæplega 10% hlut og Almenni lífeyrissjóðurinn með tæplega 7% hlut.

Ráðgjafi Regins í viðskiptunum var Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hf.


Nánari upplýsingar veitir:

Helgi S. Gunnarsson

Forstjóri Regins hf.

S: 512-8900 / 899 6262